- Advertisement -

Covid reynslusaga: „Í öndunarvélinni upplifði ég hræðslu, kvíða og óráð“

Kristján Gunnarsson viðskiptafræðingur veiktist alvarlega af Covid-19 fyrir nærri sex mánuðum. Hann var á gjörgæsludeild í sextán daga og settur í öndunarvél. Við tók endurhæfing og hefur Kristján nú verið frá vinnu í um hálft ár.

Um næstu mánaðamót eru sex mánuðir síðan ég veiktist af Covid19 veirunni. – Ég var með mikinn hita (40 gráður) í viku en ekki önnur Covideinkenni. Ég fór tvisvar í skimun á þessum tíma og bæði sýnin voru neikvæð.  Ég var tvisvar fluttur á bráðadeild Landspítalans. Í seinna skiptið sýndi lungnaberkjupróf Covidsmit og var ég lagður inn á gjörgæslu með mikla öndunarbilun og súrefnisskort og í framhaldi af því settur í öndunarvél í tvær vikur til að styðja við lungnastarfssemina.  Samtals var ég á gjörgæslu í 16 daga – bæði í Fossvogi og við  Hringbraut. Í öndunarvélinni var mér snúið tvisvar á grúfu í 17 tíma hvort skiptið og lá þannig á maganum (og enninu) í rúminu.  Grúfulega hjálpar til við að auka upptöku súrefnis í lungunum og styður þannig við súrefnisbúskap líkamans. 

– Ég fékk sterk verkjalyf (fenantyl, sem er opíóðalyf og dregur gjarnan þá sem „anda sjálfir“ til dauða) og sterk svæfingarlyf.  Auk þess fékk ég lyf til að styðja við blóðrás líkamans.

– Í öndunarvélinni upplifði ég hræðslu, kvíða, óráð, ruglingslegar minningar og martraðir.  Mér fannst ég vera í haldi hjá hryðjuverkamönnum og komst hvergi og upplifði að mínir nánustu vissu ekki hvar ég væri. Þetta er algengt hjá sjúklingum í þessari stöðu og er afleiðing hinna bráðu og alvarlegu veikinda og meðferðar á gjörgæsludeild.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á Reykjalundi var ég  í  tvær vikur í meðferð.

– Af gjörgæslu fór ég í viku einangrun á lungnadeild Landspítalans og loks í tveggja vikna endurhæfingu á Reykjalund.  Eðlilega var ég grútmáttlaus og þrek og þol afar lítið.  Ég var útskrifaður af lungnadeild eftir þrjár neikvæðar skimanir sem staðfestu að ég var laus við smit og öll líffæri önnur en lungu voru heil eftir gjörgæsluvistina.  Lungnastarfssemi tók tíma að lagast, súrefnismettun var ófullnægjandi og hlutfall rauðu og hvítu blóðkornanna í ójafnvægi. 

– Á Reykjalundi var ég  í  tvær vikur í meðferð.  Ég var aðeins sprækari á Reykjalundi en samt svo máttlaus að það var meiriháttar mál að fara í sturtu og skipta um föt.  Það var reyndar þannig að þá daga sem ég fór í sturtu þá var ákveðið að ég færi ekki í sjúkraþjálfun til að ofkeyra mig ekki.  Einn daginn fór ég í æfingagallabuxur öfugar eftir sturtuferðina en hafði ekki kraft til að laga það – og hjúkrunarfræðingarnir brostu gegnum grímurnar að hollningunni á mér.  Eftir tvær vikur var ég orðinn fær að sjá um mig sjálfur og því útskrifaður af Reykjalundi.

– Þegar heim kom sá ég sjálfur um endurhæfingu með gönguferðum, hjólreiðum og sundi auk þrekæfinga í samráði við sjúkraþjálfara á Reykjalundi.  Verkefnið var að æfa sig og hvíla sig.  Mikilvægast var að fara ekki framúr sér í æfingum og hlusta á líkamann og hvíla sig vel.  Ég var svolítið viðkvæmur andlega, átti erfitt með að horfa á daglegu blaðamannafundina um tölfræði um fjölda smitaðra, fjölda á spítala, fjölda á gjörgæslu, fjölda í öndunarvél og ekki síst fjölda látinna.  Þá gat ég ómögulega horft á myndina Misery með Kathy Bates og James Caan helgina eftir að ég kom heim.  Hún minnti mig alltof mikið á martraðirnar á gjörgæslunni.  Eftir á eru þessar martraðir ákaflega spaugilegar en þær voru ömurlegar meðan á stóð.  Þær eru trúlega gott efni í grátbroslega smásögu.

 Að fá Covid 19 getur verið dauðans alvara.

– Í sex mánuði hef ég verið frá vinnu. Þumalputtaregla varðandi afleiðingar veru á gjörgæslu og í öndunarvél er tveggja vikna veikindafrí fyrir hvern dag hvern dag  á gjörgæslu, eða í mínu tilfelli sjö til átta mánuðir.  Ég er svo heppinn að hafa notið mikils skilnings hjá sviðsstjóra og samstarfsfólki hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborg og hef fengið  „friðhelgi“ hvað samskipti við vinnustaðinn varðar.

– Reynslan þessa sex mánaða hefur kennt mér mikið.  Að fá Covid 19 getur verið dauðans alvara. Að lenda á gjörgæslu og öndunarvél er lífsreynsla sem ég óska engum að lenda í. Fyrir ættingja og vini voru það tvær vikur milli vonar og ótta.  Einangrun á gjörgæslu kemur í veg fyrir að nánustu ættingjar og vinir geti heimsótt mann og séð ástandið á manni.  Þar verður ímyndunarafl þeirra að duga – sem er ekki gott. Margir vina minna kviðu því að sjá nýjustu tölfræðina á daglegum blaðamannafundum.  Að sjá nánast ekki andlit í sex vikur er ekki upplífgandi. Að geta hvorki farið á salerni eða í sturtu í 3 vikur er dapurlegt. Að geta ekki hitt og faðmað sína nánustu í sex vikur er óhollt. 

– Bataferlið þessa sex mánuði hefur gengið vel – ég hef sem betur fer losnað að mestu við þau eftirköst sem Covid19 sjúklingar hafa upplifað eftir „batann“.  Vinnuþrek á eftir að reyna á þegar ég sný aftur til vinnu.  Í því er auðvitað nauðsynlegt að fara sér hægt og ofkeyra sig ekki.

Fyrsti hálfi mánuðurinn af þessum sex var ömurlegur.

– Fyrir veikindin taldi ég mig ekki vera í áhættuhóp.  Ég var ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma. Ég var vel á mig kominn líkamlega og ég var ekki „gamall“ að eigin mati.  Ég fylgdi persónulegum smitvörnum, en ég veiktist samt.  Öll viðmið varðandi áhættu af veirunni breyttust hins vegar þennan hálfa mánuð sem ég var í öndunarvélinni.

– Fyrsti hálfi mánuðurinn af þessum sex var ömurlegur.  Seinni fimm og hálfur hafa breytt lífi mínu. Ég er þakklátur fyrir að vera á lífi, ég er þakklátur fyrir hvern dag og ég nýt þess að vera til og hef breytt um forgangsröð. Þeir sem þekkja textann við What a Wonderful World með Louis Armstrong vita hvað ég er að tala um.  Ég veit hvað skiptir máli í lífinu en það eru fjölskyldan, ættingjar, vinir og kunningjar.  Ég hef fundið fyrir því síðasta hálfa árið hvað það er stór hópur. Þá er ég afskaplega þakklátur heilbrigðisstarfsfólki fyrir ómetanlega þjónustu, stuðning og umönnun við erfiðar sóttvarnaraðstæður. Þau fá Grímuverðlaunin að mínu mati fyrir frábæra frammistöðu.

– Ég set ekki þessar hugleiðingar fram til að vera með hræðsluáróður.  Ég er að benda á að Covid19 veiran er dauðans alvara.  Hún er skæð og óútreiknanleg.  Í mínu tilfelli þurfti nærfjölskyldan að fara í sóttkví og yngri dóttir mín fór í einangrun þar sem hún smitaðist af mér. Þetta snýr nefnilega ekki bara ađ einstaklingnum sjálfum. Þetta snýr líka ađ ábyrgð hans gagnvart sínum nánustu og öđrum sem hann umgengst.

– Stundum er veiran mjög skæð, eins og í vor.  Stundum er hún „veikari“ eins og sl. vikur – sem betur fer. Enginn er óhultur og þetta er engan veginn búið.  Eina sem við vitum er að við vitum lítið – þó við vitum meira „í dag en í gær“ – og óvissa er um hvernig morgundagurinn verður.

Förum því að öllu með gát og gerum það sem við sjálf getum til að lágmarka smithættu.  Stöndum saman í baráttunni – með hæfilegu bili á milli okkar þó.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: