- Advertisement -

Filippus og íslenskar pönnukökur

Gunnar Smári skrifar:

Filippus karlinn var ekki allra. Líklega hefur enginn nafntogaður maður komið jafn oft til Íslands án þess að vera kallaður Íslandsvinur af nokkrum manni. Fyrir einhverju las ég viðtal við kokk í Balmoral kastala sem sagði að eftir eina veiðiferðina til Íslands hefði Filippus komið til sín og rétt sér uppskrift sem hann hafði hripað niður á minnisblað. Þetta var uppskrift að íslenskum pönnukökum, sem eftir þetta var oft og reglulega boðið upp á í kastalanum. Ef þessi saga hefði borist út um einhvern annan væru íslenskar pönnukökur líklega kallaðar filippuskökur í dag, svo vænt þykir Íslendingum um hólið. En það var eitthvað við Filuppus karlinn sem fékk fáa til að tengja við hann. Ég held að ástæðan sé að hann var eiginmaður valdakonu. Slíkir menn njóta engrar virðingar. Danir eru til dæmis almennt á því að prins Hinrik sé ekki bara vitlaus heldur hálfgert illmenni., montin og tilætlunarsamur, allt sem sagt er um fólk sem treður sér þangað sem það á ekki heima. Ég viðurkenni alveg að ég tengi á engan hátt við Filippus og hef aldrei sent honum góða hugsun, en ég held hann sé engu verri en hitt fólkið í höllinni.

En það má læra góða hluti af vondu fólki, og af Filippusi ekki bara að íslenskar pönnukökur eru eitt af meistaraverkum mannkyns. Ef þið viljið verða 99 ára þá gott að gæta hófs í allri neyslu; helst ekki að borða neitt milli mála sem er stærra en þríhyrningur af franskbrauði smurður þunnt og með þunnum sneiðum af agúrku og drekka meira en eitt staup af sérrí og ganga þetta hvort tveggja svo af sér í þúfóttu landi. Afrek bresku konungsfjölskyldunnar er að þróa lífsstíl sem tryggir góða líkamlega heilsu og langlífi með hófsemi í mat og drykk og líkamsrækt sem miðast við hreyfingu innan svitamarka; að hreyfa sig mikið en svitna aldrei. Þetta er lærdómur fjölskyldu sem lifað hefur við allsnægtir í margar aldir. En ættinni hefur ekki gengið eins vel að þróa lífsstíl sem styrkir hug, visku og andlegan þrótt. Því miður eru þetta upp til hópa kjánar í velviðhöldnum hylkjum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: