- Advertisement -

Vindhani sem snýst í logni

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í fyrrakvöld þá sagði Einar Þorsteinsson í viðtali hjá RÚV varðandi núverandi meirihlutaviðræður í borginni „Það þarf að vera mjög skýrt að hægt sé að knýja fram breytingar á pólitískri forystu“. Afarkosturinn táknar að ef flokkarnir ná samkomulagi þá mun reynslulaus Einar gera kröfu um að verða borgarstjóri.  Annars fer Framsókn í fýlu. Á blaðamannafundi í gær þá var annar tónn í Einari þegar hann sagði  „Ég tel það ekki skynsamlegt að setja fólki, sem ég ætla að ræða við um málefnin, einhverja afarkosti að fá borgarstjórastólinn“. Einar veit augljóslega ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Margsnýst um sjálfan sig þó logn ríki í borginni vegna veðursældar. 

Þetta er óefnilegt þegar þörf er á festu og öryggi við stjórn borgarinnar eins og undanfarin ár enda mörg mál á krossgötum. Einar og aðrir reynslulausir fulltrúar Framsóknar verða að átta sig á að Reykvíkingar vilja ekki vindhana í borgarstjórastólinn. Kannanir sýna að langflestir borgarbúa vilja núverandi borgarstjóra áfram um sinn um leið og nauðsynlegt er að opna á hraðari uppbyggingu í húsnæðismálum í austurhluta borgarinnar. Sú stefnubreyting var nú reyndar komin á dagskrá fyrir kosningarnar og því erfitt að sjá að Einar og félagar hafi eitthvað nýtt fram að færa. Hegðun hans er því einhver sýndarveruleiki byggður á röngu stöðumati og ringulreið Framsóknar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: