- Advertisement -

Ekki taka augun mín frá mér

Már Gunnarsson skrifar:

MAX

Eftir að hafa gengið um óöruggur í myrkrinu án þess að gera mér grein fyrir hversu svart það raunverulega var öðlaðist ég nýtt líf. Ég eignaðist minn besta vin sem hefur af heilum hug gefið mér aðgang að augunum sínum. Með honum er lífið stórkostlegt ferðalag sjálfsöryggis og gleði hvern einasta dag. Ég er að tala um leiðsöguhundinn Max.

Ég á erfitt með að lýsa í orðum hve Max hefur aukið við lífsgæði mín og tilveru allt frá fyrsta degi. Saman höfum við sigrast á ótal áskorunum á ferðum okkar hérlendis og erlendis.Þess vegna er ég ekki einungis dapur heldur er mér verulega brugðið yfir því hve íslenskum stjórnvöldum stendur á sama um okkur. Stjórnvöld sem með vitund og vilja reisa hindranir sem verða mér óyfirstíganlegar í framtíðinni og gera mér ókleift að hafa Max hjá mér.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Max er skilgreindur sem hjálpartæki í eigu hins opinbera, samt bar ég 600.000 kr kostnað af því að taka hann með mér heim nú í sumarfríinu mínu.

Ég er erlendis í háskólanámi næstu árin, það sjá það allir að ég get aldrei komið heim um sumar og jól með Max. Himinnhár kostnaður kemur alfarið í veg fyrir það.

Ég er farinn að upplifa vonleysi og höfnun þar sem ég hef þvælst um í kerfinu án þess að fá nokkra einustu hjálp. Ég hef leitað til Félagsmálaráðuneytisins sem hefur hvatt mig til að sækja um styrki til góðgerðarsamtaka til að komast heim með Max. Þeir segjast ekkert geta gert fyrir mig. Matvælaráðuneytið hunsar mig og Mast og Sjónstöðin benda á einhverja aðra. Það er sorglegt að blindum einstaklingum sé mismunað svo grimmilega með þessum hætti. Okkur gert nánast ómögulegt að koma með augun okkar heim!

Ég upplifi það nú sem aldrei fyrr, hve stjórnvöld bera lítla virðingu fyrir fötluðum. Við erum óumdeilt sett í neðsta þrepið. Sem dæmi fyrir utan alla þá fjármuni sem ég þarf að inna af hendi til að mega koma heim með Max má ég einungis fljúga til Íslands með hann á almennum vinnutíma á virkum dögum. Alveg sama þó ég geti fundið margfalt ódýrara fargjald.

Ég vil ekki trúa því að nokkur stjórnvöld séu svo grimmlynd að ætla að taka frá mér ljósið og lífið sem Max hefur gefið mér. Að reisa það háan múr á milli okkar að hann verði ekki klifinn og ég aftur kominn í myrkrið sem Max hefur lýst upp fyrir mig.

Blindir eru líka fólk, í okkur býr mannauður eins og öllum öðrum.Þessi pistill minn er ákall til matvælaráðherra!

Ekki dæma mig í margra ára útlegð frá fjölskyldu minni og fallega landinu mínu þrátt fyrir að ég sé erlendis í háskólanámi. Ekki taka augun mín frá mér. Ekki setja mig í þá aðstöðu að þurfa að velja þar á milli.

Már Gunnarsson mar.gunnarsson@ruv.is


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: