- Advertisement -

Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar:

Árið 1968 fóru hér fram forsetakosningar, sem segja má, að hafi markað ákveðin tímamót.

Þar tókust á Kristján Eldjárn, þá þjóðminjavörður, hámenntaður maður, en sléttur og felldur; einn af okkur, almenningi. Hins vegar stóð Gunnar Thoroddsen, gáfumaður og ræðusnillingur, sem hafði verið kjörinn á þing 23ja ára gamall fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hafði verið einn af helztu forystumönnum flokksins þá um áratugaskeið. Atvinnupólitíkus og tengdasonur fráfarandi forseta. Einn úr valdastéttinni.

Um Kristján Eldjárn

Þú gætir haft áhuga á þessum
Kristján Eldjárn, 3. forseti Íslands.

Kristján var fæddur í Svarfaðardal við Eyjafjörð 1916. Hann varð stúdent árið 1936 og nam fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-1939. Meistarapróf í íslenskum fræðum tók Kristján frá Háskóla Íslands 1944 og doktorspróf frá sama skóla 1957.

Hann kenndi um tíma við Menntaskólann á Akureyri og Sjómannaskólann í Reykjavík, og varð svo safnvörður við Þjóðminjasafnið 1945. Hann var skipaður þjóðminjavörður 1947, og gegndi hann því starfi, þar til hann var kjörinn forseti 1968.

Kristján skrifaði bækur um fornleifafræði, hélt fyrirlestra um fræði sín innanlands og utan og ritaði fjölda greina um fornfræðileg efni. Á síðari árum ævi sinnar var Kristján kjörinn heiðursdoktor við háskólana í Aberdeen, Lundi, Odense, Bergen, Leningrad og Leeds.

Um Gunnar Thoroddsen

Gunnar var fæddur seint á árinu 1910, tók stúdentspróf frá MR 18 ára gamall og lauk lögfræðiprófi og síðan doktorsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Gunnar Thoroddsen náði ekki kjöri til forseta Íslands.

Hann hafði margbrotinn og glæsilegan stjórnmálaferil að baki, hafði verið alþingismaður Sjálfstæðisflokksins meira og minna frá 1934 (þá 23ja ára gamall) og fram til 1965. Hann hafði samtímis verið prófessor við Háskóla Íslands, borgarstjóri í Reykjavik og fjármálaráðherra á vegum Sjálfstæðisflokksins. Sendiherra landsins í Danmörku hafði hann líka verið.

Við bættist, að Gunnar var tengdasonur fráfarandi forseta, Ásgeirs Ásgeirssonar. Má segja, að hann hafi komið úr miðri stjórnmála- og valdastétt landsins.

Kosningabaráttan og úrslit

Kristján var hispurslaus og alúðlegur, hafði ekki blandað sér í stjórnmál og hafði áunnið sér vinsældir meðal þjóðarinnar, m.a. með þáttum um fornminjar, sem nutu mikilla vinsælda og hann sá um og stjórnaði í sjónvarpi. Hann lagði mikið upp úr öllu því, sem þjóðlegt var, á sama hátt og hann var sigldur maður, jafnt með tilliti til menntunar og reynslu.

Í fyrstu mældist Gunnar, sem var talinn einn glæsilegasti og mælskasti stjórnmálamaður síns tíma, með langtum meira fylgi í skoðanakönnunu, enda studdur af ráðandi stjórnmálaöflum og að verulegu leyti af valdastétt þess tíma. Þótti sjálfsagður arftaki Ásgeirs tengdaföður síns og Sveins Björnssonar á forsetastól.

Vindarnir breyttust þó fljótt, þegar í kosningabaráttuna var komið. Kristján kom fram sem alþýðlegur menntamaður, sem tengdist landi og þjóð betur, en hástéttarmaðurinn og atvinnupólitíkusinn Gunnar. Fólki fannst, að Kristján væri einn af þeim, og, að hann yrði betri fulltrúi þess.

Eins kom þarna fram tilhneiging, vaxandi vilji þjóðarinnar, sem mest hefur haldizt síðan, til að skila að forsetaembættið og stjórnmálin.

Á kjördegi vann Kristján öruggan sigur yfir Gunnari með um tveimur þriðju atkvæða. Kristján fékk fékk 67.544 atkvæði, 65,6%, og Gunnar 35.428, 34,4%.

Sagan gæti verið að endurtaka sig

Forsetinn verður að vera þjóðlegur – sannur Íslendingur – og alþjóðlegur í senn.

Stöðu og framboði Höllu Hrundar Logadóttur má líkja við framboð Kristjáns Eldjárns og stöðu og framboði Katrínar Jakobsdóttur við stöðu og framboð Gunnars Thoroddsen 1968. Fulltrúi þjóðarinnar gegn fulltrúa stjórnmálamanna og valdastéttar.

Auðvitað eru nú fleiri frambjóðendur í myndinni, og standa þeir Jón Gnarr og tvíeykið Baldur&Felix þar fremstir í stöðunni, en ég gæti trúað því, að, þegar til kastanna kemur, kunni slagurinn að standa milli Höllu Hrundar og Katrínar.

Varðandi afstöðu og val manna, vil ég rifja upp þá kjörmynd, sem mér finnst að forseti landsins eigi að fylla, og ég hygg, að flestir geti verið sammála um:

Forsetinn verður að vera þjóðlegur – sannur Íslendingur – og alþjóðlegur í senn. Umhverfis- og náttúruverndarsinni. Með tandurhreinan bakgrunn, flekklaust einkalíf, fallega, venjulega íslenzka fjölskyldumynd, góða menntun og reynslu. Frjáls og hlutlaus, laus við stjórnmálavafstur- og valdabrölt, óháður stjórnmála- og valdastéttinni, með víðan sjóndeildarhring, jafnt á íslenzk málefni sem alþjóðleg. Hann verður að hafa alþýðlegt en tígulegt fas. Koma vel fyrir, bera sig vel, en þó með hógværð og látleysi og standa bjartur meðal annarra fyrirmenna.

Fyrir mér fyllir Halla Hrund þessa afar krefjandi kjörmynd á nær allan hátt.

Verður það sama sagt um Katrínu Jakobsdóttur, þó að konan sé góðum gáfum gædd, vel menntuð og margreynd, hérlendis og erlendis, væn og viðmótsþýð?

Fyrir mér fyllir Halla Hrund þessa afar krefjandi kjörmynd á nær allan hátt.

Ef menn vilja skilja á milli forseta og stjórnmála, hentar Katrín auðvitað ekki. Hún hefur verið stjórnmálamaður mest allan sinn feril. Fyrir undirrituðum er forsætisráðherramynd Katrínar, síðustu tæplega 7 árin, líka blandin – margt, sem stefnt var að og lofað 2017 hefur ekki staðizt eða rætzt – og fellur því nokkur skuggi á trúverðugleikann. Dæmi þetta auðvitað hver og einn fyrir sig.

Jón og tvíeykið eru auðvitað góðir menn og gegnir, hæfir til margs, en hvorugur aðilinn fyllir þó þá kjörmynd, sem mér finnst verða að gilda. Spurning hér er auðvitað líka, hvort þjóðin vilji tvíeyki á Bessastaði. Er það rétt og sönn forsetamynd landsmanna? Vitaskuld dæmir líka hér, hver fyrir sig.

Höfundur er stjórnmálarýnir og dýraverdarsinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: