- Advertisement -

Rukkað vegna aukanafns

Ef tveir einstaklingar eru skráðir fyrir sama heimasíma í símaskrá er rukkað fyrir annað nafnið. Neytendasamtökunum hafa borist fjöldi kvartana vegna þessa. Nauðsynlegt er fyrir fólk að skoða hvernig það er skráð í símaskrá. Fyrirtækjum ber að kynna kostnað fyrir neytendum en erfitt er að nálgast kostnaðarupplýsingar á síðum fyrirtækja eins og Já.

Fjallað er um málið á heimasíðu Neytendasamtakanna en þau hafa fengið margar fyrirspurnir og kvartanir vegna reikninga frá fyrirtækinu Já, sem neytendur kannast kannski ekki endilega við að vera í viðskiptum við. Reikningurinn er vegna aukanafns í símaskrá, þ.e. þegar t.d. hjón eru bæði skráð fyrir sama heimasíma í símaskrá.  Birting aukanafns kostar 980 kr. á ári og færslugjaldið  er 80 kr. og reikningurinn því samtals 1060 kr.

Neytendasamtökin könnuðu málið og komust að því að í fjölda ára hefur verið  tekið gjald fyrir skráningu aukanafns á símanúmer. Hins vegar var misjafnt hvernig viðskiptavinir voru rukkaðir, annaðhvort birtist  greiðsluseðill í heimabankanum eða gjaldfærslan birtist á símareikningi viðkomanda. Nú virðist Já sjálft hins vegar sjá um innheimtu gjaldsins.

Já tekur gjald fyrir að skrá netfang, aukalínu, afgreiðslutíma ásamt mörgum öðrum aukaskráningum við símanúmer. Þá verða notendur að skrá sig inn á ja.is og skrá þessar upplýsingar sjálfir. Ekki er auðvelt fyrir viðkomanda að sjá hver kostnaðurinn er þar sem verð þjónustunnar kemur ekki upp við skráningu, heldur þarf að leita nokkuð að verðskránni. En mikilvægt er að verðskrár fyrirtækja sem selja þjónustu í gegnum netið sé auðfundin og birtist um leið og skráning fer fram. Ef þjónustan er pöntuð í gegnum síma ættu upplýsingar um kostnað einnig að vera kynntar fyrir kaupanda um leið og skráning fer fram.

Segir á síðu NS að séu neytendur ósáttir við fyrirkomulagið sé ráðlagt að fara yfir hvaða upplýsingar birtast á ja.is og í símaskrá og meta hvort þær séu allar nauðsynlegar.

Sjá frétt á síðu NS.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: