- Advertisement -

Samherji er skaðræði – 1. hluti: Guðsteinn og skipstjórakvótinn

Gunnar Smári skrifar:

Greinin er endurbirt vegna óska þar um.

Gunnar Smári.

Í nokkrum færslum langar mig að segja ykkur söguna af Samherja. Sem er ekki sagan um duglegu drengina sem keyptu hálf ónýtan togara, unnu hörðum höndum við að gera hann upp og urðu svo ríkir. Þvert á móti er saga Samherja saga þess hvernig óprúttnir menn sölsa undir sig eignir og auðlindir almennings með yfirgangi og blekkingum, oftast í samstarfi við stjórnmálafólk og annað fólk sem valið var til að gæta hagsmuna almennings en sveik. Alveg eins og hákarnir svokölluðu í Namibíu. Saga Samherja á Íslandi er algjörlega sambærileg við framferði fyrirtækisins í Namibíu. Meginstarfsemi þess er að sölsa undir sig almannaeigur og auðlindir fyrir lítið fé.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Samherja-frændur keyptu togarann Guðstein árið 1983 og gerðu upp. Kaupverðið var 47 m.kr. á þávirði eða um 895 m.kr. á núvirði. Guðsteinn var með litla veiðireynslu þegar kom að úthlutun kvóta í fyrsta skipti, rétt rúmlega 520 þorskígildistonn. Ljóst þótti að ekki væri hægt að gera skipið út með svo litlum kvóta svo þegar upp var staðið fékk Guðsteinn, eða Akureyrin eins og Samherjar-frænur nefndu skipið, úthlutað 1.380 þorskígildistonnum á Guðsteinn. Þetta voru þá rétt tæplega 0,3% af heildaraflahlutdeild á Íslandsmiðum. Miðað við varanlegt söluverð á kvóta í dag er það magn um 3.140 m.kr. virði. Segja má að Samherja-frændur hafi því keypt kvóta fyrir um 1.200 m.kr. á 895 m.kr. og fengið Guðstein ókeypis.

Guðsteinn GK sem síðar varð Akureyrin EA.

Og síðan fengu þeir úthlutað aukalega, í sárabætur fyrir að hafa keypt skip með litla veiðireynslu, kvóta sem í dag er að verðmæti um 1.940 m.kr. Samherjamenn borguðu því 895 m.kr. fyrir Guðstein en fengu 3.140 m.kr. kvótaverðmæti með.

Á þessum árum var hægt að gera slík viðskipti, á upphafsárum kvótakerfisins og fyrir framsalið þegar öllum var ekki ljós verðmæti kvótans.En 1.380 tonn var heldur ekki nægur kvóti til að gera Akureyrina út nema hluta út ári. Á þessu upphafsári kvótans gat skipstjóri skipt um pláss og við það fékk nýja skipið kvóta byggðan á veiðireynslu skipstjórans. Þetta gerði Þorsteinn Vilhelmsson, einn Samherja-frænda og einn aflamesti skipstjóri landsins. Hann hætti á Kaldbaki og réð sig á Akureyrina og við það varð kvóti Samherja ekki 1.380 tonn heldur 3.377 þorskígildistonn. Mismunurinn er 1.997 tonn, sem á þeim árum var rúmlega 0,4% af heildarkvótanum. Verðmæti þess í dag er um 4.543 m.kr.

Með því að kaupa Guðstein fyrir 895 m.kr. og að Þorsteinn skipti um pláss eignuðust Samherja-frændur kvóta sem metinn er í dag á hátt í 7,7 milljarða króna. Það var meðgjöfin sem við gáfum Samherja. Það er erfitt að segja til um hversu mikið þessi gjöf vegur í veldi Samherja í dag. Ef við reiknum með að hún hafi borið 3,5 prósent ársávöxtun síðan 1984 er hún um 26,5 milljarðar af 111 milljarða eigin fé Samherja í dag, tæplega 24% af skráðum auð Samherjamanna, en þess ber að geta að kvótinn er þar ekki skráður á markaðsverði.

Þegar Þorsteinn Vilhelmsson gekk út úr Samherja árið 2000 fékk hann 3 milljarða króna fyrir hlut sinn. Það gera um 7 milljarðar króna á núvirði, mikið fé en vart nema sæmileg ávöxtun á skipstjórahlutinn sem hann færði fyrirtækinu 1984.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: