
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Willum Þór virðist ætla vera sami vindhaninn og Svandís Svavars sem sló úr og í með sóttvarnir. Fyrirsjáanleikinn er enginn, sem er það versta í faraldrinum.

Það er undarlegt að hlusta á nýjan heilbrigðisráðherra fabúlera um mögulegar tilslakanir í sóttvarnaraðgerðum eftir tvær vikur. Jafnvel fyrr, ef upplýsingar um omíkron afbrigðið eru þess eðlis. Það er eins og valdhafar hafi gullfiskaminni því reynslan sýnir okkur að í hvert sinn sem opnað er fyrir lengri opnunartíma kráa og samkomufjöldi vissra atburða er aukinn þá fara smittölurnar á flug. Innviðir heilbrigðiskerfisins brenna yfir og skólakerfið fer að hökta með auknum þunga.
Áhrifin eru vond á allt hagkerfið og atvinnulífið. Fjárhagstap fjöldans er mikið og veitingahúsaeigendur græða líka minna þegar upp er staðið. Willum Þór virðist ætla vera sami vindhaninn og Svandís Svavars sem sló úr og í með sóttvarnir. Fyrirsjáanleikinn er enginn, sem er það versta í faraldrinum. Stefnufesta í sóttvörnum, sem vernda innlenda hluta hagkerfisins, gefur þjóðhagslega mest af sér.
Það eru því vonbrigði að hlusta á Willum Þór, sem ætlar að bjóða upp á áframhaldandi hringlandahátt. Bugta sig fyrir kröfum Áslaugar Örnu og Þórdísar Kolbrúnar um óskilgreint frelsi. Eða er það frelsi til að smita aðra? Willum byrjar illa, er í krummafæti.