- Advertisement -

Skuggi yfir atvinnulífinu á Akranesi

Búið er að slátra möguleikum okkar á veiðum og vinnslu hvalaafurða á þessari vertíð með handónýtri og ólöglegri stjórnsýslu stjórnvalda.

Vilhjálmur Birgisson.

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og VLFA skrifar þunga grein á Facebook.

Atvinnulíf Það er óhætt að segja það enn og aftur er veruleg óvissa uppi í atvinnumálum okkar Akurnesinga eins og þessi frétt um Skaginn 3X staðfestir. En í þessari frétt kemur fram að takist ekki að afla viðbótarfjármagns er veruleg óvissa um rekstrarhæfi Skagans 3X. Til marks um slæma fjárhagsstöðu Skagans 3X var eigið fé félagsins neikvætt um 3,3 milljarða króna í lok síðasta árs. Rétt er að geta þess að tæplega 140 manns hafa starfað hjá Skaganum 3X að meðaltali.

Til viðbótar þessari óvissu í kringum Skagann 3X hefur starfsmönnum N1 verið sagt upp störfum og munu uppsagnir taka gildi frá næstu áramótum en mér telst til að á þriðja tug starfsmanna séu undir í þeirri uppsögn. Ástæða þessara uppsagnar hjá N1 er seinagangur hjá Festi sem á og rekur N1 að reisa nýja þjónustustöð og Akraneskaupstaður hafi óskað eftir að fá lóðina sem Skútan N1 er á núna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Mitt mat er að þetta ástand getur ekki gengið lengur enda höfum við Akurnesingar þurft að horfa uppá gríðarlegar hremmingar í okkar atvinnulífi á liðnum árum. Kvótakerfið sá um að slátra allri vinnslu og veiðum sjávarafurða enda búið að þurrka allar aflaheimildir sem við Akurnesingar höfðum aðgang að í burtu úr sveitarfélaginu.

Búið er að slátra möguleikum okkar á veiðum og vinnslu hvalaafurða á þessari vertíð með handónýtri og ólöglegri stjórnsýslu stjórnvalda og mitt mat er að núna sé komið nóg og við Akurnesingar verðum að gera eitthvað í okkar málum til að efla atvinnulífið.

Enda morgunljóst að ekkert sveitarfélag getur þrifist án þess að hafa sterkt og öflugt gjaldeyrisskapandi atvinnulíf en það er með slíkum störfum sem öll sveitarfélög eflast og styrkjast.

Við verðum að fara að opna augun…

Það blasir við að þrátt fyrir að allir innviðir hér á Akranesi séu til algjörra fyrirmyndar þá hefur okkur alls ekki tekist að efla atvinnulífið hér á Akranesi. Nánast enginn sjávarútvegur er eftir, ekkert hótel sem leiðir til þess að við erum ekki með hvað ferðaþjónustu varðar. Við verðum að fara að opna augun fyrir þessum staðreyndum og krefjast þess að stjórnvöld, bæjarstjórn og við öll ráðumst í eflingu á gjaldeyrisskapandi atvinnutækifærum okkur Akurnesingum til hagsbóta.

Við höfum alla innviði eins og áður sagði frábæra grunnskóla, leikskóla, heilsugæslu og öflugt og gott íþróttastarf. Við höfum allt nema öflugt atvinnulíf og því verður að breyta og það strax og bið ég bæjarfulltrúa og okkur öll að vakna og opna augun fyrir þessum staðreyndum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: