- Advertisement -

Ísland á ekki fólk í allar stöður

- verðum að fá fólk erlendis frá. Starfsmannaleigur kunna að vera nauðsynlegar þess vegna. Íslensk verkmiðlun er með fjölda starfsmanna á sínum vegum.

Böðvar Jónsson, hjá Íslenskri verkmiðlun, segir Íslendinga eina ekki geta mannað öll þau störf sem þarf til að halda samfélaginu gangandi. Því sé og verði þörf fyrir starfsmannaleigur hér á landi. Íslensk verkmiðlun er starfsmannaleiga sem þjónustar mismunandi fyrirtæki hér á landi og útvegar fólk í hin ýmsu störf.

Fyrirtækið er í samstarfi við Adecco Group, sem er ein stærsta starfsmannaleiga á heimsvísu með meira en fimmþúsund skrifstofur í um eitthundrað löndum. Því hefur Íslensk verkmiðlun aðgang að gríðarlega stórum gagnagrunni sem hefur að geyma starfsmenn sem eru að leita að störfum erlendis, ýmist til að auka tekjur sínar eða einfaldlega í ævintýraleit. Ísland er nú valmöguleiki fyrir þetta fólk.

Ingi Örn Gíslason er annar eigandi fyrirtækisins. Ingi er flugvélaverkfræðingur að mennt og hafði starfað sem slíkur út um allan heim í um 15 ár eða svo. „Stóran hluta af starfsferli Inga hafði hann starfað fyrir starfsmannaleigur og atvinnumiðlanir, meðal annars Adecco. Í flugbransanum er algengt að fólk starfi fyrir fyrirtæki eins og okkar,“ segir Böðvar. Þegar Ingi kom heim kom svo upp sú hugmynd að fyrirtækinu, þar sem Böðvar og Ingi voru sammála um að hlutirnir hefðu ekki verið gerðir faglega hvað þessi mál varðar hér á landi.

Undirbúningurinn skipti miklu

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Áður en við fórum af stað funduðum við með Vinnumálastofnun, Alþýðusambandi Íslands og fleirum til að gera allt sem unnt væri til að starfsemi okkar yrði í sátt við alla sem að þessum málum koma,” segir Böðvar.

Böðvar segir að með þeim stóra gagngrunni sem fyrirtækið hafi aðgang að sé hægt að útvega starfsmenn sem sannarlega uppfylla þau skilyrði, svo sem menntun, hæfni og aðrar kröfur sem settar eru af þeirra viðskiptavinum. Íslensk verkmiðlun hefur sérhæft sig í menntuðu fólki. Samstarfsaðili okkar erlendis sér um að sannreyna menntun, próf og annað sem þurfi að athuga. Þá fara starfsmenn í viðtöl erlendis, en áður en að ráðningu kemur ræða starfsmenn Íslenskrar verkmiðlunar við starfsmennina ásamt því að fara yfir ferilskrár og meta hvort viðkomandi aðili sér réttur í það starf sem óskað er eftir hverju sinni. Í stjórnunarstöður er fólki flogið til Íslands í viðtöl.

„Við útvegum öllu þessi fólki kennitölur og látum fagfélögin fá upplýsingar um réttindi viðkomandi. Allir okkar starfsmenn fá vinnustaðaskírteini við komuna til landsins, bankareikningar eru tilbúnir og tryggt er að allir þeir starfsmenn, sem koma með okkar milligöngu, séu sjálfstæðir frá fyrsta degi. Þeir eru ekki háðari okkur frekar en aðrir starfsmenn eru almennt sínum vinnuveitenda.“

Erfitt er að fá suðumenn hér á landi. Þeir eru því fengnir frá öðrum löndum.

Starfsmennirnir gera kröfur

Böðvar segir margskonar samninga vera gerða. Ýmist er fólk fengið í tímabundin verkefni eða til lengri tíma. Þá er nokkuð um að til að mynda þrír starfsmenn sinni tveimur stöðugildum, þannig komist þeir heim með reglulegu millibili. „Það tryggir okkur fjölskyldufólk, sem er oft bestu starfsmennirnir.“

En hver borgar kostnaðinn af þessu öllu? „Notandinn greiðir kostnaðinn,“ segir Böðvar, það er fyrirtækið sem óskar eftir  starfsmanninum. Hvað varðar að launin, segir Böðvar að trúnaðarmenn á vinnustöðum geti fengið að sjá launaseðla, sé óskað eftir því og þannig fengið staðfestingu á því að rétt laun séu greidd. „Allir ráðningasamningar eru að auki sendir til Vinnumálastofnunnar og þaðan til Alþýðusambandsins til staðfestingar.

Margir hafa horn í síðu starfsmannaleiga, telja þær þrælabúðir. „Það er ekki þannig. Við leggjum mikið upp úr því að útvega hæft starfsfólk sem vinnur starf sitt vel. Fólkið sem við erum að leita eftir gerir kröfur, er eftirsótt og getur oft valið úr störfum. Við lítum svo á að við séum í beinni samkeppni við Noreg hvað til dæmis iðnmenntað fólk varðar. Okkar starfsmenn starfa eftir íslenskum kjarasamningum og í raun engin munur á þeim og öðru launafólki hér á landi.“

Vantar vottun

Böðvar segir að það séu einfaldlega nokkrar iðngreinar að deyja út hér á landi og nefnir bílaréttingar í því samhengi. „Það mætti halda að það þyki ekki nógu flott að fara í iðnnám í dag. Það virðist sem leið allra liggi í viðskiptafræði eða lögfræði”, segir Böðvar. „Við verðum að reyna að breyta þessu og fá unga fólkið okkar til þess að sýna iðnnáminu meiri áhuga.“

Íslensk verkmiðlun er nú með um tvö hundruð starfsmenn á launaskrá. Eru Íslendingar þeirra á meðal?

„Já, á skrifstofu fyrirtækisins, en ekki hjá viðskiptavinum okkar, en það hafa verið Íslendingar hjá okkur.“

Hvernig er kynjahlutfallið, eru fleiri karlar?

„Já, karlarnir eru fleiri, en við erum samt nokkuð margar konur.“

Viðtökur við þjónustu fyrirtækisins hafa verið mjög góðar. Viðskiptavinir sem hafa nýtt sér þjónustu fyrirtækisins einu sinni gera það aftur. Böðvar þakkar það meðal annars hve vel var staðið að hlutunum í upphafi, góðum tengslum við opinberar stofnanir og því samstarfi sem Íslensk verkmiðlun á við Adecco. Hann telur líka að eitt af því mikilvægara í öllu þessu sé að starfsfólkið sem hingað kemur sé ánægt. Íslensk verkmiðlun hefur haft milligöngu um íslenskunkennslu, boðið upp á fótboltatíma og reglulegar skoðunarferðir um landið. Þá nefnir Böðvar einnig að hluti af ráðningarferlinu sé að komandi starfsmenn geti kynnt sér aðstæður og aðbúnað í gegnum vefsíðu sem þeir fái aðgang að. Þar geti þeir kynnt sér meðal annars húsnæði, umhverfið sem fólkið kemur til með að búa í og skattaumhverfi svo eitthvað sé nefnt.

„Okkur finnst vanta eitt og það er vottun á starsemi sem þessa. Við leggjum mikið upp úr því að gera hlutina vel. Við viljum getað starfað á samkeppnisgrundvelli og því tækjum við einhversskonar vottun á þessa starfsgrein fagnandi,“ segir Böðvar Jónsson hjá Íslenskri verkmiðlun.

Viðtalið birtist í Tímariti VM sem kom út í byrjun þessa mánaðar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: