- Advertisement -

Enginn fær alvöru starf nema vera í „réttu“ liði

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Það hefur lengi loðað við íslensk stjórnvöld og þjóðina, að litlu megi breyta.

Ekki má breyta bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944.

Ekki má breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Enn er fjórflokkurinn kosinn til valda.

Frændhygli og einkavinavæðing er sjálfsagður hlutur.

Enginn fær alvöru starf nema vera í „réttu“ liði.

Ekki má hækka skatta á þá sem geta staðið undir slíkri hækkun.

Ekki má bæta kjör hinna verst settu.

Ráðherravald er algert og við því má ekki hrófla.

Sá sem kemur upp um svik fær refsingu en svikaranum hrósað.

Sífellt er skortur á eignarhúsnæði, leiguhúsnæði, sambýlum og hjúkrunarheimilum.

Ef einhverju er breytt, þá er það til að skerða þjónustu, en ekki auka hana.

Þekking og viska virðist ógn við ráðandi öfl.

Svo má ekki gleyma greiðaseminni við erlend fyrirtæki sem flytja hagnað sinn lítt eða ekkert skattlagðan úr landi.

Siðferðislegt hrun, traustið hvarf.

Kannski óréttlátt að kenna þjóðinni um þetta allt, en hún lætur þetta yfir sig ganga. Kosningar eftir kosningar allt í sama farinu og ítrekað sækir klárinn þangað sem hann er kvaldastur. Enda eru breytingar hættulegar í huga margra. Betra að sækja þangað, þar sem maður þekkir hvað bíður manns. Að margra mati er ekkert verra en óvissan. Líta sem svo á, að þeirra dalur sé örugglega betri en sá næsti, þó þar sé meiri gróska.

Gleymum því aldrei, að við fórum í gegn um samfélagslegt hrun samhliða bankahruninu. Siðferðislegt hrun, traustið hvarf. Stór hluti þjóðarinnar þurfti að herða sultarólin á sama tíma og bankarnir fitnuðu eins og púkinn á fjósbitanum. Skrifuð var heljarmikil skýrsla um þetta hrun, en svo var henni stungið ofan í skúffu. Enda flæktist hún fyrir, eins og ónefndur varaformaður stjórnmálaflokks komst að orði. Enginn hefur viðurkennt sök sína á þessu hruni. Það bara kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum, öllum á óvart og alveg að ástæðulausu. Einn ráðherra sagði að það hefði verið vegna þess að fólk hafði keypt flatskjái!

Við höfum ekki gert upp hrunið á neinn hátt. Stjórnvöld hverju sinni hlaupa undan rannsóknarskýrslu heimilanna, enda gæti hún leitt sannleikann ljós. Seðlabankinn tefur og tefur að gefa út skýrslu um yfirtökueignir og vafalaust fær þjóðin aldrei að sjá hana. Ráðherra í ríkisstjórn, sem fann breiðu bökin í öryrkjum og ellilífeyrisþegum, telur sig bæran að verða forseti lýðveldisins. Formenn stjórnmálaflokka áttu peninga í skattaskjólum. Hvort þeir gáfu það upp eða ekki finnst mér ekki skipta máli. Tilgangurinn með að eiga fé í skattaskjóli er skattasniðganga. Flottar fyrirmyndir fyrir þjóðina eða hitt þó heldur. Meðan þjóðinni blæddi, þá hagnaðist aðallinn og fáir þingmenn töldu það skyldu sína að víkja og snúa sér að einhverju öðru.

Almenningur þurfti að endurreisa bankakerfið.

Ég átti einu sinni spjall við hollenska starfsfélaga mína, sem höfðu átt peninga í Icesave. Þeir voru alveg brjálaðir að hafa ekki fengið sínar 10-50 þúsund evrur til baka strax (sem þeir höfðu fengið þegar spjallið átti sér stað). Ég benti þeim á, að meðalheimilið á Ísland hefði tapað margfaldri þeirri upphæð í gegn um hækkun lána, lækkun tekna og hækkun skatta. Þá þögnuðu þeir og báðust síðan afsökunar á sinni frekju. Í Hollandi var mótmælt í mörg ár yfir þessu. Á Íslandi var mótmælt um hverja helgi í nokkra mánuði. Þá var klárinn búinn að venjast nýju svipunni.

Almenningur þurfti að endurreisa bankakerfið með eigin tekjum og eignum. Almenningur þurfti að rétta af Seðlabanka Íslands með eigin tekjum. Almenningur tók á sig beint og óbeint hrun mikilvægra samfélagslegra innviða með hærri gjöldum, hærri sköttum og í auknum kostnaði.

Vilji fólk breytingar, þá verður það að stíga skref í átt til breytinga. Hætta að búast við því, að útkoman breytist hafi það endurtekið sama hlutinn enn einu sinni.

Í annað sinn á 10 árum hefur EFTA-dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að neytendur hafi verið sviknir, þegar kemur að lánskjörum. Síðast tók það Hæstarétt um 5 mínútur að hunsa álit EFTA-dómstólsins. Endurtaki það sig núna, er ljóst að ekkert hefur breyst. Neytendur eru sjálftökusjóður þeirra sem skilja ekki lögin, m.a. í gegn um verðsamráð, fákeppni, lélega vöru og þetta dæmigerða „ég geri þetta, því ég get það“, en fá endalaust skjól hjá stjórnvöldum og dómstólum. „Krakkar, vandið ykkur betur næst“ er sagt við þá brotlegu og „Þið áttuð að vita betur en að treysta þeim“ við brotaþola. „Þið getið bara farið í mál“, sagði viðskiptaráðherra árið 2010, nánast ári eftir að hann vissi, að gengistryggðu lánin væru ólögleg, enda hafði hann fengið í hendur lögfræðiálit í þá veru.

Hvað ætli þau séu mörg lögfræðiálitin sem ráðherrar hafa setið á vegna þess að þau hefðu þýtt eitthvað jákvætt fyrir almúgann? Eða skýrslurnar sem opinberuðu óþægilegan sannleika á viðkvæmum tíma fyrir ráðherrann. Upplýsingalög virðast ekki hafa neina merkingu fyrir þessa aðila eða reglur um hæfi.

Flytja á heilu fjöllin úr landi

Listinn er nánast endalaus yfir atriði þar sem troðið hefur verið á almenningi eða þeim efnameiri verið færðir fjármunir. Loks þegar hægt væri að sækja tekjur í ríkissjóð frá einhverjum öðrum en almenningi, þá er passað upp á að slíkur óskundi eigi sér ekki stað. Gefum frekar útlendingum auðlindir landsins endurgjaldslaust til langframa. Næsta skref er að finna einhvern erlendan auðjöfur til að selja Landsvirkjun á tombóluverði og ætli Orkuveitan fylgi ekki á eftir. Verð að viðurkenna, að stundum finnst mér ekkert annað koma til greina, en að þeir sem taki ákvarðanir um að hygla innlendum og erlendum auðmönnum og fjölþjóðafyrirtækjum á kostnað almennings, eigi feita reikninga í skattaskjólum. Annað eins hefur nú gerst í öðrum löndum ekki svo langt í burtu.

Búið er að opna fyrir eignarhald útlendinga að sjávarútvegsfyrirtækjum, þó það hafi átt að vera bannað með lögum. Flytja á heilu fjöllin úr landi og skaða hryggningarstöðvar nytjastofna, svo útlendingar geti grætt aðeins meira og helst án skattgreiðslna á Íslandi. Og mér sýnist helst sem stjórnvöldum undanfarinna ára telji þetta bara allt í lagi og séu bara hrifin af því, að Ísland sé í raun bara nýlenda erlendra aðila. Ég sem hélt að ríkissjóður stæði svo illa.

Breytinga er þörf, þó ekki væri nema á hugarfari þeirra sem fara með stjórn landsins. Ef við, almenningur, viljum breytingar, þá verðum við að sýna þann vilja í kjörklefanum, sama hverjar kosningarnar eru.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu höfundar. Og er birt hér með góðfúslegu leyfi Marinós.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: