- Advertisement -

ASÍ mótmælir vaxtamun

Miðstjórn ASÍ mótmælir hækkun þjónustugjalda og auknum vaxtamun bankanna. Undanfarin misseri hafa skapast forsendur til lækkunar stýrivaxta og í nóvember sl. ákvað peningastefnunefnd að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig, úr 6% í 5,75% en við þá ákvörðun juku bankarnir vaxtamun sinn.

Á síðu Alþýðusambandsins segir að Alþýðusambandið og verðlagseftirlit ASÍ hafi undanfarin misseri fengið mikinn fjölda ábendinga um hækkun þjónustugjalda og nýja gjaldstofna bankanna. Í mörgum tilfellum hafa þjónustugjöld bankanna hækkað umfram verðlagsþróun og leggjast þau þungt á einstaklinga með lítið aðgengi að tölvum. Miðstjórn ASÍ hefur áhyggjur af þeirri þróun að fjármálafyrirtæki auki vaxtamun og hækki þjónustugjöld í skjóli fákeppni og átthagafjötra og skorar á bankanna að leyfa viðskiptavinum að njóta ábatans af nýfengnum stöðugleika.

Heimili og fyrirtæki í landinu hafa haft  réttmætar væntingar um að stýrivextir kæmu til með að hafa áhrif á almenn vaxtakjör í landinu. Líkt og hagfræðingur VR hefur bent á jókst vaxtamunur bankanna við vaxtaákvörðunina í nóvember1. Útlánavextir bankanna lækkuðu að jafnaði um 0,2 prósentustig en að sama skapi lækkuðu bankarnir innlánsvexti um rúmlega 0,28 prósentustig.

Þann 10. desember ákvað peningastefnunefnd að lækka stýrivexti í annað sinn á skömmum tíma, um 0,5 prósentustig, eða niður í 5,25%. Líkt og peningastefnunefnd benti á mældist lítils háttar verðhjöðnun í nóvember þegar litið var framhjá áhrifum húsnæðiskostnaðar, verðbólguþrýstingur þannig lítill.

Við þessa ákvörðun breyttu bankarnir vaxtatöflu sinni en drógu þó ekki úr vaxtamuninum sem aukist hafði mánuðinn á undan. Stýrivaxtalækkun hefur því ekki orðið til þess að auka hag viðskiptavina bankanna og leitt til þess að þeir fá verri ávöxtun fyrir sparifé sitt og greiði meira fyrir lánsfjármagn.

Það sem þó hefur vakið sérstaka athygli er hækkun á verðtryggðum útlánavöxtum bankanna, en vextir verðtryggðra húsnæðislána með breytilegum vöxtum hækkuðu um áramótin en ein af rökum Arion Banka voru sú að bankaskattur hafi kallað á hækkun vaxta.

Rétt er að benda á það að vaxtamunur íslenskra banka er mjög hár í alþjóðlegu samhengi en í júní 2014 var vaxtamunur íslensku bankanna á bilinu 2,6 – 3,6% á meðan vaxtamunur stóru bankanna á Norðurlöndum var á bilinu 1-1,5%2 Hinar hefðbundnu skýringar fyrir þessum vaxtamun eru að hér sé ekki sama stærðarhagkvæmni í rekstri og að íslensku bankarnir hafi innheimt gjöld fyrir aðra þjónustu bankans með vöxtum.

Sjá frétt á vef ASÍ.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: