- Advertisement -

Búið að flensa fyrsta hvalinn

Hvalveiðar Hvalur 9 kom með fyrstu langreyðina að landi, á þessari vertíð, í gær, 17. júní. Skessuhorn greinir frá þessu.

Langreypin var 62 feta kýr sem veiddist djúpt vestur af landinu. „Hvalurinn var strax dreginn upp á plan og fljótlega hófst hvalskurðurinn; flensunin. Greinilegt var að vanir menn hafa fengist til starfa á þessari vertíð því einungis leið innan við klukkustund frá því hvalurinn kom á planið og búið var að ná öllu kjöti í hús. Heimildir Skessuhorns herma að langflestir sem vinna á þessari hvalvertíð sé vant fólk. Eingungis beinagrind og innyflin lágu eftir þegar búið var að ná öllu kjöti í hús. Spik er brætt í lýsi sem meðal annars er blandað við olíuna á hvalveiðibátana. Beinin og innyfli fara í mjölvinnslu. Hið verðmikla kjöt af hvalnum fer strax til vinnslu, sumt er fryst í hvalstöðinni en ekið með annað á Akranes þar sem það er unnið í Heimaskagahúsinu til frystingar. Um miðjan dag í dag var Hvalur 8 búinn að veiða einn hval og var á höttunum eftir öðrum áður en siglt yrði í land. Nú tekur við vertíð hjá starfsmönnum Hvals hf. þar sem unnið er á átta tíma vöktum, og átta tíma hvíld, þar til vertíðinni lýkur, líklega í september. Heimilt er að veiða 154 dýr á þessari vertíð. Veður og skyggni ræður því hversu hratt gengur að veiða upp í kvótann,“ segir á vef Skessuhrons.

Blaðið segir einnig frá að mikil endurnýjun búnaðar og mannvirkja hafi átt sér stað í Hvalstöðinni í Hvalfirði á síðustu árum og stöðin orðin hin snyrtilegasta á að líta. Mjög hefur verið aukið á ýmsar öryggis- og hreinlætiskröfur á vinnustaðnum og er t.a.m. engum óviðkomandi hleypt inn á vinnusvæðið sem tryggilega er girt af fyrir umferð fólks. Hægt er að fylgjast með hvalskurðinum úr brekkunni ofan við stöðina. Þar voru nokkrir hvalfriðunarsinnar með spjöld í upphafi hvalskurðarins í dag, en stoppuðu stutt við í rigningunni og héldu á brott.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: