- Advertisement -

Ráðherra ræður ekki við vinnuna sína

Atli Þór Fanndal skrifar:

Ekki vegna þess að hana skorti getu til þess, heldur vegna þess að bróðir hennar, Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, er forstjóri fjárfestingafélagsins Skeljar. Skel er næststærsti eigandi tryggingafélagsins VÍS.

Stjórnmál Í umfjöllun Heimildin í kjölfar Facebook-færslu fjármálaráðherra þar sem hún afhjúpaði svo snyrtilega að hún nennir ekkert að starfa innan ramma laga heldur stundar sín stjórnmál með hótunum á samfélagsmiðlum kemur fram að ráðherra hafi á fundi með bankastjóra Landsbanka áréttað andstöðu sína við kaupin.

Þetta kom einnig fram í máli ráðherra á þingi síðasliðinn miðvikudag. Það sem er merkilegt við þetta er að síðar í sömu umræðu vitnaði Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, ítrekað í almenna eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. „Vegna armslengdarsjónarmiða laganna er ekki gert ráð fyrir að þessir aðilar eigi bein samskipti við fjármála- og efnahagsráðuneytið eða ráðherra vegna ákvarðana er snúa að eignarhaldi ríkisins eða rekstri félaganna.“

Þetta hafa verið helstu rökin fyrir því að ráðherra geti ekki farið neinar formlegar leiðir eða tekið ábyrgð á einu né neinu varðandi þessa banka. Þó er ljóst bæði á umfjöllun Heimildarinnar og ræðu ráðherra að hún kom á framfæri skoðunum sínum í beinu samtali við bankastjóra og opinberlega en virðist ekki hafa komið á framfæri tilmælum til stjórnar Bankasýslu vegna málsins eins og lög um Bankasýslu gera ráð fyrir. Það eru einmitt lögin sem eigendastefnan byggir á. Sjá fyrstu málsgrein eigendastefnu; „Eigandastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki nær til þeirra fjármálafyrirtækja sem Bankasýsla ríkisins hefur umsjón með. Hún er sett á grundvelli ákvæðis 44. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, og ákvæðis 1. gr. laga nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tölum aðeins um þessa eigendastefnu.

Í umfjöllun Heimildarinnar má líka finna þetta: „Víða í stjórnmálum, jafnt innan ríkisstjórnar, í stjórnarandstöðu og innan viðskiptalífsins, eru uppi efasemdir hjá viðmælendum Heimildarinnar um að viðeigandi sé að Þórdís Kolbrún skipti sér af söluferlinu með bankann. Ekki vegna þess að hana skorti getu til þess, heldur vegna þess að bróðir hennar, Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, er forstjóri fjárfestingafélagsins Skeljar. Skel er næststærsti eigandi tryggingafélagsins VÍS, samkeppnisaðila TM, með 8,23 prósent eignarhlut og Ásgeir situr í stjórn VÍS.“ Aftur formlegar leiðir, heilindi og agi er allt eitthvað sem ráðherra skortir hér.

Tölum aðeins um þessa eigendastefnu. Það er Bankasýslu að tryggja framgang hennar og það er þá gert með því að fylgja henni eftir dag frá degi en auðvitað líka með því að tryggja samþykktir í félögum. Tveir af fjórum aðilum sem boðið var að skila skuldbindandi tilboði í TM falla undir Bankasýslu. Í desember fjallaði DV um málið og útlistaði hvaða aðilar væru að keppa um málið. Það er satt að DV birti þar slúðurmola (þetta var ekki frétt sem slík heldur umfjöllun um orðróm) en það breytir því ekki að þarna lág fyrir tilkynning frá Kviku um að fjórum aðilum yrði boðið að skila inn bindandi tilboði – það var ekki orðrómur. Ráðherra hlaut því að geta sent formlega fyrirspurn til upplýsinga eða tilmæli um að hún telji kaupin ekki innan ramma eigendastefnu. Í lögum um Bankasýslu segir einfaldlega um þessi mál: „Ákveði ráðherra;

  • 1) í undantekningartilvikum að beina tilmælum til stjórnar stofnunarinnar um tiltekin mál getur stjórnin tjáð ráðherra afstöðu sína til þeirra áður en við þeim er orðið. [Efnahags- og viðskiptanefnd]
  • 2) Alþingis skal gerð grein fyrir tilmælum ráðherra og afstöðu stjórnarinnar til þeirra eins fljótt og auðið er.“

Það eru sannarlega armslengdarsjónarmið þegar kemur að rekstri Bankasýslu og þau eru augljóslega ekki virt ef ráðherra tuðar og hótar á samfélagsmiðlum og í beinu samtali við bankastjóra en fer ekki formlegar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Höfum það í huga að ráðherra hefur staðfest að hún notaði þessar óformlegu leiðir…

Höfum það í huga að ráðherra hefur staðfest að hún notaði þessar óformlegu leiðir og þingkona Sjálstæðisflokksins hefur margtuggið að eigendastefnan gerir ekki ráð fyrir beinum samskiptum vegna ákvarðana sem varða eignarhaldið. Þessi þáttur málsins er afgreiddur og meira að segja hefur Sjálfstæðisflokknum tekist að vera sammála almennum skilningi á orðum með því að vitna til þessa ákvæðis í þinginu og ráðherra hefur staðfest á þingi að þetta hafi gerst. Það er sem sagt einhver sameiginlegur skilningur á raunveruleikanum milli samfélagsins og Sjálfstæðisflokksins – sögulegt á við fjögurra ára kjarasamninga!

Hitt er svo varðandi þessa eigendastefnu þá er einfaldlega ekki augljóst að kaupin á TM séu brot á henni. Fyrst og fremst vegna þess að Bankasýsla virðist ekki hafa tryggt með starfssemi sinni að sá skilningur sé á stefnunni. Stefnan kallar nefnilega líka eftir hámörkun arðsemi eignarhluta og að markmiðið sé að hámarka virði eigna til lengri tíma.

Aríon banki á tryggingafélag og Landsbankinn er að kaupa af öðrum banka. Það er einskonar tíska að bankar kaupi tryggingafélag. Sjálfur veit ég einfaldlega ekki hvort það er góð eða slæm stefna af hálfu banka en það er ekki hægt að segja bara að slíkt sé í andstöðu við eigendastefnu ríkisins sem gerir að mestu ráð fyrir að fyrirtækin hagi sér eins og fyrirtæki á samkeppnismarkaði og ávaxti fé.

Þá er spurning um hvort ekki hefði mátt greiða þetta fé út sem arð í stað þess að fjárfesta? Það er að mínu mati svolítil einföldun að segja fyrst fyrirtæki á pening í dag þá getur hann bara greitt það út. Þótt maður eigi milljón í dag þá þýðir það ekki að maður fái milljón á morgun án þess að ávaxta milljóninni sem þú átt í dag. Veit að þetta er einfeldningslega orðað en það er bara ekki þannig að þótt banki eigi fé að sjálfsagt sé að greiða það út í arð í dag. Sérstaklega ef eigendastefnan kveður á um að huga skuli af langtímaverðmæti eignarinnar. Þá segir sig sjálft að það kemur vel til greina að greiða ekki í arð heldur fjárfesta. Um þetta segir eigendastefnan: „Að hámarka langtímavirði fyrir ríkissjóð að teknu tilliti til áhættu. • Tryggja þarf að þau fjármálafyrirtæki sem ríkið á hluti í skili viðunandi arði til hluthafa að teknu tilliti til markaðsaðstæðna. • Arðsemi skal byggjast á varkárum langtímasjónarmiðum en ekki skammvinnum ávinningi. • Starfsemi fjármálafyrirtækja skal byggjast á markvissri stefnu og hagkvæmum rekstri sem skilar ávinningi til viðskiptavina og samfélagsins til lengri tíma.“ Það var talsvert vandamál á árunum fyrir hrun að eigendur áttu það til að skrapa allt innan úr félögum með arðgreiðslum sem veiktu fyrirtækið. Það er því bara ekkert sjálfsagt að þetta fé hafi ekki átt að fara í fjárfestingar.

Og þá er það samkeppnisþáttur eigendastefnu.

Varðandi eigendastefnu ríkisins þá hefur líka legið fyrir að Íslandsbanki var í umræðum um samruna við Kviku. Slíkt hefði þanið út bankann og hlut ríkisins á markaði og um leið orðið til þess að félagið eignaðist TM Kvika, Lykill og TM runnu saman 2021. Íslandsbanki er þó ekki í 98% eigu ríkisins og kannski skiptir það öllu máli fyrir heittrúa (og auðvitað skiptir það máli) en bankasýsla fer enn með hlut í þeim banka og skal fyglja henni eftir. Ég nefni þetta bara því ég þekki ekki hvort Bankasýsla gerði athugasemd við þær fyrirætlanir sem þó eiga sitthvað sameiginlegt.

Ég er ekki að reyna að segja að viðskiptin séu þau sömu en það hefði auðvitað styrkt skilning allra á eigendastefnunni ef Bankasýsla hefði haft eitthvað fram að færa um það mál. Ráðherra hefði jafnvel getið sett fram einhver tilmæli í samræmi við lög um Bankasýslu.

Og þá er það samkeppnisþáttur eigendastefnu. Því er haldið fram að kaupin gangi gegn þeim markmiðum. Það er svo ekki útskýrt neitt nánar enda dogmatík eins og að ríkið eigi ekki að eiga banka. Menn trúa þessu og telja það einfaldlega móðgun að þurfa að útskýra. Í umfjöllun Heimildarinnar kemur þó fram að þessi kaup eru þvert á móti líkleg til að auka samkeppni á tryggingamarkaði: „Það ríkir fákeppni á tryggingafélagamarkaði á Íslandi, líkt og flestum öðrum þjónustumörkuðum landsins. Þar keppa fjögur tryggingafélög um að selja heimilum og fyrirtækjum tryggingar: TM, VÍS, Vörður og Sjóvá. Þrjú fyrstnefndu eru í eigu, eða beinum tengslum við, fjármálafyrirtæki (VÍS sameinaðist fjárfestingabankanum Fossum á síðasta ári og Vörður er í eigu Arion banka) og stærsti eigandi þess síðastnefnda er félag í eigu stofnenda Samherja og Gjögursfjölskyldunnar, aðila sem eiga tugi milljarða króna í eigið fé eftir að hafa hagnast gríðarlega á útgerð á síðustu áratugum.

Eðli fákeppnismarkaða er að kakan stækkar hægt. Viðskiptavinirnir eru fyrst og síðast íslenskt samfélag. Ef einn aðili fær skyndilega meiri kraft til að keppa, með aukinni samlegð við stóran nýjan eiganda, þá hefur það neikvæð áhrif á þá sneið sem samkeppnisaðili getur vænst að fá.

Að vanda má þar finna loftfimleika með íslenska tungu.

Landsbankinn er mun sterkari banki en Kvika og með miklu fleiri viðskiptavini, jafnt á einstaklings- sem fyrirtækjahliðinni. Kaupi hann tryggingafélag og fari að bjóða viðskiptavinum sínum betri kjör á tryggingum í kjölfarið þá getur það haft afar neikvæð áhrif á afkomu hinna tryggingafélaganna.

Svo kemur að því að Bankasýsla svarar fyrir sig vegna málsins. Að vanda má þar finna loftfimleika með íslenska tungu enda kemur fram að þau hafi ekkert vitað og ekkert verið sagt en þó hafi þeim verið sagt frá þessum áætlunum í júlí. Bréf Bankasýslu afhjúpar þannig hvað við gátum átt von á að finna í svari Landsbanka sem birt var í dag: „Frá miðju ári 2023 hefur bankaráð átt frumkvæði að samskiptum við Bankasýsluna þar sem fram hefur komið áhugi bankaráðs á tryggingamarkaðnum og eftir atvikum kaupum á TM. Samskiptin hafa farið fram í tölvupóstum, á fundum og með símtölum. Í tölvupósti frá formanni bankaráðs 11. júlí 2023 til Bankasýslunnar var greint frá því að bankinn hefði haft samband við Kviku og lýst yfir áhuga bankans á að kaupa TM. Bankasýslan svaraði tölvupóstinum samdægurs án athugasemda varðandi kaupin.“

En það þarf ekki svona langan texta til að skilja kjarna málsins sem er auðvitað sá að ráðherra ræður ekki við vinnuna sína.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: