
Jóhann Þorvarðarson:
Fimmtán ár þar sem lánsfé hefur verið nánast ókeypis vegna núllvaxtastefnu Vesturlanda er að koma í hausinn á okkur á leifturhraða eins og hvert annað búmerang.
Skulda- og hlutabréfamarkaðir skjálfa beggja vegna Atlantshafs. Ofan í mikla verðbólgu og hækkandi vexti þá heyrast ótíðindi um fall banka vestanhafs og vondar fréttir heyrast af stöðu ýmissa evrópskra banka. Hlutabréfaverð banka falla svo hratt að stöðva þurfti viðskipti með bréf í tilteknum evrópskum bönkum í morgun. Þar á meðal er franski bankinn Societe Generale og elsti banki veraldar, Monte dei Paschi frá Ítalíu.
Nú reynir ekki einungis á gæði eigna- og lánasafna banka heldur einnig á gamalkunnugt vandamál um hvort bankar hafi hleypt eigin gírun og viðskiptamanna sinna of hátt upp (græðgi á mannamáli). Kemur til óhóflegra innkallana eftir auknu varnarfé. Ellegar geta bankar lent í meiriháttar vanda með tilheyrandi áhlaupi viðskiptavina, sem taka innistæður sínar út og geyma í ferðatöskum. Ástandið sem upp er komið er í senn afar viðkvæmt og hættulegt. Hlutirnir geta farið illa og á leifturhraða. Íslenskir bankar eru ekki í vari og gætu til dæmis lent í óvæntum fjármögnunarvanda.
Aðilar keppast við að tala um sterka lausafjár- og eiginfjárstöðu. Þrátt fyrir þetta þá ákvað Seðlabanki Íslands í morgun að hækka framlög banka í sveiflujöfnunarsjóð upp í 2,5 prósent þrátt fyrir meinta sterka stöðu. Þetta er ígildi þess að neyða banka til auka bæði óvirkt eigið fé og draga úr útlánum. Credit Suisse sem nú er í eldlínunni segir lausafjárstöðu sína ógnarsterka á sama tíma og bankinn getur ekki upplýst um óinnleyst tap vegna virðisrýrnunar eigna.
Einn þessarar manna er fjármálaráðherra Íslands.
Hinn heimsþekkti Nouriel Roubini, sem sá fyrir hrun markaða árið 2008, líkir stöðu Credit Suisse við stöðu Lehman fjárfestingabankans fyrir hrunið. Fall bankans hratt af stað fjármálakreppunni miklu.
Fall Silicon Valley Bank á dögunum kom Seðlabanka Bandaríkjanna og eftirlitsaðilum í opna skjöldu þrátt fyrir aðgang að bestu mögulegu rauntíma upplýsingum. Það sama má segja um stöðu Credit Suisse og fleiri evrópskra banka. Þrátt fyrir þetta þá hafa þrír Íslendingar stígið fram og tjáð sig um stöðuna eins og að þeir hafi aðgang að betri upplýsingum en Seðlabanki Bandaríkjanna og Evrópu. Og betri upplýsingar en markaðurinn og forseti Bandaríkjanna.
Einn þessarar manna er fjármálaráðherra Íslands. Hann sagðist búast við að á ferðinni sé skjálfti sem gangi hratt yfir. Hvaða upplýsingar hefur hann sem forseti Bandaríkjanna hefur ekki, en hann hélt blaðamannafund í Washington á mánudag í tilraun til að róa markaði. Það mistókst.
Gylfi Magnússon prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands lét hafa eftir sér að hann teldi að kerfislægur vandi væri ekki á ferðinni. Hvaða upplýsingar hefur hann sem forseti Bandaríkjanna hefur ekki, en sá gat ekki slegið því föstu að kerfislægur vandi væri út úr myndinni. Síðan er það Jón Daníelsson prófessor við London School of Economics. Hann var á sömu línu og Gylfi. Svona eins og að prófessorarnir tveir hafi sammælst um sínar yfirlýsingar.
Sjálfur treysti ég mér ekki til að segja annað en það að staðan er afar viðkvæm og að hún komi ekki á óvart. Fimmtán ár þar sem lánsfé hefur verið nánast ókeypis vegna núllvaxtastefnu Vesturlanda er að koma í hausinn á okkur á leifturhraða eins og hvert annað búmerang.