- Advertisement -

Vinir Garðabæjar

Jóhann Þorvarðarson:

Svona rekur slóðin sig aftur til Vafningsáranna og Sjóðs 9 hjá Íslandsbanka. En hættum að tala um óþokkapiltinn. Hann má rústa Sjálfstæðisflokknum óáreittur mín vegna, en honum skal ekki takast að afsiðvæða Ísland.

Enn eina ferðina snýst þjóðfélagsumræðan um fjármálaráðherra landsins og verk hans. Það er nefnilega  viðvarandi sóðaskapur í kringum hann sem veldur. Ábyrgðarlaus, óvandvirkur, hirðulaus, fúskari, trassi, skeytingarlaus, afglöp, kærulaus, axarsköft, klúður og vinnusvik eru allt lýsingarorð sem koma upp í hugann minn þegar hann er annars vegar. Bjarnaslóðin nær fram fyrir fjármálahrunið og ætti öllum að vera ljóst að eitthvað hlýtur að vanta upp á siðferðileg gildi stjórnmálanna.

Nú nýlega þurfti ung kona að segja af sér ráðherraembætti í Noregi fyrir vina- og frændhygli. Boris Johnson sagði af sér embætti fyrir að brjóta sóttvarnarlög. Og var síðan vísað út á götu við þinghúsið fyrir að reyna að ljúga til um málsatvik. Eitt sinn sagði sænsk kona af sér ráðherraembætti því hún notaði strætómiða í einkaerindum. Og fyrir skömmu þá sagði kona af sér embætti fyrsta ráðherra Skotlands vegna þess að eiginmaður hennar sætir rannsókn fyrir meint fjármálamisferli. Ekkert hefur enn sannast, en það dugar því siðferðilegar kröfur Skota er ekki eitthvað sem gengið er um af léttúð.

Önnur sjónarmið eiga aftur á móti við á Íslandi. Æskuvinur fjármálaráðherra stýrir Bankasýslunni. Sami ráðherra brýtur sóttvarnarreglur á Ásmundarsafni og sigar síðan dómsmálaráðherra á lögregluna á aðfangadag. Hann selur pabba sínum hlut í Íslandsbanka og neitar að opinbera skýrslu setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol. Svona rekur slóðin sig aftur til Vafningsáranna og Sjóðs 9 hjá Íslandsbanka. En hættum að tala um óþokkapiltinn. Hann má rústa Sjálfstæðisflokknum óáreittur mín vegna, en honum skal ekki takast að afsiðvæða Ísland.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tölum því frekar um vinkonurnar tvær sem stjórna Vinstri grænum eftir eigin geðþótta ef ekki af gerræði. Persónulegur metnaður þeirra er svo takmarkalaus að þeim munar ekkert um að rústa hreyfingunni með svikum við málstaðinn og heilbrigt siðferði. Horfa því blindum augum á hegðun fjármálaráðherra. Þetta þarf að ræða og þá verður ekki hjá því komist að fara mynduglega í umræðuna. Þær hafa unnið fyrir því.

Önnur þeirra er pólitískur lögbrjótur enda með tvo dóma á sér og stutt gæti verið í þann þriðja. Hin vinkonan er haldin alvarlegri mótþróaröskun að eigin sögn og veit ekkert skammarlegra en að þurfa að viðurkenna mistök. Hún er ófær um að segja „afsakið, en mér urðu á mistök“. Inn á þennan veikleika spilar Sjálfstæðisflokkurinn enda er litið á hreyfinguna sem sérstaka vini Garðabæjar. Þær stöllurnar halda ótvírætt  Sjálfstæðisflokknum við völd þó það rigni eldi og brennisteini í siðferðilegum skilningi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: