- Advertisement -

Brunnin lík með hendur bundnar fyrir aftan bak

Kristinn Hrafnsson:

Enginn efast um að einhverjir Hamasliðar frömdu skelfileg grimmdarverk meðal annars með því að skjóta óvopnaða óbreytta borgara.

Á meðan skuggalegar manndrápstölur á Gaza eru nú véfengdar af harðlínu zionistum og fylgifé, hafa fáir að efast um tölu þeirra sem féllu í árás Hamasliða fyrir mánuði. Ríflega 1400 voru sagðir hafa látist en skyndilega núna – meira en mánuði eftir atburðinn – var sú tala lækkuð í gærkvöld í 1200.

Það virðist sem hermenn og lögreglumenn séu drjúgur hluti af þessum hópi svo að óbreyttir borgarar sem létu lífið þennan dag voru þá að minnsta kosti 845, samkvæmt upplýsingum sem New York Times hefur eftir talsmanni Ísraelsstjórnar. Eða ekki, því það fylgdi sögunni að tölurnar kynnu að breytast.

Enginn efast um að einhverjir Hamasliðar frömdu skelfileg grimmdarverk meðal annars með því að skjóta óvopnaða óbreytta borgara.

Þegar kemur að grófum lýsingum um frekari mannvonsku sem Hamas á að hafa sýnt, fer myndin að verða óskýrari og skil á milli raunveruleika og áróðurs verður veikari. Þetta á einkum við um ásakanir um afhöfðun barna sem fæstir taka trúanlegar nema vanstilltustu æsingamenn. En þetta á einnig við um ásakanir um að konum hafi verið nauðgað, ungabörn myrt með hroðalegum hætti og að fólk hafi verið brennt lifandi.

Nú læðast einnig fram efasemdir um að Hamas beri beina ábyrgð á öllum dauðsföllunum og að einhver hluti af þessu blóðbaði geti skrifast á flaustursleg og vanstillt viðbrögð Ísraelshers sem svaf á verðinum þennan örlagaríka dag. Hið athyglisverðasta er að þessar vísbendingar koma ekki fram í fjölmiðlum sem afskrifa má sem áróðursmaskínur Palestínumanna, heldur úr fjölmiðlum í Ísrael.

Það að slíkar upplýsingar skuli yfirhöfuð birtast er endurspeglun á þeirri reiði sem er ríkjandi í Ísrael í garð leyniþjónusta og hers fyrir að hafa ekki séð árás Hamas fyrir. Það er smám saman að birtast mynd af viðbrögðum hers sem vissi ekkert hvað hann átti að gera og tók því ákvörðun um að sprengja og skjóta á allt kvikt án tillits til þess hvort þar væru Hamasliðar, Ísraelar á flóttta eða í gíslingu Hamas. Flugmenn á háþróuðum herþyrlum af Apache gerð tóku sjálfir ákvörðun um að tæma úr 30 mm kanónum og senda Hellfire flugskeyti á fólk, bíla og byggingar. Skriðdrekasveitir skutu á hús þar sem talið var að Hamasliðar væru innandyra og ekki var hirt um að þar kynnu einnig að vera gíslar. Það kann að skýra brunnin lík fólks með hendur bundnar fyrir aftan bak. Þetta kann einnig að skýra tjón á byggingum sem virðist illa stemma við þau léttvopn sem Hamasliðar höfðu aðallega meðferðis.

100 börn fyrir hvert ísraelskt.

Enn eru þessar upplýsingar fátæklegar og gefa enga heildarmynd – aðeins vísbendingu um að hluti af þessum 845 óbreyttu ísraelsku borgurum féll fyrir vopnum sinna eigin verndara, þ.e. Ísraelshers. Það er ekki mikill áhugi á því í Ísrael akkúrat núna að fara djúpt í saumana á þessu en kemur efa lítið í ljós á síðari stigum þegar málið verður rannsakað í kjölinn. Það eru allar líkur á því að sú rannsókn fari fram, vegna undirkraumandi reiði í garð þeirra sem sváfu á verðinum. Sú reiði nær allt til Benjamin Netanyahu forsætisráðherra sem mun að líkindum þurfa að sæta ábyrgð um leið og slátrunin á Gaza endar og rykið sest á fjöldagrafirnar. Eflaust veit hann af því og flýtir vart fyrir vilja til að stöðva blóðbað hefndarinnar. Sú hefnd er þegar komin yfir reikniregluna 10 augu fyrir hvert auga, 10 tennur fyrir hverja eina,

100 börn fyrir hvert ísraelskt.

Sú rasíska manngildismæling er ekki ný og hefur verið í gildi í áratugi á þessu svæði og að henni mætti huga þegar menn meta þennan blóðuga berserksgang 7. október.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: