- Advertisement -

Bjarni segist fórnarlamb eigin verðbólgu

Marinó G. Njálsson:

Fólk á lægstu tekjum er að sækja sér kjarabætur vegna þess að þær eru því nauðsynlegar, en þið eruð að fá þær þrátt fyrir að hafa það mjög gott og án þess að þurfa kjarabætur.

HJÁLP, HJÁLP, EINHVER BJARGI MÉR. OFURLAUNIN MÍN ERU EKKI AÐ HÆKKA Í TAKT VIÐ VERÐBÓLGU!

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kastar út raunvirðisvopninu. Það á að bjarga honum frá gagnrýni almennings á tvískinnung stjórnmálamannanna.

Efnafólk, svo sem ráðherrar og forstjórar, réttlæta oft miklar krónutöluhækkanir launa sinna, að viðkomandi hafi í raun verið að taka á sig kaupmáttarskerðingu í prósentum talið. Bjarni Benediktsson segir í viðtali við Vísi „Í ljósi verðbólgunnar er töluvert í að launin taki breytingum til samræmis við verðbólgu“. Hann lítur að sjálfsögðu alveg framhjá því, að kaupmáttur launa hans var langt umfram það sem vísitala neysluverðs mælir.

Mismunurinn fer í sparnað, fjárfestingar og lúxus…

Veit svo sem ekki hve margir búa á heimili hans, en þó hann sé efnaður, þá efast ég stórlega um að neysluútgjöld heimilisins séu meiri en hjá meðaltekjuheimili með jafn margt heimilisfólk. Munurinn á Bjarna og meðaltekjuheimilinu er að Bjarni og eiginkona eiga mun meira eftir, þegar búið er að greiða bæði föstu og breytilegu útgjöld heimilisins. Mismunurinn fer í sparnað, fjárfestingar og lúxus sem ekki er mælt með vísitölu neysluverðs. Það er því einfaldlega rangt að Bjarni og ráðherrar ríkisstjórnarinnar verði fyrir kaupmáttarskerðingu í þeirri skilgreiningu hugtaksins, sem flest launafólk á samningum SGS, VR og Eflingar horfa til hugtaksins. Það sem skerðist er geta þeirra til leggja fyrir, fjárfesta eða kaupa dýra hluti.

Þetta er nefnilega vandinn við þá kaupmáttarmælingu sem haldið er almennt á lofti. Hún leggur að jöfnu öll heimili. Vísitala neysluverðs ákveður hvort launabreyting viðheldur kaupmætti, eykur hann eða veldur skerðingu frá sem var áður en verðhækkanir gengu yfir. En er þetta rétt mæling? Er rétt að bera saman 150.000 kr. hækkun einstaklings með 1,8 m.kr. á mánuði við 40.000 kr. hækkun þess sem er með 400.000 kr. á mánuði og segja að sá síðari hafi aukið kaupmátt sinn meira vegna þess að 40.000 kr. eru hærra hlutfall af 400.000 kr. en 150 þ.kr. eru af 1,8 m.kr.? Það sjá það allir sem vilja, að hægt er að kaupa miklu meira fyrir 150 þ.kr. en 40 þ.kr. Var þá ekki kaupmáttur þess efnaðri að aukast meira en hins láglaunaða? Ekki samkvæmt þeim heilaþvotti sem hefur verið í gangi með prósentureikningi. Nei, kaupmáttur 40.000 kr. er meiri en 150.000 kr. og þannig skal það vera!

Bara svona áður en vælubíllinn kemst að heimili Bjarna og hinna ráðherranna, sem telja sig hlunnfarna af því að hækka „bara“ um 6,5%, þegar hótelstarfsfólk á skítakaupi fékk 10% hækkun

Bara svona áður en vælubíllinn kemst að heimili Bjarna og hinna ráðherranna, sem telja sig hlunnfarna af því að hækka „bara“ um 6,5%, þegar hótelstarfsfólk á skítakaupi fékk 10% hækkun, þá er hér ábending. Það er enginn hlunnfarinn við að fá krónutölu hækkun langt umfram það sem almennt launafólk fékk. Það eru forréttindi að vera með laun sem duga til að gera lífið bærilegt. Ef þið teljið ykkur yfir aðra hafna og eigið tilkall til hærri launahækkana vegna þess að launin ykkar voru svo há áður, þá bið ég ykkur vinsamlegast að segja af ykkur.

Að fá háar tekjur, sem m.a. eru greiddar af fólki á lægstu launum, ætti að gera ykkur auðmjúk og þakklát, en ekki drambsöm og gráðug. Fólk á lægstu tekjum er að sækja sér kjarabætur vegna þess að þær eru því nauðsynlegar, en þið eruð að fá þær þrátt fyrir að hafa það mjög gott og án þess að þurfa kjarabætur. Það er EKKERT eðlilegt eða sanngjarnt við það, að fólk, sem þarf ekki á kjarabótum að halda, sé að fá margfaldar kjarabætur á við almennt launafólk.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Hún er birt hér með leyfi höfundar. Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: