- Advertisement -

Hækkun skilar sér í verðlagi en ekki afnám gjalda

Hækkun neðra þreps virðisaukaskatts virðist hafa skilað sér strax út í verðlag en ekki afnám vörugjalda. Í heildina er það mat verðlagseftirlits ASÍ að  breytingarnar gefi tilefni til hækkunar á verði matarkörfu meðal heimilis um u.þ.b. 1,5%. Ljóst er ljóst að sú skattalækkun sem fólst í lækkun vörugjalda á matvörum á enn eftir að skila sér til neytenda.

Um áramót var virðisaukaskattur á mat- og drykkjarvörur hækkaður úr 7% í 11% auk þess sem vörugjöld voru feld niður (s.k. sykurskattur) af sykri og sætum mat- og drykkjarvörum. Breytingin gefur því að hámarki tilefni til 3,7% hækkunar á ósætum matvörum en áhrifin á verð matvara sem innhalda sykur eða sætuefni ráðast af því hversu mikinn sykur varan inniheldur.

Sá vöruflokkur í matvörukörfunni sem afnám sykurskattsins hefur mest áhrif á er eins og gefur að skilja sykur, súkkulaði og sætind. Í heildina má áætla að samspil breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi tilefni til u.þ.b. 10% lækkunar á þeim vöruflokki. Þegar skoðaðar eru breytingar á verði þessa vöruflokks milli verðmælinga verðlagseftirlitsins í lok nóvember sl. og í byrjun janúar má sjá að í flestum verslunum hefur verð á vörum í þessum vöruflokk hins vegar hækkað, mest um u.þ.b. 3% í Tíu ellefu, Samkaup-Úrval, Kjarval og Kaskó. Á þessu eru undantekningar þar sem sykur og sætindi hafa lækkað í verði milli mælinga en mest nemur lækkunin 5% í Bónus og ríflega 4% í Hagkaupum.

Áhrif afnáms vörugjalda eru einnig talsverð í drykkjarvöruflokknum en ýmsar sætar drykkjarvörur báru vörugjöld. Áætla má að samspil breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi tilefni til a.m.k. 2,5% lækkunar á vöruflokknum í heild. Hjá flestum verslunum hafa drykkjarvörur þó hækkað frá því lok nóvember, mest í Víði um 5,4%. Í nokkrum verslunum hefur vöruflokkurinn hins vegar lækkað, mest í Kjarval um 7,8%, í Krónunni um 5,4% og Bónus um 4,3%.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í vöruflokknum brauð og kornvörur er einnig að finna ýmsar sætar matvörur ss. sætabrauð, kex, sætt morgunkorn o.fl. sem báru vörugjöld. Áætla má að breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi samanlagt tilefni til u.þ.b. 2% hækkunar á þessum vöruflokki en samkvæmt mælingu verðlagseftirlitsins hafa brauð og kornvörur hækkað umfram það í öllum verslunum, mest hjá Kaupfélagi Skagfirðinga um 5,8% og minnst í Hagkaupum um 2,5%.

Margar mjólkurvörur eru sætar og báru því vörugjöld. Samspil umræddra breytinga gefa að mati verðlagseftirlitsins tilefni til u.þ.b. 2,5% hækkunar á vöruflokknum mjólkurvörur, ostar og egg. Í flestum verslunum er hækkun vöruflokksins talsvert umfram það, mest í Víði 8,7% og 4-5% í Kaupfélagi Skagfirðinga.

Af þessum niðurstöðum er ljóst að sú skattalækkun sem fólst í lækkun vörugjalda á matvörum á enn að lang mestu leyti eftir að skila sér til neytenda.
Sjá nánar á vef ASÍ.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: