- Advertisement -

Ekki allt í vasann

Viðbrögð hafa borist við frétt frá því gær, sjá hér. Þar var sagt frá hversu mikið sónarskoðun, skoðun sem tekur innan við tíu mínútur.

„Ég var boðaður í sónarskoðun hjá hjartalækni, þar sem mín bíður að fara í hjartaþræðingu. Ég mætti á tilsettum tíma. Skoðunin tók réttar níu mínútur. Þegar ég borgaði fyrir herlegheitin brá mér í brún. Þessar níu mínútur kostuðu samtals 32.676 krónur. Minn hluti var 14.990 krónur. Hitt féll á ríkissjóð,“ segir viðmælandi okkar.

Eins var vísað til viðtals við Birgi Jakobsson landlækni. Hann sagði meðal annars að það tíðkist of oft að læknar vinni óþarfa verk. Það er að þeir haldi sjúklingum of lengi, boði þá oft í viðtöl.

Áður hefur verið fjallað um þetta hér á síðunni, sjá hér.

Læknir, sem ekki er vitað hver er, hefur skrifað athugasemdir við frétt gærdagsins. Læknirinn skrifar:

„….í ofangreindri frétt er verið að ræða um hjartaómanir en ómtæki af góðum gæðum kostar nálægt 20 milljónum og afskrifast á nokkrum árum (tæki bæði ganga úr sér og úreldast). Svo situr ekki nokkur lifandi manneskja við og skoðar sjúkling í ómun á 10 mín fresti heilu dagana, það álag gengur bara ekki upp. Verð einnar hjartaómunar er skv þessum reikningi um 32 þúsund krónur. Þá á eftir að draga frá allan kostnað og aðstöðugjöld og svo launatengd gjöld þess sem fær greitt fyrir skoðanirnar. Fyrir um 10 árum síðan kostaði ein svona skoðun um 20 þús íslenskar krónur (heildarkostnaður) en á sama tíma í Svíþjóð kostaði sams konar skoðun um 80 þúsund. Því má ljóst vera að þessar skoðanir, framkvæmdar af læknum á stofu út í bæ sem nenna að standa í því að reka þessa þjónustu (tækin bila, sjúklingar mæta stundum ekki og alls kyns hlutir geta komið upp eins og fylgja eigin rekstri almennt) eru í raun hræbillegar fyrir ríkið og það veit landlæknir vel. Ég myndi fara varlega í að fullyrða að það sé almennt að þær séu framkvæmdar að óþörfu. Það er óvarlegt og engum til sóma að kasta bombu yfir heila starfsstétt. Hans skoðun er kannski sú að öll þjónusta eigi að vera á sjúkrahúsum. Þannig fengi ríkið hins vegar mikið minna fyrir peninginn og aftur, landlæknir veit vel af því.“