- Advertisement -

Kvótakerfið er rót spillingar og ójöfnuðar

Sósíalistaflokkurinn:

Sameiginlegur fundur framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokksins varar við ráðagerðum Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að festa kvótakerfið í sessi undir yfirvarpi endurskoðunar og lagfæringa.

Eins og fram kemur í skýrslu nefndar ráðherrans telur mikill meirihluti almennings sjávarútveginn á Íslandi spilltan og að undir kvótakerfinu færi hann auð til fárra, ekki fjöldans.

Í erindi Sósíalista Brjótum upp Samherja – endurheimtum auðlindirnar segir meðal annars: 

„Kvótakerfið sem upphaflega var sett á til að vernda fiskistofnana hefur þróast í óskapnað sem hefur í reynd einkavætt fiskimið almennings. Kerfið hefur brotið niður byggðir og safnað upp auð örfárra, svo miklum að hann ógnar lýðræðinu og frelsi almennings. Sósíalistaflokkurinn hefur þá stefnu að leggja niður þetta kerfi og byggja réttlátari umgjörð utan um fiskveiðar og vinnslu. Ný umgjörð þarf að reisa við það sem kvótakerfið braut niður og brjóta upp þá auðhringi sem kvótakerfið bjó til.“

Það á ekki að festa spillt og óréttlátt kvótakerfi í sessi með því að plástra það með veikburða lagfæringu. Kerfi sem mikill meirihluti landsmanna er andsnúinn ber að leggja niður. Og það leggja Sósíalistar til:

Þessar eru tillögur Sósíalista:

  • Auðhringir brotnir upp
    Kvótakerfið hefur búið til lokað, ófrjálst spillingarkerfi stórútgerða sem verður að brjóta upp. Stærstu útgerðirnar ráða yfir of stórum hluta veiðanna og þær stjórna allri virðiskeðjunni, allt frá því að fiskurinn er veiddur og þar til afurðin er seld erlendis. Margsinnis hafa komið fram vísbendingar um að þessi kerfi séu notuð til að halda niðri fiskverði við löndun og fela síðan arðinn af auðlindinni erlendis.

    Sósíalistaflokkurinn mun leggja til að takmarkanir verði settar á umfang stórútgerða svo stærstu útgerðirnar verði brotnar upp langsum, að þær verði að kljúfa sig upp í tvö eða fleiri félög. Þetta er gert til að draga úr ægivaldi stórútgerðanna yfir byggðunum og til að tryggja fjölbreytileika og nýliðun.

    Þá leggja Sósíalistar til að útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin verði brotin upp þversum, þannig að sama fyrirtækið geti ekki veitt fiskinn og selt sjálfu sér aflann, unnið fiskinn og selt sjálfu sér afurðirnar og selt síðan sjálfu sér afurðirnar í útlöndum og falið þar gróðann.

    Kvótakerfið bjó til ógnarauð, ekki síst þegar leyfi var gefið til að veðsetja veiðiheimildir ókominna ára. Sá auður var notaður til að mylja undir örfá fyrirtæki megnið af aflaheimildunum og síðan til að brjóta undir sig fyrirtæki í óskyldum greinum og í öðrum löndum. Þetta ógnarvald auðs og valda hefur sýnt sig að vera skaðvaldur í samfélaginu. Og ekki bara hérlendis heldur víða um heim. Það er því eðlileg sjálfsvörn almennings að brjóta þessi fyrirtæki upp. Ísland er einfaldlega of lítið fyrir fyrirtæki af þessari stærð.

    Ef við tökum dæmi af Samherja, sem er stærsta og voldugasta stórútgerðin, þá myndi það verða klofið upp vegna stærðar sinnar langsum og þversum vegna þess að það drottnar yfir allri virðiskeðjunni. Yfirgangur og frekja þessa fyrirtækis ætti ekki að koma neinum á óvart. Þegar stórfyrirtækjum er leyft að vaxa samfélaginu yfir höfuð þá verða þau að skaðvaldi og það ber að bregðast við þeim sem slíkum. Það er löngu tímabært að þjóðin sýni Samherja hver hefur völdin.
  • Þjóðinni færð eign sína
  • Sósíalistaflokkurinn leggur til að bundið verði í stjórnarskrá að fiskveiðiauðlindin sé eign þjóðarinnar og að þjóðin ákveði sjálf hvernig nýtingu hennar er háttað. Flokkurinn leggur til fiskiþing í hverjum landshluta þar sem sjómenn, fiskverkafólk og almenningur allur sest niður og mótar fiskveiðistefnuna til lengri tíma. Til að losna við yfirgang útgerða og annarra hagsmunaaðila fer best á því að notað yrði slembival til að velja fulltrúa á þessi þing, annað hvort að öllu leyti eða að stærstu leyti.

    Fiskiþingin geta kallað eftir upplýsingum og skýrslum sérfræðinga, kallað eftir rannsóknum á áhrifum kvótakerfisins á ólíkar byggðir og stéttir, metið hagræn, vistvæn og félagsleg áhrif mismunandi aðferða við stjórn fiskveiða og sótt allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar þykja.

    Ekkert segir að öll fiskiþingin þurfi að komast að sömu niðurstöðu og hvert þeirra þarf ekki að leggja til eina lausn. Niðurstaðan getur orðið dagakerfi, aflamark, leiga heimilda eða uppbygging samvinnufélaga, frjálsar handfæraveiðar eða hvað svo sem þingfulltrúar telji að muni nýta afl auðlindanna best svo þær geti byggt upp blómlegt atvinnulíf.
  • Kvótakerfinu lokað
    Sósíalistar gera kjósendum tilboð um að loka kvótakerfinu strax og taka upp dagakerfi fyrir togara og báta þar til fiskiþingin hafa mótað framtíðarstefnu. Það er mikilvægt að höggva strax á aflamarkskerfið og þá spillingu sem þrífst innan þess.
    Kostir dagakerfisins umfram aflamarkskerfið er að innan þess er ekki brottkast, framhjálöndun og svindl á vigt. Með því að setja ófrjávíkjanlega reglu um allan afla á markað má girða fyrir launaþjófnað, skattsvik og svindl á hafnargjöldum sem sala á afla innan sama fyrirtækis býður upp á.

    Verðmæti undirmálsfiska sem er landað rennur í ríkissjóð. Úthlutaðir dagar á skip og báta verða óframseljanlegir.
    Það er mikilvægt að hreinsa fiskveiðar og -vinnslu af þeirri spillingu sem kvótakerfið hefur innleitt.
  • Veiðigjöld innheimt við bryggju
    Veiðigjöld verða innheimt við löndun, innheimt á jafn einfaldan máta og virðisaukaskattur. Það má meira að segja vel hugsa sér að veiðigjaldið sé það sama og virðisaukinn í dag, eða 24%. Það myndi gefa um 35 milljarða króna á ári í veiðigjöld miðað við verð afla á síðasta ári, en reikna má með að aflaverð hækki þegar allur fiskur fer á markað. Veiðigjöldin renni jafnt til sveitarfélaga og ríkis.
  • Handfæraveiðar gefnar frjálsar
    Handfæraveiðar verða gefnar frjálsar fimm veiðidaga í viku að eigin vali frá mars til október. Miðað er við þrjár rúllur þar sem er einn maður um borð en fjórar þar sem eru tveir. Þessar veiðar verða að lúta veðurviðvörun Veðurstofunnar.
  • Aflaheimildir boðnar upp
    Aflaheimildir í Barentshafi, í Smugunni og annars staðar í úthafinu verða boðnar upp. Í uppboðinu sé gætt jafnræðis og hin fáu stóru geti ekki keypt allt upp og lokað fyrir nýrri og smærri útgerðir. Kaupandinn greiðir verðið fyrir aflaheimildirnar eftir sölu á fiskmarkaði. Sé skipið sem fiskar þessar aflaheimildir að stunda veiðar í dagakerfinu má ef þurfa þykir nýta hugsanlega stoppdaga fyrir þessar veiðar.
  • Stórútgerðin sæti rannsóknum
    Í ljósi Samherjamálsins verði fimm stærstu útgerðarfyrirtækin rannsökuð til að kanna hvort þar hafi mútum verið beitt, fiskverð falsað, sjómenn hlunnfarnir, skotið undan skatti, arður af rekstrinum og auðlindinni falinn í aflöndum eða brotið með öðrum hætti gegn samfélaginu. Ef stórfelld svik koma í ljós við þessar rannsóknir verður efnt til rannsóknar á næstu fimm útgerðarfyrirtækjum.

Í niðurstöðum Lýðræðiskönnunar sósíalista sem birtar voru á Sósíalistaþingi s.l. vor kemur glögglega fram hversu gríðarlega mikla áherslu sósíalistar leggja á uppstokkun Kvótakerfisins. Bæði í Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi settu sósíalistar Kvótakerfið í fyrsta sæti um mál sem þyrfti að leggja aðaláherslu á í baráttunni fram undan. Í öðrum kjördæmum raðaðist Kvótakerfið líka í efstu sætin. Líkt og meirihluti þjóðarinnar vilja sósíalistar færa arðinn af sjávarauðlindinni til þjóðarinnar. Þannig verði meðal annars hægt að fjármagna heilbrigðiskerfið og húsnæðiskerfið sem einnig voru þau mál sem röðuðust hæst í Lýðræðiskönnuninni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: