Fréttir

Edda Falak birtir kæru á hendur Ingó Veðurguð: „Ég mun berjast þar til ég dey“

By Ritstjórn

May 06, 2022

Edda Falak birti skjáskot í gærkvöldi af beiðni til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 3. maí síðastliðinn, þar sem óskað er eftir upplýsingum um kæru á hendur Ingólfs Þórarinssonar tónlistarmanns frá árinu 2017. Í gögnunum staðfestir lögregla að hafa móttekið kæru frá konu sem sakar Ingó um líkamsárás.

Þetta sama skjáskot birti baráttuhópurinn Öfgar líka á samfélagsmiðlasvæðum sínum.

Sjá einnig: Ingó Veðurguð berst til síðasta blóðdropa: „Mig langar mest af öllu að fá frið með konunni minni og verðandi barni“

Í gögnunum kemur fram að líkamsárásin hafi átt sér stað á hótel Hlemmi Square. Þá segir að Ingó og konan hafi byrjað að stunda kynlíf en hegðun tónlistarmannsins hafi skyndilega breyst og Ingó hafi hrækt framan í hana og síðar kýlt hana í andlitið.

Baráttuhópurinn Öfgar birti sömuleiðis skjáskot af þessari sömu kæru og fullyrðir hópurinn að Ingólfur hafi þannig logið fyrir dómi og í yfirlýsingum sínum. „Ingólfur laug í vitnisburði sínum. Því hljóta að fylgja afleiðingar? Af hverju ætti fólk að trúa einhverju sem hann segir? Enn og aftur þarf þolandi að berskjalda sig inn að beini og er þetta skjáskot birt með leyfi þolanda. Meintir gerendur ljúga, líka fyrir dómi,“ segja Öfgar.

Ingólfur, betur þekktur sem Ingó Veður­guð, hafnaði í gær þessu ásökunum og sagðist einfaldllega vera orðinn þreklaus eftir endalausa baráttu við nafnlausar ásakanir. Sjálfur birti hann samskipti sín við lögreglu sem þótti sýna að Ingó hafi aldrei verið kærður, ákærður eða sakfelldur fyrir brot gegn konum.

„Ég fer að verða ansi þrek­­laus í þessu öllu og enn og aftur hef ég enga leið til að verja mig þar sem allt er nafn­­laust. Að ég fari svo að kýla konu og hrækja framan í er í besta falli galið en þetta sýnir hversu langt á­­kveðnir hópar eru til í að ganga. Hér kemur skýrt fram að ég hef ALDREI verið á­kærður fyrir of­beldis­brot eða kyn­­ferðis­brot enda aldrei gert slíkt,“ sagði Ingó.

„Ég mun berjast þar til ég dey að hafa aldrei nauðgað, riðið börnum eða lamið konur. Það skal ég sverja upp á konuna mína, Pinna og Gumma bróður þau sem ég elska mest. Ég er sak­­laus og mun berjast þó ég standi einn að berjast. Þetta fólk svífst einskis. Mig langar mest af öllu að fá frið með konunni minni og verðandi barni.“

Þessa mynd birti Ingó í gær eftir samskipti hans við lögregluna