- Advertisement -

Getur stjórnlaus ríkisstjórn stjórnað landinu?

„Það er réttmætt að spyrja hvernig í fjáranum ráðherrar eigi að stjórna landinu þegar það liggur fyrir skýrsla um að þeir séu nær ófærir að stjórna eigin vinnustað?“

Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson, varaþingmaður Flokks fólksins í NV-kjördæmi skrifar:

Stjórnmál: Uppstokkun stjórnarráðsins haustið 2021 var ólík flestum öðrum skipulagsbreytingum hjá hinu opinbera. Í fyrsta lagi var vandinn skýr sem átti að leysa úr og að sama skapi var ljóst að skipulagsbreytingin leysti úr vandanum.

Vandinn snerist eingöngu um að koma á móts við breytt valdahlutföll í ríkisstjórninni í kjölfar kosningasigurs Framsóknar haustið 2021. Vissulega var borið á borð eitthvert óskiljanlegt orðasalat af Katrínu Jakobsdóttur m.a. að verið væri að takast á við nýjar áskoranir í nútímalegu og gjörbreyttu samfélagi – þegar verið var að greiða úr kosningasigri gömlu spilltu Framsóknar. Jú einnig var nefnt til sögunnar að verið væri að „fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins.“

Öll þessi froða Katrínar hljómar nú óneitanlega óþægilega kjánalega í skugga þess hvernig stjórnarliðar virðast fá hve mestu nautn út úr því að gera á hlut hvers annars.

Ný skýrsla Ríkisendurskoðunar um þetta brall allt saman er mjög upplýsandi, þó svo að reynt sé skiljanlega að fegra þessa lágkúru eins og kostur er.

Í skýrslunni stendur berum orðum að ekkert mat liggi fyrir um kostnað við skipulagsbreytingarnar en þó nemi þær a.m.k. um 2 milljörðum króna!

Skipulagsbreytingar stjórnarráðsins hægðu á málshraða og leiddu af sér þekkingarskort í ráðuneytum. Ráðuneyti misstu yfirsýn yfir fjármál sín og undirstofnana. Það sköpuðust tæknileg vandamál við flutning stjórnarmálefna milli ráðuneyta, t.d. tengd málaskrárkerfum þeirra og uppsetningu hugbúnaðar.

Mikil óánægja er greinilega meðal starfsfólks í nær öllum ráðuneytum ríkisstjórnar Íslands í kjölfar breytinganna.

Það er réttmætt að spyrja hvernig í fjáranum ráðherrar eigi að stjórna landinu þegar það liggur fyrir skýrsla um að þeir séu nær ófærir að stjórna eigin vinnustað?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: