Alþingi:
Það hefur gripið um sig ákveðin taugaveiklun í Sjálfstæðisflokknum eftir að háttvirtur þingmaður Kristrún Frostadóttir steig inn í umræðu um útlendingamál, málaflokk sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með í áratug og ekki náð að koma almennilegri stjórn á, hvort sem við lítum til sjónarmiða um mannréttindi eða bara til sjónarmiða um skilvirkni og skilvirka málsmeðferð. Nú segja Sjálfstæðismenn: Það er Samfylkingunni að kenna. Það er Samfylkingunni að kenna að við höfum klúðrað þessu. Var það Samfylkingin, virðulegi forseti, sem sat í dómsmálaráðuneytinu þegar send voru skilaboð til Venesúela um að allir gætu bara komið til Íslands og fengið hér viðbótarvernd? Nei, það var Sjálfstæðisflokkurinn. Og við vitum hvað gerðist svo þegar fólk var látið bíða og bíða vegna vandræðagangs í stjórnkerfinu og kostnaður fór úr böndunum. Hér er auðvitað ekki við fólkið að sakast heldur stjórnsýsluframkvæmdina,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu, fyrir fáum augnablikum.
„Hér á Alþingi hafði Sjálfstæðisflokkurinn hugann við allt annað. Hann hafði ekki áhyggjur af þeim þáttum sem voru raunverulega að setja álag á verndarkerfið. Nei, hér í þessum sal var öllu púðrinu eitt í útlendingafrumvarp sem hefur aftur og aftur drepist í nefnd vegna ósættis milli stjórnarflokkanna, vegna þess að stjórnarmeirihlutinn gat ekki komið sér saman um breytingar á því. Þegar frumvarpið var svo loks samþykkt og tók gildi þá rann auðvitað upp fyrir öllum, það sem hér hafði verið bent á, að frumvarpið skilaði ekki því hagræði og þeirri miklu skilvirkni sem Sjálfstæðismenn höfðu haldið fram. Það olli því hins vegar að fólk í viðkvæmri stöðu var látið hafast við í bílakjöllurum og gjótum meðan ráðuneytin í landinu slógust um það hvernig ætti að framkvæma lögin,“ sagði Jóhann Páll og sagði svo:
„Það er þessi óreiða í útlendingamálum sem fólkið í landinu hefur fengið nóg af. Það er ákall um að tekin sé stjórn á málaflokknum og Samfylkingin mun ekki skorast undan því verkefni. Það sem við munum hins vegar aldrei gera er að kenna viðkvæmustu hópum samfélagsins um það hvernig innviðir í landinu hafa verið fjársveltir og hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafa farið með velferðarkerfið okkar og farið með almannaþjónustuna í landinu.“