- Advertisement -

Samherji er skaðræði – 3. hluti: Styrkir vegna raðsmíðaskipa mjólkaðir

Greinin er endurbirt vegna óska þar um.

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Sagan af Samherja í nokkrum hlutum. Ekki sagan um duglegu drengina heldur saga þess hvernig óprúttnir menn sölsa undir sig eignir og auðlindir almennings með yfirgangi og blekkingum, oftast í samstarfi við stjórnmálafólk og annað fólk sem valið var til að gæta hagsmuna almennings en sveik.

Árið 1986 keypti Samherji nýtt skip, Oddeyrina, sem var svokallað raðsmíðaskip. Það var átak til styrkingar skipasmíðaiðnaði hérlendis. Styrkurinn fólst meðal annars í því kaupverðið var á núvirði um 265 m.kr. lægra en framleiðsluverð. Auk þess fylgdi kaupunum 200 tonna þorskígildistonn af botnfiskkvóta og sóknardaga á úthafsrækju. 200 tonn árið 1986 voru 0,05% af heildarkvótanum, sem telst vera um 550 m.kr. virði í dag. Árið 1988 var svo settur kvóti á úthafsrækju samkvæmt veiðireynslu og við það hækkaði kvóti Oddeyrar upp í um 1.589 þorskígildistonn. Viðbótin, 1.389 tonn, var árið 1988 rúmlega 0,3% af heildarkvótanum, sem í dag eru að verðmæti um 3.820 m.kr. Samanlagður styrkur til Samherja vegna Oddeyrar var því á árunum 1986-88 um 4.635 m.kr. á núvirði. Ef við leggjum 3,5 prósent ársávöxtun á þetta framlag ætti það að vera um 14,4 milljarðar króna í dag, um 13% af eigin fé Samherja. Til viðbótar 50,5 prósentunum sem komu vegna upphafsgjafar landsmanna til Samherja og snúningsins á Hafnfirðingum. Samanlagt er þá hægt að skýra um 63,5% af auð Samherja sem meðgjöf frá landsmönnum vegna Akureyrar og Oddeyrar.

Þegar Samherji svo loks borgaði Oddeyrina voru verulegir fjármunir afskrifaðir.

Reyndar lögðu landsmenn meira til Oddeyrarinnar. Þeir Samherja-frændur neituðu að skrifa undir skuldabréf sem var lán vegna smíðar raðsmíðaskipanna og sem kaupendur áttu að taka yfir. Úr þessu verð mikil deila sem stóð í áratug. Þegar Samherji svo loks borgaði Oddeyrina voru verulegir fjármunir afskrifaðir, stór hluti vaxta og allir dráttarvextir, að verðmæti um 1.420 m.kr. á verðlagi dagsins í dag. Samanlagða meðgjöf landsmanna til Oddeyrar mætti því meta á 15,8 milljarða króna í dag eða um 14,4% af auð Samherja. Ef niðurfelling skulda vegna uppgjörs Oddeyrar er tekin með má rekja um 64,9% af auð Samherja til gjafa landsmanna á fyrstu þremur starfsárunum eftir að frændurnir keyptu Guðstein. Það er nokkuð.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: