- Advertisement -

Sagan óholl Kamölu Harris

Sagan styður illa þá kenningu að með vali á Kamala Harris hafi Joe Biden verið að gera hana að forseta 2024. Ef hún verður forseti er líklegra að það verði ef Biden deyr í embætti.

Skoðum söguna: Það hafa fjórtán varaforsetar af 48 orðið forsetar. Það eru 29%, mitt á milli 1/4 og 1/3.

Af þessum fjórtán varaforsetum hafa fjórir orðið forsetar eftir að forsetinn var myrtur. Fjórir hafa orðið forsetar eftir að forsetinn lést í embætti af öðrum ástæðum. Einn varð forseti eftir að forsetinn sagði af sér vegna hneykslis.

Þá eru eftir fimm. Einn fór í framboð á móti forsetanum sem hann þjónaði og vann. Annar fór í framboð eftir að hafa setið sem varaforseti en tapaði, en náði svo kjöri átta árum seinna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þá eru eftir þrír varaforsetar sem voru kjörnir forsetar eftir að hafa setið sem varaforsetar: George H.W. Bush 1988, Martin van Buren 1836 og John Adams 1796. Enginn þeirra náði kjöri aftur.

Samkvæmt þessu segir sagan að það séu um 1/16 líkur á að Kamala Harris verði varaforseti í fjögur ár og fari svo í framboð 2024 og sigri þær kosningar. Og þá er ólíklegt að hún nái endurkjöri 2028.

Þetta eru þeir varaforsetar sem hafa orðið forsetar:

George H.W. Bush var varaforseti Ronald Reagan tvö kjörtímabil og sigraði svo kosningar 1988 og var kjörinn forseti, sat eitt kjörtímabil en tapaði síðan kosningunum 1992 fyrir Bill Clinton.

Gerald R. Ford varð forseti 1974 þegar Richard M. Nixon sagði af sér. Ford hafði ekki verið kjörinn varaforseti heldur var hann skipaður þegar varaforsetinn Spiro Agnew sagði af sér vegna hneykslismála. Ford tapaði síðan forsetakosningunum 1976 fyrir Jimmy Carter.

Richard M. Nixon var varaforseti Ike Eisenhower í tvö kjörtímabil, bauð sig svo fram 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Nixon bauð sig svo fram átta árum síðar og varð forseti 1968, náði endurkjöri með stórsigri 1972 en sagði af sér 1974.

Lyndon B. Johnson varð forseti þegar John F. Kennedy var myrtur 1963, bauð sig fram 1964 og náði kjöri en tók ákvörðun um að bjóða sig ekki fram 1968.

Harry S. Truman var tiltölulega nýkjörinn varaforseti Franklin D. Roosevelt, sá þriðji í röðinni, þegar Roosevelt dó vorið 1945. Truman sat út kjörtímabilið og náði endurkjöri 1948.

Calvin Coolidge varð forseti þegar Warren G. Harding fékk hjartaáfall og dó 1923 á miðju fyrsta kjörtímabili þeirra. Coolidge fór í framboð 1924, sigraði og sat sem forseti fram að vori 1929.

Theodore Roosevelt var kjörinn varaforseti annað sinnið sem William McKinley var kjörinn og varð svo forseti stuttu síðar þegar McKinley var myrtur 1901. Roosevelt var svo kjörinn forseti 1904 og sat fram á 1909. Hann reyndi svo aftur í kosningunum 1912 sem frambjóðandi Framfaraflokksins, en náði ekki kjöri.

Chester A. Arthur varð varaforseti James A. Garfield eftir kosningarnar 1880 og varð forseti þegar Garfield dó af sárum sínum eftir fáa mánuði í embætti eftir að hafa verið skotinn á lestarstöð tveimur mánuðum fyrr. Arthur sat út kjörtímabilið en bauð sig ekki fram aftur.

Andrew Johnson var seinni varaforseti Abraham Lincoln og hafði aðeins setið rúman mánuð í embætti þegar hann varð forseti 1865 þegar Lincoln var myrtur. Liltu mátti muna að þingið setti hann af og hann bauð sig ekki fram 1868.

Millard Fillmore var kjörinn varaforseti Zachary Taylor 1848 og varð forseti þegar Taylor lést tveimur árum siðar. Fillmore sat út kjörtímabilið en fékk ekki tilnefning flokks síns til að sækjast eftir endurkjöri 1852.

John Tyler var kjörinn varaforseti William Henry Harrison 1840 og varð forseti þegar Harrison lést af veikindum sínum aðeins 31 degi eftir að hann tók við embættinu. Tyler sat út kjörtímabilið en var ekki í kjöri 1844.

Martin van Buren varð varaforseti Andrew Jackson seinna kjörtímabils hans eftir kosningar 1832 og fór í framboð 1836, náði kjöri og sat eitt kjörtímabil en tapaði kosningunum 1840 fyrir William Henry Harrison.

Thomas Jefferson varð varaforseti John Adams eftir að hafa tapað fyrir honum í forsetakosningunum 1796. Þeir voru aftur í framboði 1800 og þá sigraði Jefferson og sat tvö kjörtímabil sem forseti.

John Adams varð varaforseti þegar George Washington var valinn sem fyrsti forseti Bandaríkjanna og þjónaði honum í átta ár, fór þá í framboð og var kjörinn annar forseti Bandaríkjanna en tapaði kosningum eftir eitt kjörtímabil.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: