- Advertisement -

Vonleysi þess að stjórna með auðvaldinu

Gjaldið fyrir að samþykkja hálendisþjóðgarð í stjórnarsáttmála var að fallast á sölu ríkisbankana.

Gunnar Smári skrifar:

Vonleysi þess að stjórna með auðvaldinu er að opinberast þessa dagana. VG náði þeim árangri að koma Miðhálendisþjóðgarði í stjórnarsáttmála. Og ástæða er sú að auðvaldið veit að það er enginn orkuskortur á Íslandi, álver munu fljótlega loka og í raun er fyrirsjáanlegt að hér verður umtalsverð umframorka. Það er því ósárt fyrir auðvaldið að samþykkja Hálendisþjóðgarð, sem það gerir þó með hangandi haus, hótar alla leið að fara gegn málinu með því að gefa fúlu körlunum (Páll Magnússon, Brynjar Níelsson, Ásmundur Friðriksson, Sigríður Á. Andersen o.fl.) lausan tauminn.

Gjaldið fyrir að samþykkja Miðhálendisþjóðgarð í stjórnarsáttmála var að fallast á sölu ríkisbankanna, sem álíka stór hluti þjóðarinnar er ósáttur við og er fylgjandi Miðhálendisgarði. Ef auðvaldið fellst á að fara að vilja þjóðarinnar á hálendinu vill það fá borgað fyrir það, fá eitthvað að launum, t.d. að fara gegn vilja þjóðarinnar í bankamálum.

Öll barátta er upp á punt og í plati.

Og skiptin eru þá þau að VG fær Miðhálendisþjóðgarð, sem í raun er sigur í unnu stríði, því það eru engar forsendur fyrir fleiri virkjunum á hálendinu, í skiptum fyrir sölu ríkisbankanna sem sannarlega er sigur fyrir auðvaldið í óunnu stríði, gríðarlegum átökum sem einkennt hafa samfélagið eftir Hrun; um hvort hér eigi að keyra áfram dólgakapítalisma og þjófræði eins og ekkert hafi gerst eða hvort við eigum að byggja hér upp skaplegra samfélag.

Vandinn við að heyja réttlætisbaráttu innan kapítalismans í samstarfi við kapítalistana sjálfa er að þú færð engan sigur nema þann sem kapítalistarnir eru tilbúnir að gefa frá sér. Þú breytir í raun engu. Öll barátta er upp á punt og í plati, í raun er ekki tekist á um nein grundvallarmál heldur er þér aðeins færðir sigrar, sem í raun eru ekki sigrar heldur aðeins endurskoðun auðvaldsins á eftir hverju það er að sækjast. Það er ekkert á hálendinu sem auðvaldið girnist, en það girnist bankana. Það hefði mátt vera heitið á stjórnarsáttmálanum.

Eina leiðin til að ná einhverjum samfélagsbreytingum er að almenningur taki völdin af auðvaldinu.

Annað sambærilegt dæmi er fjármagnstekjuskattur. Hækkun hans úr 20% í 22% (sem enn er langt undir skattprósentu í nágrannalöndum okkar) var kynnt af VG sem sigur réttlætis. Síðan kemur í ljós að í stjórnarsáttmálunum stóð að á móti ætti að veikja skattstofninn svo að í reynd myndi enginn fjármagnseigandi þurfa að borga hærri skatta. Fyrst vildi auðvaldið að skatturinn yrði lagður á raunávöxtun, það er tekjur að teknu tilliti til verðbólgu, en það reyndist óframkvæmanlegt (enda hvergi gert í veröldinni). Þá ákvað auðvaldið að gefa öllum fjármagnseigendum 300 þús. kr. eingreiðslu í skaðabætur fyrir að xD hafði ekki tekist að leysa þrautina með raunávöxtunina. Þetta er mun meiri skattalækkun en launafólk fékk í hinum svokölluðu lífskjarasamningum.

Niðurstaðan er þá sú að VG má kynna sigur í réttlætisbarátunni, áfanga í að skattleggja hin ríku, sem höfðu rænt ríkissjóð áratugina á undan með taumlausum skattalækkunum sér til handa. Svo má xD laga skattkerfið þannig að í reynd hækki engar skattgreiðslur.

Eina leiðin til að ná einhverjum samfélagsbreytingum er að almenningur taki völdin af auðvaldinu. Þessi hugmynd VG, að elíta hinna fyrrum vinstri flokka, geti stýrt í kompaní með auðvaldinu (besti samstarfsmaður sem ég hef haft, sagði KJ um BB) er algjör firra. Ef við teljum að markmiðið sé að ná fram breytingum. Ef markmiðið er hugguleg innivinna fyrir elítuna þá er náttúrlega alltaf skjól fyrir svoleiðis fólk hjá auðvaldinu, kapítalistarnir þurfa alltaf fleiri þjóna enda er oft flókið fyrir þá að koma vilja sínum fram gegn hagsmunum og hugmyndum meginþorra fólks.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: