- Advertisement -

Auknar strandveiðar eru ekki á dagskrá

Í ágúst kom í ljós að aflinn myndi ekki duga.

„Það var samið um þennan þingstubb af hálfu stjórnarandstöðunnar við stjórnarmeirihlutann og þetta mál, breytingar á stjórn fiskveiða, er ekki á dagskrá,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG og formaður atvinnuveganefndar, á Alþingi í dag.

Lilja Rafney sagði að tekist hafi að efla strandveiðar og styrkja undanfarin tvö ár. „Okkur hefur tekist að stækka pottinn mikið og setja 12 daga kerfi til öryggis fyrir sjómenn. Við höfum sett fram 48 daga fyrir strandveiðisjómenn yfir sumartímann og það er mjög mikilvægt að tryggja að það sé nægt aflamagn fyrir þessa 48 daga. Í ágúst kom í ljós að aflinn myndi ekki duga. Það vantaði nokkra daga upp á og ég lagði mikla áherslu á það sem formaður atvinnuveganefndar, og beitti mér fyrir því, að allra leiða væri leitað til að bæta enn frekar við strandveiðipottinn svo að þetta dygði. Það var búið að bæta við 720 tonnum í júlí en hæstvirtur ráðherra sá ekki möguleika á því, eins og hlutirnir lágu inni í kerfinu, og ef það ætti að gera eitthvað þyrfti lagabreytingu til. Ég vildi halda fund í atvinnuveganefnd um þessi mál og tók undir orð þeirra háttvirtra þingmanna sem það gerðu líka, eins og hv. þingmaður nefndi. Við ræddum þessi mál fram og til baka og það kom skýrt fram að það þyrfti lagabreytingu ef opna ætti á veiði strandveiðibáta í september.“

Síðan sagði Lilja Rafney: „Það var samið um þennan þingstubb af hálfu stjórnarandstöðunnar við stjórnarmeirihlutann og þetta mál, breytingar á stjórn fiskveiða, er ekki á dagskrá. Ég mat það svo að ekki væri þingvilji fyrir því að taka málið á dagskrá því að allir flokkar hefðu þurft að vera sammála um það. Ég tel að mitt mat hafi verið hárrétt og ekki hefur þetta verið tekið upp af hálfu þingmanna Pírata á þingflokksformannafundum. Ég tel að við þurfum áfram að efla strandveiðar. Við tökum í haust til umræðu 5,3% hlutann í aflamarkskerfinu. Þá höldum við áfram að efla strandveiðar og tryggja 48 daga.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: