- Advertisement -

Bjarni Ben: Viðbrögðin í framhaldinu hafa einkennst af talsverðri vanstillingu

Það er ekki sjálfgefið að íslensk stjórnvöld sendi skattfé í stórum stíl á átakasvæði í blindni.

Bjarni Benediktsson.

Bjarni Benediktsson skrifar:

Fyrir helgi bárust fréttir af því að nokkrum starfsmönnum Palestínuflóttamannaaðstoðar SÞ, sem í daglegu tali er nefnd UNRWA, hefði verið sagt upp í kjölfar ásakana um ákveðin tengsl við hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael þann 7. október. Frekari fréttir hafa verið að berast af málinu um helgina. Í árásinni létust á annað þúsund manns, auk þess sem við þekkjum fréttirnar af mannránum og hrottalegum kynferðisbrotum hryðjuverkamannanna.

Stofnunin brást hratt við, vék starfsmönnum úr starfi og rannsókn mun vera hafin á framkomnum ásökunum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Talað er á þann veg að Ísland svelti nú fólk á svæðinu…

Ísland hefur undanfarið verið meðal stærstu stuðningsríkja UNRWA m.v. höfðatölu og veitt rífleg viðbótarframlög til stofnunarinnar eftir að átökin brutust út, enda gegnir hún mikilvægu hlutverki við mannúðaraðstoð á svæðinu. Við höfum ávallt lítið á UNRWA sem lykilstofnun við að koma mannúðaraðstoð rétta leið.

Vegna þessa máls tilkynnti ég að ekki yrði um frekari framlög að ræða á meðan skýringa væri aflað og samráð haft við samstarfsríki, þ.m.t. Norðurlöndin um næstu skref í málinu. Í dag eiga fulltrúar utanríkisþjónustunnar m.a. fund með stofnuninni í þessum tilgangi. Eðlilegt og nauðsynlegt er að kalla eftir skýringum og samræma kröfur um viðbrögð flóttamannaaðstoðarinnar.

Viðbrögðin í framhaldinu hafa einkennst af talsverðri vanstillingu, bæði af hálfu fjölmiðla og stjórnarandstöðu. Talað er á þann veg að Ísland svelti nú fólk á svæðinu, frysting framlaga meðan samráð fer fram sé óásættanleg og jafngildi jafnvel ,,þátttöku í þjóðarmorði”.

Varla þarf að hafa mörg orð um þessar upphrópanir, en mér þykir hins vegar rétt að árétta eftirfarandi; Það er ekki sjálfgefið að íslensk stjórnvöld sendi skattfé í stórum stíl á átakasvæði í blindni. Stofnunin lýtur umfangsmiklu eftirliti SÞ og stuðningsríkja, ekki síst Bandaríkjanna, en þegar ásakanir sem þessar koma upp er það beinlínis skylda mín sem ráðherra að tryggja að peningarnir renni þangað sem ætlast er til, og ekkert annað.

Ef við fáum fullnægjandi skýringar og erum sammála mati um nauðsynleg viðbrögð stofnunarinnar þá er ekkert því til fyrirstöðu að stuðningur okkar haldi áfram. En ég lít á það sem skyldu mína að ganga úr skugga um eðlileg viðbrögð og ráðstafanir til framtíðar.

Ísland styður mannúðaraðstoð á svæðinu í gegnum ýmsar stofnanir og við höfum engin áform um að draga úr honum.

Það á við í þessu máli líkt og svo oft áður, að lítils háttar yfirvegun og stilling myndu gera umræðunni gott.

Bjarni Benediktsson birti greinina á eigin Facebooksíðu nú fyrir skömmu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: