- Advertisement -

Vopnafjarðarhreppur leiðréttir ekki að fullu vangoldin lífeyrisiðgjöld


Allar götur síðan skilaði hreppurinn 8% mótframlagi í stað 11,5% eins og kjarasamningurinn kvað á um í raun.

Afl starfsgreinafélag: Ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps um að standa ekki við loforð er varða uppgjör á vangoldnum lífeyrissjóðsiðgjöldum er mikið áfall fyrir þá tugi starfsmanna hreppsins sem trúðu yfirlýsingum fyrrverandi sveitarstjóra og samþykktum sveitarstjórnar um að málið yrði gert upp að fullu.

Forsaga málsins er að allt frá 2005 skilaði Vopnafjarðarhreppur of lágu mótframlagi í lífeyrissjóð vegna starfsmanna sinna.  2005 gerði Stapi Lífeyrissjóður (Lífeyrissjóður Austurlands á þeim tíma) athugasemd við launafulltrúa hreppsins en fékk þá þær upplýsingar að hreppurinn væri ekki aðili að þeim kjarasamningi sem Stapi taldi eiga fara eftir.

Allar götur síðan skilaði hreppurinn 8% mótframlagi í stað 11,5% eins og kjarasamningurinn kvað á um í raun.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Málið komst á dagskrá 2016 er einn félagsmanna AFLs hafði samband við félagið sem þegar hóf samskipti við sveitarfélagið og í ljósi yfirlýsinga m.a. fyrrverandi sveitarstjóra sem hann gaf á fjölmennum fundi með félagsmönnum AFLs og lofaði þar að enginn yrði fyrir skerðingu lífeyris vegna þessa og að málið yrði gert alfarið upp – kom samþykkt meirihluta sveitarstjórnarinnar eins og köld vatnsgusa framan í félagsmenn.

Sveitarstjórn samþykkti að greiða að fullu vangoldin iðgjöld ásamt vöxtum vegna áranna 2013 – 2016 en aðeins höfuðstól iðgjalda 2005 – 2012.  Höfuðstóll vangoldinna iðgjalda er 42 milljónir króna og með eðlilegri ávöxtun – þ.e. meðalávöxtun Stapa á þessum árum er krafa sjóðsins 72 milljónir króna.  Stapi Lífeyrissjóður lagði til að miða uppgjör vegna málsins við eignavísitölu sjóðsins í stað dráttarvaxta, sem gerði launþega jafnsetta og ef greitt hefði verið skv. kjarasamningum frá upphafi.

Samþykkt sveitarstjórnar vísar til ábyrgðar sveitarstjórnarmanna á því að fara vel með fé og einnig í bága stöðu sveitarfélagsins.  Það virðist því vera hluti af „ábyrgri fjármálastjórn“ að hafa lífeyri af starfsmönnum sem unnið hafa sveitarfélaginu af trúmennsku í áraraðir.  Enn fremur að það séu rök fyrir því að hafa umsamin lífeyrisréttindi af fólki – að sveitarfélagið sé rekið „undir væntingum“.

Svo virðist sem sveitarstjórnarmenn skilji ekki hvernig lífeyrissjóðir virka – því margoft hefur komið fram í samskiptum ósk þeirra um að Stapi taki hluta tjónsins á sig.  Stapi Lífeyrissjóður á enga peninga heldur eru allir fjármunir sem þar eru vistaðir, eyrnamerktir sjóðfélögum.  Þannig að til að bæta einum sjóðfélaga tap vegna vangreiddra iðgjalda þarf að taka réttindi af öðrum en til þess hefur stjórn sjóðsins enga heimild.

AFL Starfsgreinafélag mun fara yfir málið með lögmönnum sínum og óska eftir samráði við Stapa lífeyrissjóð um áframhald málsins – en ljóst er að félagið mun ekki sætta sig við þessi málalok.  Þrátt fyrir ákvæði laga um fyrningu krafna – lítum við svo á að það eigi ekki við í þessu tilviki og fyrir því séu mörg rök . Benda má á að 18. janúar 2018 kom fyrrverandi sveitarstjóri til fundar við félagsmenn AFLs sem vinna hjá Vopnafjarðarhrepp og lofaði þar því að málið yrði gert að fullu upp.  Við lítum svo á að með því hafi skuldbindandi loforð verið gefið og það er fjarri að það sé fyrnt. 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: