- Advertisement -

Bjarni með traustið í skrúfunni

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki í góðum málum meðal stuðningsmanna flokksins. Rétt um helmingur þeirra treystir Bjarna fremur en öðrum ráðherrum. Rétt um helmingur stuðningsmannanna gerir það ekki. Staða Bjarna hefur svo sem verið verri. Það getur ekki verið mikil huggun fyrir Bjarna. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins.

Hann segir okkur öll vera á sama báti. Það er erfið myndlíking. Jafnvel meðal ráðherranna. Sumir þeirra eru í ágætis málum hjá kjósendum. Bjarni og Kristján Þór Júlíusson ber af sökum þess hversu margir kjósendur nefna þá þegar spurt er til hvaða ráðherra kjósendur bera minnst traust. Þeir eru báðir hraustlega í mínus. Neikvæða súlan er mun stærri en sú jákvæða. Svo eru margir ráðherrar sem eru hvorki né. Vekja litla hrifningu og fólk virðist ekki finna margt neikvætt í störfum þeirra. Ef horft er til Sjálfstæðisflokksins sést, af lestri Fréttablaðsins, að staða ráðherra Sjálfstæðisflokksins, meðal kjósenda flokksins, er þessi. Bjarni kemur fyrstur með 51 prósent, þá Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir með ellefu prósent, þá Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sem nýtur velvildar 7,6 prósenta, Guðlaugur Þór Þórðarson er með fjögurra prósenta stuðning kjósenda flokksins og langt lægstur er Kristján Þór Júlíusson, sem er ámóta slakur og Guðlaugur Þór.

Katrín er með 82% fylgi meðal kjósenda VG.

Fréttablaðið segir um Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra: „Stuðningur við Katrínu kemur úr öllum áttum. Hún nýtur þó meira fylgis meðal kvenna en karla. Stuðningurinn er nokkuð jafn í öllum aldurshópum, þó mestur með þeirra yngstu og elstu. Traustið eykst einnig með auknu menntunarstigi, en fólk með háskólapróf er líklegast til að treysta henni best. Hún nýtur yfirburðastuðnings í eigin flokki, en 82 prósent kjósenda VG treysta henni best allra ráðherra. Kjósendur Viðreisnar nefna Katrínu líka oftast, eða í 30 prósentum tilvika, og fjórðungur kjósenda Samfylkingarinnar. Svandís er þó vinsælli meðal Samfylkingarfólks en 30 prósent þess treysta henni best. Stuðningur við Lilju meðal jafnaðarmanna hefur hins vegar dalað síðan í fyrra.“

Við þetta er að bæta að þrettán prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks nefna Katrínu frekar en Bjarna.

Lilja Alfreðsdóttir hefur áberandi bestu stöðuna af ráðherrum Framsóknarflokksins.