- Advertisement -

Katrín leysir upp eigin ríkisstjórn

Það er auðvitað ekki yfirlýsing um traust forsætisráðherra á eigin ríkisstjórn að forsætisráðherra óski lausnar og langi í annað starf.

Atli Þór Fanndal skrifaði:

Hvað sem fólki finnst um framboð forsætisráðherra til forseta þá fylgja því ýmsar afleiðingar. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur verður slitið að hennar ósk þegar hún biður forseta lausnar. Við tekur ný ríkisstjórn. Hvað sem fólki finnst um persónu Katrínar eða kosti hennar sem forseta þá er alveg ástæða fyrir því að forsætisráðherrar eru ekki alltaf í því að slíta stjórn og fara í forsetaframboð.

Oft er talað um samtryggingu stjórnmálanna og hana má einfaldlega sjá núna þegar stjórnarliðar keppast við að láta eins og þetta sé bara hver annar vinnudagur í stjórnmálum. Það er auðvitað ekki yfirlýsing um traust forsætisráðherra á eigin ríkisstjórn að forsætisráðherra óski lausnar og langi í annað starf. Samtryggingin felst meðal annars í því að láta eins og þetta sé bara ekkert mál og að það sé bara einkamál forsætisráðherra leysa upp sína ríkisstjórn hvort sem er vegna erfiðleika eða ósk um annað starf. Það er það ekki og hvort sem útkoman er þér til gleði eða pirrings þá er þetta ekki bara einhver að fara í framboð. Þetta er ekki bara einhver persóna heldur sá aðili sem leiðir ríkisstjórn sem nú mun enda og ný taka við ef tekst að semja.

Vopnavædd móðgunargirnd…

Þetta mál var til umræðu í Vikulokunum og þar mátti nú einmitt greina frá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna að allt tal um afleiðingar væri óþarfa neikvæðni og tæknikratismi. Ég ráðlegg fólki að hlusta á þáttinn. Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir, þingkona Pírata, fór nú bara frekar vel yfir hvað gerist.

Og auðvitað var vopnavædd móðgunargirnd notuð til hins ítrasta til að gera lítið úr því sem hún sagði þar. Hvort sem því er fagnað eða ekki að þetta sé nú staðan þá verðum við auðvitað sem samfélag að geta viðurkennt að forsætisráðherrastarfið sé þess eðlis að það hafi nú bara talsverðar afleiðingar að forsætisráðherra vilji frekar sinna öðru starfi.

Vopnavædd móðgunargirnd er til dæmis það að verða voðalega fúl þegar bent er á að svona gerist almennt ekki í þroskuðu lýðræði. Sambærileg dæmi eru frá Rússlandi og Tyrklandi. 40 ára dæmi frá Finnlandi. Svo má nefna að dæmi eru um að forsætisráðherrar eða forsetar bjóði fram síðar en hvenær hefur verið sagt frá slíku dæmi án þess að samhengið sé að stjórnmálin í umræddu landi séu svolítill skrípaleikur. Það er bara ekki smart að leysa upp ríkisstjórn og fara í forsetaframboð. Það er ekkert að ástæðulausu að svona gerist almennt ekki.

Aftur er hér komið dæmi…

Annað dæmi er þegar bent er á að forsætisráðherra sem óskaði sjálf lausnar fái biðlaun í gegnum kosningabaráttuna ásamt því að aðstoðarmenn hennar fái biðlaun. Það er nú svolítil ígjöf frá almenningi að greiða laun í kosningabaráttu. Biðlaun eru áunninn réttur en það er nú kannski ekki gert ráð fyrir að forsætisráðherra biðjist lausnar og fari í framboð til forseta á launum hjá almenningi. Aftur er hér komið dæmi um hvers vegna það þykir ekki smart að forsætisráðherra leysi upp ríkisstjórn og fari strax í framboð. Þetta eru biðlaun ekki laun vegna þess að sinna þarf starfinu meðfram kosningabaráttu eins og til dæmis þingmenn og ráðherrar þurfa að gera sækist þeir eftir endurkjöri.

Þriðja dæmið er svo að auðvitað er ekkert sjálfsagt að samstarfi þessa þriggja flokka verði áfram haldið. Það þarf að mynda nýja ríkisstjórn og samstarf flokkanna ætti að vera með málefnasamning. Þórhildur Sunna benti á að þótt hægt sé að ákveða að starfa eftir sama samstarfssamning þá þarf samt að ákveða það.

Fílið framboðið eða ekki. Kjósið Katrínu eða ekki. Ég nenni ekki í slag um persónugæði Katrínar. Það er hægt að vera ósáttur við hennar ríkisstjórn en hrifin af forsetaefninu eða öfugt.

Viðurkennum samt að þetta hefur afleiðingar og að þrátt fyrir að samtryggingin segi fólki að anda ekki gagnrýnu orðið á þessa ákvörðun þá verður ríkisstjórn leyst upp vegna þessa. Það er ekki að gerast vegna annarra frambjóðenda.

Hlustið á Vikulokin. Þar var farið talsvert yfir þetta á milli þess sem einn stjórnarliði sagði þá ríkisstjórn sem nú er að enda ekki ástæðu til áframhaldandi samstarfs (og þó, jú, kannski og samt ef til vill) og hinn að þetta væri bara ekkert mál.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: