- Advertisement -

Rök atvinnurekenda standast ekki

VR segir flestir sammála því að verðbólga sé lág vegna gífurlegra olíuverðslækkana á heimsmarkaði og stöðugu gengi krónunnar. Færri virðist átta sig á því að sömu kraftar voru að verki árið 2011, nema með öfugum formerkjum. Launabreytingar hafi lítil áhrif á breytileika verðvísitalna.

VR segir einfalda mynd dregna upp af sambandi launa og verðlags og margir álykti að lítið annað en laun hafi áhrif á verðbólgu. Þekkt sé að gengi íslensku krónunnar ásamt miklum sveiflum í olíuverði hafa mikið að segja um verðbólgu á Íslandi. Hálfu ári fyrir kjarasamningsbundna launahækkun í júní 2011 hafi olíuverð verið búið að hækka um tæp 35%, krónan veikst um 6,3% og vísitala launa hækkað um 2%. Á sama tímabili, eða í maí 2011, var innlent verðlag búið að hækka um 3,1%.

Sjaldan hafa verið jafn háværar raddir um miklar launahækkanir og í dag, á sama tíma og verðbólga er í sögulegu lágmarki, sama hvaða mælikvarði á verðlag er notaður. Rökin, um að atvinnurekendur hækki verðlag áður en til kjarasamningsbundinna hækkana kemur, standast ekki skoðun; innlend verðbólga í janúar 2015 mældist 1,8%, sem er töluverð hækkun frá desember 2014 en þá var hún -0,8%. Helsta skýringin á þessari hækkun er matarskatturinn. Þetta sýni því allt aðra mynd en þá sem fær mestan hljómgrunn um að launahækkanir umfram framleiðniþróun leiði alltaf til aukinnar verðbólgu og gengisfalls. Rétt er að geta þess að hér er verið að miða við launahækkanir sem hingað til hafa átt sér stað. Tugprósenta hækkun launa á einu ári þvert á allan vinnumarkaðinn myndi óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á verðlagsþróun.

Frá maí 2000 til janúar 2014 hafa verið 16 kjarasamningsbundnar hækkanir. Í þau skipti sem verðbólga hefur verið há í kringum kjarasamninga hefur krónan yfirleitt verið að veikjast mánuðina á undan.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sé tímabilið mars 1998 – nóvember 2014 skoðað virðast gengisbreytingar leiða þróun verðlags um 2-3 mánuði að jafnaði, þ.e. verðbólga fer af stað 2-3 mánuðum eftir að gengið veikist. Sama á við ef skoðað er tímabilið janúar 2010 – nóvember 2014 . Þetta er í samræmi við niðurstöður rannsóknar sem unnin var fyrir Rannsóknarsetur verslunarinnar um áhrif gengis á verðlag2. Í þeirri rannsókn segir einnig: ,,Launabreytingar skýra tiltölulega lítinn hluta breytileika verðvísitalnanna, inna við 10% fyrir alla fjóra vöruflokkana að 12 mánuðum liðnum“.

Einnig hefur samband verðbólgu við laun og innflutningsverð3  verið sérstaklega kannað. Þar kemur m.a. fram að „… aðrir þættir [en laun og innflutningsverð] hafi ráðið miklu um verðbólguþróun frá 1984-2001.“

Í könnun Samtaka Atvinnulífsins5  meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins kemur m.a. fram að 66,5% stjórnenda telja það vandalaust að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu. Slíkt er ekki óeðlilegt enda sjaldan þannig að fyrirtæki vinni við 100% afkastagetu. Hagstofur annarra landa og efnahagssvæða safna upplýsingum frá fyrirtækjum um nýtingu afkastagetu. Í ljós kemur að fyrirtæki í framleiðslu nýta einungis 75-85% afkastagetu sinnar. Þannig er auðvelt að mæta óvæntri aukinni eftirspurn og fyrirtæki ættu ekki að þurfa að hækka vöruverð þó eftirspurn aukist heldur er eftirspurninni mætt með aukinni framleiðslu.

Fjölmargir þættir hafa áhrif á verðlag og eru laun eflaust einn af þeim en hlutdeild þeirra er þó töluvert minni en almennt er haldið fram. Í dag eru flestir sammála um að verðbólga sé lág vegna gífurlegra lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu og tiltölulega lítilla sveiflna í gengi krónunnar. Árið 2011 var þessu öfugt farið, þ.e. heimsmarkaðsverð á olíu var búið að hækka um 35% sex mánuðina fyrir kjarasamningsbundnu hækkunina í júní 2011 og gengið búið að veikjast um 6,3% yfir sama tímabil. Þannig voru sömu kraftar að verki árið 2011 og nú í dag, nema með gagnstæðum formerkjum. Auknum launahækkunum fylgir aukin neysla á vörum og þjónustu fyrirtækja og því rangt að fjalla aðeins um laun sem kostnað gagnvart fyrirtækjum.

Sjá nánar á vef VR.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: