- Advertisement -

Afneitun og hvítþvottur – Óþægilegum fórnarlömbum sópað undir teppið

Grein frá Hagsmunarsamtökum heimilanna:

Nú þegar fimmtán ár eru liðin frá hruninu er reynt að endurskrifa söguna. Sjónvarp allra landsmanna sýndi þætti, Baráttan um Ísland, sem voru ekkert annað en hvítþvottur og móðgun við hin raunverulegu fórnarlömb hrunsins.

Nú skal fimmtán þúsund heimilum sópað undir teppið og látið sem þau hafi ekki verið til.

Það er til háborinnar skammar að enn skuli dregið í efa að 15.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín í gin bankanna, hvort sem var í gegnum nauðungarsölu eða nauðasamninga við þá.

Í öðru lagi er afneitun hennar og skeytingarleysi gagnvart á afdrifum 15.000 heimila og því ofbeldi sem þau urðu fyrir, vægast sagt sláandi.

Það eitt og sér staðfestir þörfina á rannsókn á þeim aðgerðum sem stjórnvöld réðust í eftir hrun, sem gerðu heimilin að varnarlausum leiksoppum fjármálafyrirtækjanna.

Engin pólitískur vilji virðist þó vera fyrir því inni á Alþingi, nema þá hjá einum flokki.

Formaður Hagsmunasamtaka heimilannanna spurði forsætisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi þann 8. október sl. hvort hún væri tilbúin að leggja fyrir ríkisstjórnina og svo Alþingi að gerð yrði rannsóknarskýrsla Alþingis um afdrif 15.000 heimila eftir hrun.

Svör forsætisráðherra vöktu vægast sagt furðu stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna.

Í fyrsta lagi virðist forsætisráðherra ekki átta sig á muninum á því sem gerðist í aðdraganda hrunsins, sem vissulega hefur verið rannsakað, og eftirmálum þess, sem aldrei hefur verið rannsakað.

Í öðru lagi er afneitun hennar og skeytingarleysi gagnvart á afdrifum 15.000 heimila og því ofbeldi sem þau urðu fyrir, vægast sagt sláandi.

Ofbeldi getur tekið á sig fleiri birtingarmyndir en bara þær sem eru líkamlegar og þessar fjölskyldur voru svo sannarlega beittar grófu ofbeldi. Rödd þeirra var tekin af þeim, þær voru sviptar grundvallarréttindum sínum og enginn í öllu „kerfinu“ gætti réttinda þeirra eða hagsmuna á nokkurn hátt.

Þær lentu inni í mulningsvél sem vann sitt verk á þeim hraða sem hentaði hverju sinni, en endirinn var alltaf ljós. Ótal hjónabönd stóðust ekki álagið og fjölskyldur sundruðust. Börn voru rifin upp með rótum, fólk veiktist af álagi og einhverjir tóku jafnvel líf sitt.

Þessar fjölskyldur eiga rétt á að raddir þeirra heyrist. Þær eiga rétt á að fá uppreist æru og að skila skömminni sem þær hafa borið frá hruni.

Líf þessa fólks hefur aldrei orðið samt. Þó einhver hafi náð að koma ár sinni aftur fyrir borð, eru þau samt ekkert endilega söm, og mörg þeirra hafa aldrei borið sitt barr síðan, glíma jafnvel við örorku vegna álagsins og ofbeldisins sem þau urðu fyrir.

Það er samt ekki nema von að forsætisráðherra „kannist ekki við þessa lýsingu“ eins og hún sagði í þessum fyrirspurnartíma. Hún er nefnilega ekki ein af þeim sem lentu í þessu og hefur aldrei lagt við hlustir til að heyra þessar sögur.

En það er óneitanlega sérstakt að heyra þennan forsætisráðherra draga reynslu fórnarlamba ofbeldis í efa, svo ekki sé meira sagt.

Það hafa verið skipaðar rannsóknarnefndir á vegum Alþingis af minna tilefni en því að fimmtán þúsund fjölskyldur missi heimili sín í kjölfar efnahagshruns.

Þessar fjölskyldur eiga rétt á að raddir þeirra heyrist. Þær eiga rétt á að fá uppreist æru og að skila skömminni sem þær hafa borið frá hruni.

Svo verðum við líka sem þjóð að horfast í augu við það sem þarna fór fram svo sömu afglöpin verði ekki endurtekin.

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma harðlega aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart heimilunum í gegnum svívirðilegar vaxtahækkanir sem eru að neyða þau inn í gildru verðtryggðra lána.

Seðlabankinn virðist vera algjörlega stjórnlaus og er með aðgerðum sínum að búa til langvarandi vanda og kreppu hjá heimilum landsins. Það er augljóst að þúsundir munu að óbreyttu missa heimili sín þegar áhrif þessara vanhugsuðu aðgerða fara að koma fram og verðtryggðu lánin vaxa heimilunum yfir höfuð.

Við krefjumst aðgerða og varna fyrir heimilin!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: