- Advertisement -

Vindurinn úr seglum Corbyn

Gunnar Smári skifar: Þetta yrði snúið fyrir Jeremy Corbyn og Verkamannaflokkinn. Þrátt fyrir Brexit vandræði Theresu May og Íhaldsflokksins, innri átök og klaufaskap, hefur Verkamannaflokkurinn ekki vaxið. Þvert á móti. Ásakanir um gyðingaandúð og veik viðbrögð við þeim hafa hrakið Verkamannaflokkinn í vörn þegar hann ætti að vera í blússandi sókn.

Miðað við nýjustu könnun yougov, sem var það könnunarfyrirtæki sem komst næst úrslitunum síðast, er staðan 40% gegn 36% Íhaldinu í vil. Íhaldið hefur tapað frá kosningunum í fyrra en Verkamannaflokkurinn mun meiru. Það eru frekar frjálslyndir demókratar en Verkamannaflokkurinn sem hagnast á vanda ríkisstjórnarinnar, þeir mælast nú með 11% en voru með 7,5%. Íhaldið mælist með 40% en var með 43%. Verkamannaflokkurinn mælist með 36% en var með 41%. Þegar þetta er sett í þingmannasætisreiknivél þá er líklegt að Íhaldið bæti við sig 8 þingmönnum og sé við meirihluta þingmanna, geti losnað undan samstarfi við Norðurírska mótmælendur. Corbyn og verkamannaflokkurinn tapar 18 þingmönnum samkvæmt þessu en frjálslyndir demókratar og skoskir þjóðernissinnar bæta við sig.

Síðast þegar May boðaði til kosninga með skömmum fyrirvara hélt hún að Íhaldið væri með unna skák á borðinu, aðeins væri eftir að færa upp með og fá nýja drottningu. En sú reyndist ekki raunin, það má segja að það sé lögmál í kosningum eftir Hrun að þeir flokkar sem telja sig geta sótt sigur fá hann ekki.

Síðast mat May það svo að Corbyn væri með klofinn flokk að baki sér og tækist ekki að sameina hann fyrir kosningar. Hann gerði það ekki, fór í kosningarnar með lítt leynda andstöðu Blairista, sem beittu ýmsum spellvirkjum til að grafa undan Corbyn. Styrkur Corbyn fólst í Momentum og pólitísku starfi fólks utan stofnana flokksins. Og hann gat snúið vörn í mikla sókn, kom út úr kosningunum sem sterkur leiðtogi og sá sem í raun leiddi pólitíska umræðu í Bretlandi. En hann hefur átt erfitt með að fylgja þessu eftir á þessu ári.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þrátt fyrir að hafa styrkt stöðu sína í stofnunum flokksins hefur vindurinn í seglum hans fallið, í stað þess að ákvarða um hvað er rætt hefur hann æ oftar þurft að svara ásökunum um mistök, óljósa stefnu og hik. Í síðustu kosningum sýndi Corbyn að hann og hans fólk nýtur sín í kosningabaráttu og vonandi tekst þeim að grípa þetta tækifæri ef May færir þeim það. Það væri óendanlega frískandi að sjá endurnýjaðan sósíaldemókrataflokk, flokk sem hefði að einhverju leyti snúið af braut nýfrjálshyggjunnar komast til valda í nágrannaríkjum okkar.

– gse


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: