- Advertisement -

„Rugludallurinn“ sem hafði rétt fyrir sér

Marinó G. Njálsson:

Ég tel að þessu marki ekki verða náð nema að hagstjórnin batni mjög mikið og þar standa flest spjót á Seðlabankann annars vegar og ríkissjóð hins vegar, en fjármálakerfið verður að hætta að láta sem það sé ekki undanþegið ábyrgð.

Efnahagsmál Í minningum dagsins kom upp gömul færsla, þar sem ég var að vitna í Andrés Magnússon, lækni, en þeir sem eru nógu gamlir muna kannski eftir því, að hann var stimplaður rugludallur fyrir að telja eitthvað rangt við fjárhagsstöðu bankanna í febrúar 2008. Honum var sagt, að hann ætti bara að halda sig við sitt fag, því hann hefði ekkert vit á málefnum bankanna. Svo kom í ljós, að Andrés hafði rétt fyrir sér, en allir „snillingarnir“ í bönkunum voru á fullu að fela raunverulega stöðu þeirra fyrir okkur hinum eða voru með hausinn á kafi í sandinum og sáu því ekki hvað var að gerast í kring um þá.

Við vitum öll hvernig það endaði. Gamlir bankar hrundu og almenningur varð að borga fyrir það háum fjárhæðum sem runnu til nýrra banka og mynduðu hagnað þeirra og eru enn að mynda hagnað þeirra.

Eitt af því sem Andrés benti á í febrúar 2008 var hinn aukalegi vaxtakostnaður sem heimilin í landinu (og vissulega allir aðrir líka) greiddu/greiða til bankanna umfram það sem heimili á öðrum Norðurlöndum gerðu/gera. Hefur munurinn oftast verið margfaldur, stundum tugfaldur, en mjög sjaldan innan við þrefaldur. Síðan bætist við, að á hinum Norðurlöndunum lækka vaxtagreiðslur skattstofn einstaklinga gagnvart hátt í 60% reiknaðra skatta. (Svo ég skýri þetta nánar, þá dragast í Danmörku fjármagnsgjöld frá skattstofni tekna sem 24,35% skattur reiknast af, en ekki af skattstofni tekna sem 20,06% skattur reiknast af. Fjármagnstekjur bætast síðan við skattstofninn. Þetta þýðir að af hverjum 4 kr. sem greiddar eru í vexti, þá fær viðkomandi 1 kr. til lækkunar á skattgreiðslu.)

Vextir húsnæðislána á Íslandi hafa eitthvað lækkað…

Þarna árið 2008 var munurinn á húsnæðisvöxtum ca. 10 prósentustig, þ.e. af 10 milljóna skuld greiddi íslenska heimilið um 1 m.kr. meira á ári til húsnæðislánveitanda síns en danskt, norskt, sænskt eða finnskt heimili. Til að hafa viðbótar ráðstöfunartekjur upp á 1 m.kr., þurfti heimilið að hafa rétt rúmlega 1.620.00 kr. hærri tekjur/laun, sem þýddi líklega 2,2 m.kr. í viðbótarkostnað fyrir launagreiðandann. (Notast er við reiknivél Skattsins, en hún leyfir notandum að reikna staðgreiðslu af launum aftur til ársins 2004.) Athugið að ég tek skattaendurgreiðsluna ekki með í þetta sinn, þannig að enn vantar 400.000 kr. upp á.

Vextir húsnæðislána á Íslandi hafa eitthvað lækkað frá febrúar 2008, en eru samt líklega frekar nálægt hámarki vaxta á þessari öld. Á nýjum nafnvaxtalánum eru þeir almennt á bilinu 9-11% (fastir til 5 ára lægstir og breytilegir hæstir) og á verðtryggðum lánum slaga þeir í 4% og við þessi 4% þarf að bæta verðbólgunni (núna 6,7%). Samanlagt eru því verðtryggðir vextir og verðbætur á pari við breytilega vexti nýrra nafnvaxtalána. Nágrannar okkar á Norðurlöndum eru hins vegar að borga 4% vexti séu þeir festir til allt að 30 ára, en geta fengið þá niður fyrir 3% séu þeir breytilegir. Munurinn er því ca. um 5-7% á lánum með föstum vöxtum og allt að 8% á lánum með breytilegum vöxtum. Svo má bæta 1 prósentustigi við vegna skattafrádráttarins.

Þannig að í staðinn fyrir að greiða 1 m.kr. aukalega vegna 10 m.kr. skuldar, þá greiðir fólk að jafnaði 750.000 kr. að meðaltalinni skattaendurgreiðslunni á Norðurlöndunum. Fyrir fjórum árum var þessi munur kominn niður í ca. 350.000 kr. Munurinn á 2008 og 2024 er að fólk þarf núna að greiða umtalsvert meira fyrir þak yfir höfuðið en það gerði þá. Líklegt er að meðalskuld við kaup hafi því aukist um hátt í 200% og því sé 10 m.kr. skuld árið 2008 ígildi 30 m.kr. skuldar í dag. Vissulega hefur húsnæðisverð á hinum Norðurlöndunum hækkað líka, en sú hækkun er mun lægri. Samkvæmt upplýsingum af vefnum boliga.dk, þá hækkaði meðalfermetraverð í fjölbýli í Danmörku um 67% frá 1. ársfjórðungi 2008 fram á 3. ársfjórðung á síðasta ári.

Lægri vextir lækka útgjöld heimilanna…

Sá sem þurfti 1.620.000 kr. viðbótartekjur árið 2008 til að standa undir vaxtamuninum milli Íslands og annarra Norðurlanda, þarf því tæplega 3,6 m.kr. til að standa undir þessum vaxtamuni í dag eða hátt í 300.000 kr. á mánuði. Það kostar launagreiðanda viðkomandi síðan hátt í 4,7 m.kr. á ári. (Miðað er við að launatengd gjöld séu 30% ofan á launagreiðslur.)

Að lækka vaxtakostnað heimilanna (og allra annarra í leiðinni) er gríðarlega mikilvægt skref í að gera íslenskt atvinnulíf samkeppnishæfara. 300.000 kr. á mánuði hjá hverjum launþegar er líklega ekki fjarri því að vera 25-33% af launagreiðslum fyrirtækjanna og sem afleiðing sama hlutfall af launakostnaði. Væri fjárhæðinni skipt á milli launþega og launagreiðenda, þá færu báðir sáttir frá borði. Vara skal þó við því, að svona breytingar hefðu lítil áhrif á verðbólguna. Eina sem gerðist væri að vöruverð hliðraðist til, en héldi síðan sama hækkunarferli á hinni hliðruðu línu. Hins vegar ætti vöruverð og allt verðlag að lækka og minni þrýstingur verða a.m.k. tímabundið á hækkun launa.

Lækkun vaxta, til jafns við það sem er á öðrum Norðurlöndum, er einfaldlega eitt mikilvægasta mál samfélagsins til að bæta lífskjör almennings. Lægri vextir lækka útgjöld heimilanna, lægri vextir bæta rekstrarafkomu fyrirtækja, lægri vextir ættu að skila sér í lægri sköttum og gjöldum hins opinbera og lægri vextir ættu að skila sér í betri þjónustu sveitarfélaganna.

Ég tel að þessu marki ekki verða náð nema að hagstjórnin batni mjög mikið og þar standa flest spjót á Seðlabankann annars vegar og ríkissjóð hins vegar, en fjármálakerfið verður að hætta að láta sem það sé ekki undanþegið ábyrgð. Ég sagði haustið 2008, að tilraunin með sjálfstæða, fljótandi örmynt í örhagkerfi hefði mistekist. Ég hef ekki skipt um skoðun á þessum um 15 og hálfu ári. Hver myntin er, skiptir hins vegar engu máli, meðan hagstjórnin er ekki tekin styrkari tökum. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: