- Advertisement -

Yfirgengilegt bull oddvita rasistaflokksins

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Sjálfstæðismaðurinn Einar Þorsteinsson, sem klæðist sauðargæru Framsóknar í borgarstjórnarkosningunum, var með yfirgengilegt bull á dögunum. Sagði íbúa Grafarvogs hundóánægða með hverfið sitt. Sjálfur bý ég í Grafarvoginum og kannast alls ekki við óánægju íbúanna. Þekki ljómandi vel til.

Samgöngur úr Grafarvogi eru greiðar og get ég valið um þrjár hraðvirkar brautir án þess að finna fyrir umferðarteppu á álagstíma. Innan Grafarvogs er síðan auðvelt að ferðast og skiptir ekki máli hvaða samgöngumáta þú velur. Góðir hjóla- og göngustígar eru um allt ásamt undirgöngum. Auðvelt er að komast í nærliggjandi úthverfi hvort sem maður velur einkabílinn eða ekki. Strætóferðir eru tíðar innan hverfisins og út úr því. Allar strætóleiðir bera mann síðan á safnstöð þar sem ýmsir vagnar eru samstilltir í tíma. Þetta þekki ég af eigin raun því ég nota strætó hiklaust. Síðan er snjómokstur til fyrirmyndar.

Ég fer reglulega í lengri gönguferðir og get valið úr mörgum fallegum leiðum án truflunar frá bílaumferð. Frá útidyrum og upp á Úlfarsfell get ég gengið án samflots við akstursmengun og ef ég vel styttri göngu og vill upp á fellið þá tekur það mig innan við 10 mínútur að komast að rótum fellsins með strætó.

Heilsugæsla er vel staðsett fyrir alla hluta hverfisins og sjálfstæðar læknastofur er að finna bæði í Spönginni og á Höfðanum. Skólar eru margir og hér má finna menntaskóla. Sundlaugin er góð enda mikið notuð. Aðstaða til íþróttaiðkunar er fjölbreytt og jafnast á við það besta sem er að finna á Íslandi. Aðgengi ungviðisins að íþróttaiðkun er einstaklega gott hvort sem það er að Fjölnisvelli eða Egilshöll. Og allir strætóvagnar stoppa þar fyrir utan. Góðir göngustígar bera æskuna örugga leið kjósi hún stígana. 

Nú hefur íþróttafélagið Fram fært sig yfir í Grafarholt og hefur ungdómurinn nú úrval. Það hefur nefnilega verið vandamál hjá Fjölni hvað iðkendur eru margir. Samtenging Grafarvogs og Grafarholts er góð. Breiður stígur í gegnum undirgöng á  Vesturlandsvegi fer beinust leið í hjarta Úlfarsársdals og að æfingasvæði Fram. Auðvelt er einnig að taka strætó milli hverfanna eins og ég lýsti að ofan. 

Fjölmarga veitingastaði og þjónustufyrirtæki er að finna í Grafarvoginum eða á Höfðanum og færa má rök fyrir því að Grafarvogurinn sé sjálfbærasta hverfi Reykjavíkur. Mér er til efs að Einar Þorsteinsson hafi sjálfur komið í Grafarvoginn sér til gagns, en hann er svo sannarlega með neikvæðar hugmyndir um Grafarvoginn. Ég hef ekki orðið var við Einar hér í hverfinu á vegum Framsóknarflokksins og kannski bara best að hann sleppi því að koma. Neikvæðnin og niðurrifið er óvelkomið.   


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: