- Advertisement -

Brýnust er núna skylda okkar við Yazan

– Þá eru ráðamenn ekki einungis veikir, vanhæfir og gráðugir heldur siðblindir og grimmir að auki. –

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifaði:

Yazan Tamimi er þú og hann er ég. Hann er að verða tólf ára.

Hvað vorum við að gera þegar við vorum tólf ára?

Enga miskunn, enga hlýju, enga mennsku.

Steinunn Ólína.

Ég hékk í sjoppu á Háaleitisbrautinni og æfði mig í reykingum, þú varst kannski flinkur í fótbolta, eða að skrifa, ég man þig, mundu mig, í minningabók hjá vinkonu þinni. Kannski var erfitt heima hjá þér. Kannski var enginn að hugsa um þig?

Yazan fæddist í Palestínu með sjaldgæfan vöðvarýrnunarsjúkdóm, Duchenne og þarfnast heilbrigðisþjónustu svo hann geti lifað. Við vitum fullvel hvernig ástatt er í Palestínu. Það er ekki til umræðu hér.

Foreldrar Yazans, Mohsen og Feryal komu til Íslands fyrir ári í von um heilbrigðisþjónustu fyrir drenginn sinn. Yazan er heppin að eiga foreldra sem reyna eftir fremstu getu að auka lífslíkur hans. Kannski varst þú ekki jafn heppin með foreldra?

Það er skylda okkar að hjálpa Yasan. Það þarf ekki að ræða afhverju. Það segir sig sjálft. Það neitar enginn barni með lífshættulegan sjúkdóm um læknisþjónustu nema sá sem ekkert á. Enga miskunn, enga hlýju, enga mennsku.

Ef svo er komið fyrir okkur að stjórnvöld fara af hörku fram gagnvart þessum 12 ára dreng og vísa honum og foreldrum hans af landi brott þá getum við ekki unað því. Þá er ástæða til að hræðast þessi stjórnvöld fyrir alvöru. Þá eru ráðamenn ekki einungis veikir, vanhæfir og gráðugir heldur siðblindir og grimmir að auki.

Allir eiga aðstoð skilið og vissulega þurfa stjórnvöld á aðhlynningu okkar að halda. Kerfið okkar er sjúkt. En brýnust er núna skylda okkar við Yazan.

Glæpur sá að vísa honum úr landi…

Steinunn Ólína.

Á Íslandi býr nefnilega gott og vingjarnlegt fólk og enginn hefur okkar umboð til að sýna barni miskunnarleysi. Ekkert réttlætir brottvísun Yazan. Engin rök. Ekkert.

Ef stjórnvöld gefa ekki Yazan og foreldrum hans þann stuðning sem þau þurfa á að halda og alla þá hlýju sem með þjóðinni býr, þá mun það þjóðarsálarsár aldrei gróa. Stjórnvöld gera okkur Íslendinga þar með að böðlum. Glæpur sá að vísa honum úr landi verður ekki aftur tekinn og þetta má ekki verða. Ekki síst okkar vegna.

Að vísa Yasan úr landi er einfaldlega siðferðislega rangt. Siðvilla.

Ég hafna því að verða gerð að kvalara tólf ára gamals drengs. Drengur sem er bara ég og þú. Einn af okkur. Hann Yazan.

Því trúi ég að aðrir geri líka og láti í sér heyra. Nú verðum við að hafa vit fyrir þeim sem vita ekki hvað þeir gera.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: