- Advertisement -

Aðgerð ráðherranna lyktar af óskhyggju

Gunnar Smári skrifar:

Þessi ráðstöfun ríkisstjórnarinnar, sem virðist ekki hafa verið byggð á ráðleggingum sóttvarnaryfirvalda heldur kröfum fyrirtækja í ferðaiðnaði, virðist jafn illa hugsuð og margar aðrar aðgerðir (enn hefur ekkert brúarlán verið veitt átta vikum eftir að þau kynnt með lúðrablæstri, hlutabótaleiðin var stórlega misnotuð, reglur um greiðslu launa í uppsagnarfresti hafa ekki enn verið kynntar og mörg fyrirtæki hafa krafið fólk á uppsagnarfresti um vinnuframlag þótt þau ætli að láta ríkið borga launin, forritið sem halda á utan um lokunarstyrkina er enn óklárað o.s.frv. o.s.frv.).
Mér finnst alls ekki gefið að ríkið borgi beint þessar athuganir, þætti miklu skynsamlegra að rukka flugfélögin, jafnvel þótt ríkið styrkti þau síðan hinum megin frá. Ef 50 þús. kr. sýnitaka er orðinn hluti af þjónustu flugvalla verður að hækka lendingargjöldin. Flugfélögin geta mætt því með að hækka verð á flugmiðum. En að ríkið borgi beint 11,5 m.kr. fyrir sýnitöku á 230 farþegum er ekki gott sístem. Og skrítið af ríkisstjórn sem telur það skynsamlegt að þau borgi sem noti vegakerfið og önnur grunnkerfi samfélagsins. Rukkar m.a. landsmenn fyrir komugjöld þegar þeir nota heilbrigðiskerfið og námsmenn um skráningargjald þegar þeir nota menntakerfið. Sama ríkisstjórn er þarna að byggja gjaldfrjálsa sýnatöku fyrir ferðamenn.
Svo er annað. Þetta hefur þótt snjöll lausn á neyðarfundum eigenda ferðaþjónustufyrirtækja með ráðherrum. En hverjar eru líkurnar á að hún muni leiða til þess að ferðamenn komi hingað? Icelandair heldur nú uppi ferðum til Boston, London og Stokkhólms, flýgur hálftómum vélum með tug milljóna styrk frá ríkissjóði. Með því að bjóða upp á sýnitöku, nótt á flugvallarhóteli meðan beðið er niðurstöðu, ferðafrelsi ef niðurstaðan er neikvæð eða tveggja vikna sóttkví ef það er jákvætt (eða ef það var jákvætt hjá einhverjum í flugvélinni tveimur sætaröðum aftur og tveimur fram); er þá svo víst að eftirspurnin verði næg til að flugfélög sjái fram á +85% sætanýtingu frá nokkrum brottfararstöðum? Eða ætlar ríkið að bæta við styrkinn til Icelandair, kaupa af félaginu ferðir frá enn fleiri áfangastöðum þar til að vélarnar verða fullar af fólki sem tekur áhættuna með sýnatökuna?
Auðvitað má það vera að eftirspurnin eftir Íslandsferðum sé slík að leiðakerfi Icelandair hrökkvi í gang um miðjan júní. En svo má líka vera að svo sé bara alls ekki.
Þessi aðgerð ráðherranna lyktar um margt af sömu óskhyggju og aðrar aðgerðir þeirra, sem alla tíð hafa byggt á að við séum að fara í gegnum skafl, yfir V-laga niðursveiflu þar sem uppgangurinn verður jafn hraður og niðursveiflan. Er ekki kominn tími til að ráðherrarnir kalli fleiri en samtök fyrirtækja- og fjármagnseigenda að borðinu, kalli eftir dýpri skilningi á þessari efnahagslægð, fleiri röddum og víðfeðmari reynslu?
Það held ég nú.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: