- Advertisement -

Atvinnuleysi er mesta og versta bölið

– Nú, þegar kapítalisminn er að ríða veröldinni á slig, skeytingarlaus um að umhverfið setur umsvifum mannanna mörk, ættum við að hugleiða hvað gæti tekið við. –

Ragnar Önundarson.

Ragnar Önundarson skrifaði:

Samfélag Nú þegar mikilvægt atvinnufyrirtæki er sett í þrot á Akranesi, er tilefni til að ræða hvort ekki beri að eiga til önnur úrræði en að tvístra þeim verðmætum sem felast í áframhaldandi rekstri og framkalla atvinnuleysi fjölda fólks, í því skyni að lágmarka tjón samfélagsins?

Samvinnufélagaformið fékk óorð á sig hér á landi vegna þeirra forréttinda sem samvinnumenn fengu í skattamálum. Fleira kom til, vegna fjarlægðar kaupfélaganna frá eigendum sínum, viðskipta-mönnunum, fór eignaraðildin ,,á hvolf”. Viðskipta-vinirnir áttu að eiga kaupfélögin og afurðastöðvarnar og kaupfélögin áttu að eiga Sambandið (SÍS). Undir lokin drottnaði SÍS yfir kaupfélögunum og þau yfir viðskiptavinunum, af því að peningum fylgja alltaf völd. Lagfæra ber það sem miður fer, það er augljóst.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það felast líka verðmæti í viðskiptavinahópnum.

Nú, þegar kapítalisminn er að ríða veröldinni á slig, skeytingarlaus um að umhverfið setur umsvifum mannanna mörk, ættum við að hugleiða hvað gæti tekið við. Velferð og farsæld samfélaga byggist mest á atvinnu og atvinnuleysi er mesta og versta bölið. Hér á landi hafa aldrei orðið til ,,starfsmanna-samvinnufélög”. Þau eru sagt algengt form víða og jafnvel algengasta formið til utanumhalds um ýmis konar smárekstur í BNA, þar sem starfsmenn eru eigendur, eins og t.d. lögfræði-, tannlækna- og arkitektastofur. Kostur þessa félagsforms er nálægð starfsmanna við reksturinn og lýðræðisleg stjórnun. Öll þekking nauðsynleg hverjum rekstri er hjá starfsmönnunum og í henni felast verðmæti. Það felast líka verðmæti í viðskiptavinahópnum. Ef reksturinn stöðvast tvístrast þessi verðmæti, viðskiptavinir leita strax annað og starfsmenn leita annað eftir lífsviðurværi sínu. M.ö.o. verðmæti fyrirtækis í samfelldum rekstri er meira en upplausnarvirðið, sem felst bara í sölu eigna upp í skuldir.

Eignarréttinn ber að virða, veðhafar og aðrir lánadrottnar verða að fá sannvirði upp í kröfur sínar. Ef eitthvað verður eftir gengur það til hluthafa. Það er samrýmanlegt þeim hagsmunum starfsmannanna og samfélagsins að varðveita störfin: Þegar fyrirtæki er að fara í þrot og rekstrarstöðvun og upplausn blasir við, er unnt að stofna nýtt félag, starfsmanna-samvinnufélag, sem tekur reksturinn á leigu, fyrst til skamms tíma. Gefst þá ráðrúm til að meta verðmætin í honum, sem getur leitt til þess að nýja félagið taki hann yfir á sannvirði, til lengri tíma.

Ég sting upp á að tekið verði utan um þessa hugmynd. Það bjargar verðmætum viðskiptasamböndum og dýrmætum störfum og það getur forðað mörgum fjölskyldum frá miklum erfiðleikum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: