- Advertisement -

Demókratar þurfa nýtt forsetaefni – á elleftu stundu

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkiráðherra, skrifaði fínustu grein um kappræður þeirra Trumps og Biden. Ég birti greinina hér. Hún er of vönduð til að láta hana liggja bara á Facebooksíðu Össurar.

– sme

Ég horfði á kappræður þeirra Joe Biden og Donald Trump í nótt. Biden hefur sannarlega verið mjög afkastamikill og góður forseti, náð í gegn mörgum stórvirkjum á sviði lagasetninga, sem hafa þegar gjörbreytt stöðu orkuskipta. Efnahagsmálin eru á bullandi uppleið.

Biden hefur einnig lagt lagalegan grunn og aflað fjármagns til að fara í verulega styrkingu innviða í Bandaríkjunum. En sérhver gestur þangað sér að þeir eru að grotna niður, hvort sem litið er til ástands flugvalla, hraðbrauta, lestakerfis og annarra samgöngumannvirkja. Honum, og demókrötum, er einnig þakkað að Bandaríkin eru nú mestu orkuframleiðendur heimsins og hafa losað þjóðina úr greipum OPEC ríkja, sem eru skelfingu lostin.

Andstæðingur hans, Trump, er frægur raðlygari, dæmdur glæpamaður, og dæmdur í háar sektir fyrir kynferðisbrot gegn þekktri konu, og er að auki með hrinu alvarlegra mála fyrir dómskerfinu, sem sum gætu komið honum í fangelsi. Etískt hlýtur það að skipta máli amk. í biblíubeltum Bandaríkjanna að hann hélt framhjá konu sinni óléttri með klámdrottningu, og óf samsærisvef með aðstoð vina á stórmiðlum til að reyna að þagga það niður, m.a. með fégreiðslum til konunnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Össur Skarphéðinsson er höfundur greinarinnar.

Trump hefur þó tekist að tefja flest hinn stærri dómsmálin gegn sér, sem líkleg eru til að koma honum í fangelsi, fram yfir kosningar. Sum málanna svo alvarleg að virtir lagaspekingar velta fyrir sér hvort unnt sé að meina kjörnum forseta að stýra Bandaríkjunum úr fangelsi. Tilgangur Trumps með forsetadæminu virðist ekki síst vera að slökkva á alvarlegum dómsmálum gegn sér í krafti endurnýjaðs forsetavalds.

Frómt frá sagt virkaði Biden hræðilega í kappræðunum. Hann birtist sem mjög gamall og þreyttur, hreyfði sig einsog háaldraður maður – sem hann er auðvitað að verða – undir miklu álagi. Rödd hans var hás og aðþrengd, og maður átti stundum erfitt með að greina bæði hvað hann sagði, og samhengið í hinum töluðu orðum.

Þegar hann var ekki í mynd meðan stjórnendur eða Trump höfðu orðið, hengdi hann hálfvegis haus, svipbrigðalaus með opinn hangandi munn einsog maður sér stundum hjá mjög gömlum mönnum á elliheimilum. Það fór oft um mig kjánahrollur undir umræðunum. Mér leið satt að segja hræðilega meðan á þeim stóð. Biden var augljóslega þyngdur af ellibelgnum, og gamli bardagamaðurinn, sem oft leiftraði, og var stundum örskjótur að hugsa, með „one-liners“ á hraðbergi, var hvergi sjáanlegur.

Á meðan gustaði stundum af Trump. Hann leit vel út, augljóslega í miklu betra formi en síðast, mun reyndari, virtisr þróttmeiri og miklu yngri en Biden- sem hann er þó ekki. Trump virtist á köflum fullur af sjálfstrausti, laug sig með flóðmælsku frá hverju málinu á fætur öðru, skellti skuldinni af valdaránstilrauninni sem hann hvatti Proud Boys og aðra til 6. janúar 2021, á Nancy Pelosi,og laug því líka að mikilvægum vitnisburðum honum í hag hefði verið skotið undan.

Engum duldist að Trump var á bandi Pútíns í Úkraínudeilunni. Nái hann kjöri munu Úkraínumenn skjótt sjá sína sæng útbreidda. Stuðningur Bandaríkjanna við þá mun því fljótt þverra verði Trump forseti. Og hvað verður um Nató ræfilinn undir Trump?

Kamala Harris, liðónýtur varaforseti…

Mér fannst Biden klúðra í kappræðunum flestum helstu áherslumálum demókrata, einsog varðandi þungunarrof sem eitt og sér er málefni, sem demókratar gætu auðveldlega unnið kosningarnar á. Sama gilti um efnahagsmálin. „It is the economy, stupid!“ voru fræg orð Jimmy Carville, helsta strategista Bill Clinton, og átti við að staða efnahagsmála réði jafnan úrslitum um endurkjör forseta. En Biden hafði ekki rænu til að koma á framfæri að undir hans stjórn – og að mörgu leyti vegna ákvarðana hans – er bullandi uppgangur í efnahagslífinu.

Varla bar á góma hans að engar líkur eru lengur á harðri lendingu eftir gríðarlegt verðbólguskot í kjölfar Covid, fremur en sú staðreynd að verðbólga í Bandaríkjunum er að hrapa einsog steinn, flestir finna atvinnu við hæfi, og laun hafa ekki lækkað að marki. Undir árásum Trumps vegna brottfarar Bandaríkjamanna frá Afghanistan hafði Biden ekki einu sinni rænu á að skjóta því inn að það var Trump sjálfur, sem tók ákvörðun um hana – og samdi sjálfur við Talebana.

Ekki bætir úr skák demókrata að eini stjórnmálamaðurinn sem naut meiri óvinsælda en Biden fyrir kappræðurnar er Kamala Harris, liðónýtur varaforseti. Menn hugsa með skelfingu til þess að hún þurfi e.t.v. að taka við keflinu af Biden áður en kjörtímabilinu sleppir. Í kjölfar kappræðnanna munu Repúblikanar leggja þunga áherslu á að vaxandi líkur séu á að Kamala verði forseti upp úr þurru, og það mun skaða stöðu Demókrata.

Fyrir demókrata voru kappræðurnar stórslys, „disaster“ jafnvel. Hinn gamli refur David Axelrod, helsti strategisti Barack Obama, þegar Biden var varaforseti, lét hafa eftir sér að þeim loknumað nú hlytu demókratar að hugsa hratt um hvort og hvernig mætti skipta inn á nýju forsetaefni. Úr þessu gerist það ekki nema með samþykki Bidens sjálfs.

Gerist það hins vegar ekki hafa sigurlíkur Repúblikana með Trump í fararbroddi stóraukist með gærkvöldinu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: