- Advertisement -

Markmiðið virðist vera að svíkja, svindla og blekkja

Saga Kaupþings er svo furðuleg, að það væri ekki einu sinni hægt að skálda hana upp.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Var að lesa stefnu sem lögð var fyrir breskan dómstól (High Court of Justice, Chancery Division) í máli gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni, Venkatesh Vishwanatan og Deutsche Bank, vegna þátttöku þessara aðila að svindli með skuldatryggingar Kaupþings í aðdraganda hrunsins. Kjarninn birtir skjalið (https://kjarninn.overcastcdn.com/…/14_Particulars_of_Claim_…) með bréfi Kevin Stanford og Karen Millen sem ég vísaði til í síðustu færslu. Ég skil vel að Deutsche hafi ákveðið að semja í þessu máli.

Stór hluti yfirmanna Kaupþings kom að þessari svikafléttu. Háttsettir starfsmenn Deutsche komu að henni. Og strengjabrúður voru fengnar til að spila með. Það góða við þetta skjal, er að almenningur getur séð, svart á hvítu, út á hvað of stór hluti bankastarfsemi gengur. Skjalið sýnir líka hvers vegna ENGIN ástæða er til að treysta bönkum, þegar þeir byrja fagurgalann. Ég nefnilega man mjög vel, þegar Sigurður Einarsson kom skælbrosandi í viðtal eftir að skuldatryggingaálagið lækkaði í ágúst 2008, eins og þetta hefði komið honum á óvart. Eða þegar Hreiðar Már kom víghreifur í viðtal í september sama ár eftir að prins á hvítum hesti hafði „keypt“ 5% hlut í bankanum. Pælið í því, ef þeir eytt jafn mikilli orku í að bjarga bankanum með eignasölu strax árið 2006, eins og fór í að búa til svikafléttur frá þeim tíma og fram að falli, þá væri bankinn kannski starfandi í dag.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Bréf þeirra hjóna, Kevin Stanford og Karen Millen, kemur á heppilegum tíma, því fyrrverandi seðlabankastjóri Svein Harald Øygard er einmitt nýbúinn að senda frá sér í íslenskri þýðingu bók sína um hrunið, þar sem hann lýsir MJÖG vel „snilli“ þeirra Kaupþingsmanna. (Talar minna um „snilli“ Landsbankastjóra og Glitnisstjóra.) Hefur maður á tilfinningunni við lesturinn, að tilgangurinn með rekstri Kaupþings hafi verið að feika það þar til þeir myndu meika það, eins og stundum er sagt. Saga Kaupþings er svo furðuleg, að það væri ekki einu sinni hægt að skálda hana upp.

Líkt og svo margt sem komið hefur fram í kringum fjármálafyrirtæki á þessari öld og síðustu ár síðustu aldar, þá er eins og fjármálastarfsemi snúist dálítið mikið um að fara EKKI eftir lögum og reglum siðaðra þjóðfélaga. Markmiðið virðist vera að hjálpa ofurríkum einstaklingum og fjármálafyrirtækjunum sjálfum að komast undan skattgreiðslum, svíkja, svindla og blekkja. Sýna eins mikla ósvífni, eins og hægt er, í þeirri von að enginn trúi því hve ósvífin þau eru, eins og Íslendingar vöknuðu illa upp við á árunum eftir hrun. Peningaþvætti, skattasvindl, verðbréfasvindl, hafa viðskiptavinina að fíflum í ráðgjöf, komast yfir eigur fyrirtækja og almennings í einhverri „snilldarfléttunni“ og það sem verst er, komast upp með þetta allt. Þetta eru nefnilega, samkvæmt dómstólum, bara eðlileg viðskipti þegar bankinn hefur af þér pening, en er fjársvik ef viðskiptavinur nær að hagnast á kostnað bankans. Að ógleymdu því, að Seðlabankinn, FME og ráðherrar verja bankana út í eitt, ef bönkunum verður á og gera eitthvað ólöglegt sem ætti að kosta þá háar fjárhæðir. Almenningur þarf alltaf að borga, sama hvort bankinn vinnur eða tapar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: