- Advertisement -

Hvaða réttlæti er verið að þjóna?

Vonandi fellur dómurinn í Bretlandi Assange í vil. Það væri sigur frjálsrar fjölmiðlunar.

Jón Magnússon.

Jón Magnússon hæstsaréttarlögmaður skrifaði:

Það getur verið dauðans alvara að segja satt. Það hafa margir reynt í tímans rás. Jesús Kristur sagðist vera í heiminn kominn til að bera sannleikanum vitni og Pontíus Pílatus sagði þá. „Hvað er þá sannleikur“ og dæmdi Jesús til krossfestingar.

Í dag kveður enskur áfrýjunardómstóll upp dóm um það hvort framselja eigi Julian Assange aðalmann Wikileaks til Bandaríkjanna, þar sem ljóst er að hans bíða réttarhöld og vafalítið langur fangelsisdómur.

En Julian sagði satt.

Julian Assange stóð fyrir því að ná í leynilegar upplýsingar m.a. um framgöngu Bandaríkjanna í Íraksstríðinu auk ýmissa annarra hluta. Ekkert af þeim fréttum, sem að Wikileaks birti voru falsfréttir. Þær voru sannleikur um alvarleg mál, sem áttu erindi til fólks í lýðræðisríkjum.

Það er ansi langt seilst af Bandaríkjamönnum, að segja að fréttirnar sem birtust á Wikileaks fyrir tilstilli Assange hafi varðað þjóðaröryggi Bandaríkjanna, en vissulega voru þessar fréttir ekki fengnar með aljgörlega heiðarlegum hætti, þar sem ýmsir uppljóstrarar, sérstaklega einn voru til staðar, sem miðluðu upplýsingum til Wikileaks.

En Julian sagði satt. Hann bar sannleikanum vitni og náði í fréttir, sem skiptu stundum miklu máli. Það er dapurlegt, að Bandaríkin forusturíki vestrænna lýðræðisríkja skuli standa í því að elta þennann ástralska ríkisborgara uppi í stað þess að viðurkenna mistökin sem áttu sér stað í Íraksstríðinu og Wikileaks birti upplýsingar um. Hvaða réttlæti er verið að þjóna?

Sjálfsagt sama réttlæti og leiddi til þess að fremsti skákmaður Bandaríkjamanna, Bobby Fischer, var landflótta áratugum saman og átti það upp á náð íslenskra stjórnvalda, að fá að vera í friði fyrir snuðrurum Bandaríkjanna sem vildu draga Fischer fyrir dóm og refsa honum fyrir að hafa tekið þátt í taflmóti í gömlu Júgóslavíu.

Vonandi fellur dómurinn í Bretlandi Assange í vil. Það væri sigur frjálsrar fjölmiðlunar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: