- Advertisement -

Frjáls umræða og hvað kenna skal í skólum

Ole Anton Bieltvedt:

Það kaldhæðnislega við þetta er svo það, að öll þessi ívilnun og sérmeðferð endar sennilega í meiri óvild og andúð við þennan eina hóp, en ella hefði verið, vegna mismununarinnar.

Undanfarna daga hefur farið fram umræða í fjölmiðlum og á Facebook um stöðu hinsegin- og transfólks í skólum og áhrif þeirra þar. Hefur offors og heift færist inn í umræðuna, sem er slæmt. Hægt verður að vera, að takast á um andstæð sjónarmið, án heiftar í orðbragði. Allir eiga rétt á sinni skoðun.

Staksteinar 14. september

Staksteinar er sérstakur dálkur ritsjóra MBL (Morgunblaðsins), þar sem þeir taka þátt í umræðu og tjá sig til viðbótar við sín leiðaraskrif.

14. september birtust þessi skrif í Staksteinadálknum:

„Páll Vilhjálmsson segir m.a. í nýlegum pistli sínum: Ágengni samtaka (78) gagnvart börnum sýnir, að undir fagurgala um fjölbreytileika er ráðist á garðinn, þar sem hann er lægstur, vammlausri og óreyndri æsku, sem býr ekki að stálpaðri dómgreind. Fullorðinn, sem talar fávisku ofan í börnin, t.d. að hægt sé að fæðast í röngu kyni, nýtir sér barnslegt sakleysi óharðnaðra ungmenna. Foreldrar vakna upp við þann vonda draum, að kyn- og kynlífspælingar, sem þeim dytti aldrei í hug að halda að börnum sínum, er skipulega flaggað framan í börnin þegar foreldrar eru fjarri. Hvers vegna er lífsskoðunarfélaginu Samtökunum 78 hleypt inn í leik- og grunnskóla? Ástæðan er pólitísk. Vinstriflokkarnir, þ.e. Vinstri grænir, Samfylking, Píratar og Viðreisn eru allir hlynntir kreddum og hugmyndafræði Samtakanna 78. Vinstrimenn eru stærsti hópurinn í fræðslu- og skólastarfi. Ekki dettur þeim í hug að amast við verulega óæskilegri þróun, þar sem börn eru leiksoppar í furðuveröld jaðarhóps fullorðinna. Umræðan síðustu vikna og daga sýnir að lífsskoðunarfélagið Samtökin 78 á ekkert erindi með sérviskuskoðanir um kyn og kynlíf inn í leik- og grunnskóla. Það voru mistök að hleypa Samtökunum 78 í skólastarf. Þau mistök ber að leiðrétta“.

Maðurinn er kennari, og sér þetta svona.

Viðbrögð fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins

Hér fannst mér Ólafur taka full djúpt í árinni, með því að kalla skrif Páls „hatursbull“…

Ólafur Stephensen, góður maður og gegn, m.a. fyrrverandi ritstjóri MBL, bregst við þessum skrifum í Staksteinum með þessari Facebook-færslu:

„Vont þykir mér að ritstjórar Morgunblaðsins dreifi hatursbulli Páls Vilhjálmssonar í garð Samtakanna 78 með því að endurbirta það í Staksteinum. Lesendur geta ekki einu sinni varizt ófögnuðinum með því að segja upp áskriftinni, því að Mogginn kemur óumbeðinn inn um lúguna á fimmtudögum. Svona gera menn ekki.“

Viðbrögð annarra og undirritaðs

Hér fannst mér Ólafur taka full djúpt í árinni, með því að kalla skrif Páls „hatursbull“, en fjöldinn allur af Facebook-vinum Ólafs tóku undir hans skrif, sumir með hastarlegu orðbragði og ganrýni á ritstjóra MBL, skítkasti á blaðið, og hafi orðið „hatursbull“ átt einhvers staðar við, þá var það ekki síður um þá orðræðu.

Ég gerði þessa athugasemd við færslu Ólafs:

„Ég lít ekki á þetta sem „hatursbull“. Þessir menn hafa fullan rétt á því að hafa sína skoðun og tjá hana, eins og við hin. Þetta offors gegn andstæðri skoðun hæfir ekki þeim góðu mönnum, sem það einkennir hér. Gildir umburðarlyndið bara gagnvart eigin skoðunum eða svipuðum!? Hvers konar skoðana umburðarlyndi og afstaða til frjálsrar umræðu er það? Það á alls ekki að fara fram gegn viðkvæmum hópum í þjóðfélaginu, en það á heldur ekki að hampa sérstökum einstökum hópum umfram alla aðra hópa. Hér verður að gæta jafnræðis, einkum meðal opinberra aðila“.

Innlegg fyrrverandi diplómats

Nú sagði ég ekki orð um kennsluefni í skólum, var bara að tala um gildi frjálsrar skoðunarmyndunar og umræðu, virðingu fyrir skoðunum annarra, en samt kom annar ágætismaður, Bjarni Sigtryggsson, fyrrverandi diplómat, með þessa athugasemd við mín skrif:

Börn þurfa fyrirmyndir.

„Kynfræðsla í grunnskólum er miklu meira en það. Hún er líka sálarleiðsögn. Að útskýra fyrir börnum við hverju er að búast í tilfinningalífinu og þar séu allir jafnir. Það er gott að fá til liðs við skólana fólk sem hefur gengið í gegn um fordóma og jafnvel glímt við sjálfsvígshugsanir á barnsaldri vegna þess að ekkert var útskýrt og engan stuðning að finna. Börn þurfa fyrirmyndir. Góðar fyrirmyndir. Alls konar fyrirmyndir. Þau þurfa að fá að vita strax í bernsku að þau eru öll velkomin“.

Fyrir mér var þetta góð hugleiðing, gott innlegg, sem er þó bara einn vinkill á málið, og segja mætti, að sálfræðitilsögn væri betur komin í höndum fagmanna, sálfræðinga, en hagsmunasamtaka eða baráttuhópa.

Slík sálfræðiþjónusta gæti þá líka, og ekki síður, náð til þeirra, sem fæðast með ADHD, lesblindu, eru óhressir með sitt útlit eða holdarfar, þjást af skertri námsgetu eða eiga í öðru sálarstríði. Þeir, sem eru í óvissu með sitt kyn eða sína kynhneigð, eru hér ekki þeir einu, sem eiga í sálarstríði, þó að þeirra hlutskipti sé auðvitað líka nógu erfitt.

Þessi athugasemd Bjarna leiðir okkur inn í hugleiðingu um hlutverk skóla, skyldur þeirra, kennsluefni og stöðu og áhrif einstakra þjóðfélagshópa þar.

Hlutverk, skyldur og kennsluaðferðir skóla

Hér er stórt mál á ferð, sem engin viðhlítandi úttekt verður gerð á hér og nú.

„Mennt er máttur“, segir máltækið. Það hefur alltaf átt við, og jafnvel enn frekar nú, en áður. Menntun, víðtæk þekking, ekki sízt á sviði vísinda og tækni, en líka á mannlegu eðli, náttúru og umhverfi, verður fyrir mér helzta „auðlind“ einstaklinga og þjóða á komandi tímum.

Yfirburðaþekking mun gefa umfram aðstöðu til áhrifa og valda. Auðvitað er mikilvægt, að hár mannlegur þroski og skilningur, hátt siðferðisstig, fylgi, hitt er, að þekkingin búi líka yfir breidd, jafnvægi og jafnræði. Allar ýkjur og öfgar ber að forðast.

Fyrir mér er þetta smekklaust og óviðeigandi…

Engin fjáfesting er fyrir mér brýnni og mikilvægari, heldur en fjárfestingin í skólakerfinu og menntun. Engin fjárfesting mun skila einstaklingnum og þjóðfélagi meiru til baka. En ég árétta, að menntunin verður að byggja á breiðum, almennum grunni, þar sem jafnvægi og jafnræði gildir.

Þjóðfélagið samanstendur af fjölmörgum hópum, og er hinsegin- og transfólk bara einn tuga eða hundruða slíkra hópa. Ég hef skrifað um það blaðagreinar og vil árétta það hér, að, á sama hátt og virða ber og viðurkenna sérstöðu hinseginfólks – þau eiga sama rétt á virðingu og velvilja, eins og aðrir hópar – finnst mér af og frá, að hampa þeim hópi sérstaklega og umfram alla aðra hópa, og – eins og þessi umræða hefur leitt í ljós – gefa þeim sértakan og beinan aðgang inn í menntakerfið, til síns sérstaka málflutnings fyrir sér og sínum kynferðislegu sérkennum.

Á sama hátt gengur það ekki, að skólastjórar séu að merkja sína skóla, jafnvel til hliðar við nafn skólans, eða tröppur, stéttar eða innganga sinna skóla, með regnbogafána hinsegin- og transfólks, eins og stofnunin væri sérstaklega tengd eða starfaði einkum og sér í lagi með eða fyrir þann eina þjóðfélagshóp.

Fyrir mér er þetta smekklaust og óviðeigandi á sama hátt og beinn aðgangur þessa eina hóps að kennslu stenzt ekki. Það kaldhæðnislega við þetta er svo það, að öll þessi ívilnun og sérmeðferð endar sennilega í meiri óvild og andúð við þennan eina hóp, en ella hefði verið, vegna mismununarinnar.