- Advertisement -

Yfirvöld kveikja bál

Veiking krónunnar upp á þessi prósent sem ég taldi upp hér að ofan er kaupmáttarýrnun upp á 220 milljarða lauslega reiknað.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í upphafi veirufaraldursins þá var tekin sú ógæfulega pólitíska ákvörðun í samstarfi við Seðlabanka Íslands að minnka kaupmátt almennings hratt með því að hella verðbólgu yfir almenning. Krónunni er leyft að fljóta að sínum feigðarósi og hefur veikst um 21 prósent gagnvart dollar, tæplega 18 prósent gagnvart evru og 14 prósent gagnvart pundi frá því veiran skaut upp kollinum í Evrópu. Reglubundin inngrip Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkað hafa ekki skilað árangri enda geta inngrip aldrei gert neitt annað en að hægja á stefnunni í skamma hríð.

Það fer ekki á milli mála að vöruverð fer ört hækkandi. Sem dæmi þá hafa kjúklingabringur í Bónus farið upp um meira en 5 prósent, hakkabollur um 3 prósent, brauð um 8 prósent, haframjöl um 9 prósent, paprika um meira en 50 prósent, avókadó um 60 prósent, bananar um 5 prósent og svona heldur þetta áfram. Sem betur fer þá getur maður verslað í Costco þar sem er mikið pláss. Án Costco þá væru verðhækkanir mun meiri!

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svo hækka verðtryggðu lánin sem dregur enn frekar úr eftirspurninni í hagkerfinu.

Hægt er að rekja ofangreindar verðhækkanir að stórum hluta til veikingu krónunnar þannig að þær voru framleiddar í stjórnarráðinu hjá Katrínu Jak, Bjarna Ben, Sigurði Inga og upp í Seðlabanka. Allt byggir þetta á úreltri hagfræði og vaknar spurning hvort ekki þurfi að skipta um hagfræðingateymi strax. Á morgun eða hinn er of seint.

Alveg eins og eftir hrun þá hefði verið hægt að kippa krónunni af markaði tímabundið á grundvelli fordæmalausra aðstæðna í hagkerfum heimsins. Það hefði verið gert í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og lykil seðlabanka í heiminum. Það hefði tekið 1-2 daga að virkja neyðaraðgerðina. Enn er hægt að grípa til neyðaraðgerðarinnar þó seint sé í rassinn gripið. Í staðinn þá eru kjarasamningar settir í uppnám og kaupgeta almennings minnkuð. Það er þvert á það sem hagkerfið þarf á að halda nú þegar efla þarf innlenda eftirspurn. Krónan er að toga í öfuga átt. Já, svo hækka verðtryggðu lánin sem dregur enn frekar úr eftirspurninni í hagkerfinu!

Veiking krónunnar upp á þessi prósent sem ég taldi upp hér að ofan er kaupmáttarýrnun upp á 220 milljarða lauslega reiknað. Þetta er tilfærsla á fé sem bætist ofan á aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem munu á endanum ekki leysa aðsteðjandi efnahagsvanda. Eins og koma mun á daginn þá gera aðgerðir stjórnvalda ekkert annað en að tefja óumflýjanlegar skipulagsbreytingar innan atvinnulífsins. Horfa verður ískalt á stöðuna og sleppa  óskhyggju og pólitík um hitt og þetta. Fyrst þá fer landið aftur að rísa að ráði. Ekki fyrr!

Farsælasta leiðin nú um stundir er að taka upp borgaralaun sem eru vel hærri en allar bætur og leggja samhliða niður allar greiðslur úr bótasjóðum ríkisins. Það örfar hagkerfið samstundis, en meira um þetta síðar!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: