- Advertisement -

Yfirtaka ríkisins á Icelandair gæti verið hafin

Lítill áhugi fyrir bréfunum er því ákveðin niðurstaða.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þær upplýsingar sem koma frá Icelandair að til greina komi að sölutryggja hlutabréf upp á 20-23 milljarða króna í væntanlegu hlutafjárútboði segir mér að lífeyrissjóðir ætli ekki að fjárfesta í félaginu. Þetta eru þá niðurstöður þeirra þéttu samtala sem Bogi Nils forstjóri Icelandair hefur átt við sjóðina að eigin sögn. Lítill áhugi fyrir bréfunum er því ákveðin niðurstaða. Þetta á við um öll önnur flugfélög í heiminum. Áhugi gæti samt verið einhver hjá áhættusæknum fjárfestum, áhættufíklum. Niðurstaðan kemur mér ekki á óvart enda markaðsaðstæður flugfélaga einstaklega slæmar og þannig verður það í nokkur ár. Offramboð er á flugsætum og eftirspurnarskortur allsráðandi.

Verði hlutabréfin sölutryggð þá lendir það á Lands- og Íslandsbanka, sem eru báðir í ríkiseigu, að taka áhættuna. Eitthvað samtal hefur augljóslega farið fram um þetta atriði. Í því tilfelli þá getur ríkisstjórnin ekki annað en hafa komið að því samtali. Verði þetta niðurstaðan þá er ríkið í raun að kaupa hlutabréfin í væntanlegu útboði í gegnum eigin banka. Við þetta bætist að ríkið hefur samþykkt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að ábyrgjast 17 milljarða lánalínu. Samantekið og ef rétt reynist þá er verið að þjóðnýta Icelandair bakdyramegin og það hlýtur að kalla á aðkomu Alþingis. Á ferðinni eru risavaxnar fjárhæðir. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svo er engin að kaupa flugvélar í dag.

Sjálfur hefði ég kosið að lánardrottnar hefðu skuldbreytt sínu yfir í hlutafé og tækju þannig sjálfir ábyrgð á þeirri áhættu sem þeir tóku þegar ákveðið var að lána Icelandair í upphafi. Icelandair hefði áfram verið starfandi á Íslandi enda engin betri tækifæri að finna annars staðar í fluginu. Svo er engin að kaupa flugvélar í dag. Þannig að ekkert fararsnið er á firmanu svo lengi sem það lifir af.

Ef bankarnir eiga að vera skráðir eigendur Icelandair í gegnum sölutryggingu þá geta risið upp hagsmunaárekstrar gagnvart viðskiptavinum bankanna. Þar er ég að tala um aðila sem einnig stunda flutninga af ýmsum toga til og frá Íslandi. Það er því hreinna að ríkissjóður sé skráður beint sem eigandi hlutabréfanna. Síðan er það hitt að með því að bankarnir sölutryggi og sitji uppi með hlutabréfin í svo og svo mörg ár þá gæti það rýrt verðgildi bankanna. Litið hefur verið svo á að bankarnir gætu verið verðmæt ríkiseigna (varasjóður) sem hægt væri að selja. Sölutryggingin gæti því rýrt þessi verðmæti. Setja þarf alveg sérstaka hlutafélagaskel utan um eignarhaldið á Icelandair. Síðan er hægt að greiða fyrir hlutabréfin með því að ganga á forðann upp í Seðlabanka, sem er of stór. Þannig koma viðskiptin ekki við greiðsluflæði ríkissjóðs, sem hefur nóg á sinni könnu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: