- Advertisement -

Ríkið komi ekki nálægt svona gumsi

Er fólk virkilega að leggja það til að það sé ríkisábyrgð á þessu spákaupmennskuveðmáli?

Gunnar Smári skrifar:

Þegar kúnnarnir eru farnir og ríkið hefur tekið starfsfólkið til sín á atvinnuleysisbætur er fyrirtæki lítið annað en samkomulag eigenda og lánardrottna. Sem hefur ýmsar birtingarmyndir. Icelandair tapaði til dæmis 6,6 milljörðum á framvirkum samningum um kaup á eldsneyti á fyrstu þremur mánuðum ársins. Við skulum vona að þetta séu aðeins samningar um kaup á tilteknu verði en ekki líka um kaup á tilteknu magni; þá getur tapið af þessum samningi margfaldast. En auðvitað á ríkið ekki að koma nálægt svona gumsi. Ríkið á að verja starfsfólkið og hefur gert það. Svo á ríkið að verja samgöngur til annarra landa með því að búa til flugfélag sem er kannski 1/6 af núverandi umfangi Iceandair, félag sem síðar getur vaxið með auknum ferðalögum.

En að stinga sér inn allskyns fjármálagjörninga, nýleg áhættulán til félagsins og allskyns framvirka samninga um kaup á eldsneyti, þotum og aðföngum frá því að markaðurinn var allt öðruvísi, er algjört glapræði. Er fólk virkilega að leggja það til að það sé ríkisábyrgð á þessu spákaupmennskuveðmáli um þróun eldsneytisverð, að sendi eigi landsmönnum reikning upp á 10, 20, jafnvel 30 milljarða vegna þess að stjórnendur Icelandair töpuðu í spilavíti fjármálavædds kapítalisma?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: