- Advertisement -

Sannleikurinn um Gaza?

Hinar stórfelldu og linnulausu stórskotaliðs-, sjóhers- og flugvélaárása á Gazaborg virðast því ekki þjóna neinum beinum hernaðarlegum tilgangi.

Óli Anton Bieltvedt skrifar.

Óli Anton Bieltvedt skrifar:

Ísraelsmenn virðast vinna að því, ljóst og leynt, að leggja Gazaborg í rúst, jafna hana við jörðu, limlesta og drepa almenna borgara, og hrekja þá, sem eftir lifa, út í Sínaí-eyðimörkina

Norska ríkissjónvarpið, NRK, gerði fyrir nokkru úttekt á Hamas-samtökunum. Niðurstaðan var, að þeir séu 20-50 þúsund talsins, eftir því sem stig „herkvaðningar“ er, og, að þeir byggju yfir neðanjarðargöngum og -birgjum, undir Gaza- svæðinu, með ótal afdrepum, skýlum og inn- og útgöngum, sem næmi lengd neðanjarðalestarkerfis Lundúna. Yfir 400 km.

…áróður til að réttlæta dráp og djöfulgang Ísraelshers gegn sjúkum, særðum og þjáðum.

Í þessu gangnakerfi, „Gaza Metro“, hafa Hamasliðar komið sér tryggilega fyrir, með sína upphalega 240 gísla, nú 130, sem aðeins hafa gildi fyrir þá lifandi, allt að 40 metrum undir yfirborði jarðar, að miklu leyti öruggir fyrir stórfelldu og linnulausu stórskota- og sprengjudrífi Ísraelshers.

Auðvitað vita Ísraelsmenn þetta. Auðvitað vita þeir líka, að strategía Hamas er „hit-and-run“ (árás-og-flótti), en milli árása láta þeir sig hverfa niður í sín neðanjarðargöng og -skýli, þar sem Ísraelsher nær illa til þeirra.

Ísraelsmenn vita því augljóslega líka vel, að Hamas-liðar eru ekki að fela sig í sjúrkrahúsum og skólum – af hverju ættu þeir að þurfa þess – þeir hafa sín nánast óendanlegu neðjarðargöng og -birgi.

Ásakanir Ísrelsmanna um, að Hamasliðar feli sig í sjúkrahúsum og skólum, og, að þeir þurfi því að ráðast á þau, helzt sprengja þau í loft upp, fá því vart staðizt og virðast uppspuni og áróður til að réttlæta dráp og djöfulgang Ísraelshers gegn sjúkum, særðum og þjáðum.

Hinar stórfelldu og linnulausu stórskotaliðs-, sjóhers- og flugvélaárása á Gazaborg virðast því ekki þjóna neinum beinum hernaðarlegum tilgangi. Þær virðast heldur ekki ganga út á það, að fella Hamasliða, eða frelsun gísla, heldur aðallega út á það, að gjöreyða Gazaborg, húsnæði, byggingum, innviðum – símakerfum, rafmagnskerfum, vatnsveitum, vega- og samgöngukerfum – lífsviðurværi og framtíðar afkomumöguleikum paletínska fólksins þar.

Ég taldi mig sjá í gegnum þennan blekkingarvef, og skrifaði um það grein 13. nóvember undir fyrirsögninni: „Ekki sjálfsvörn eða gagnárás á Hamas, heldur gjöreyðingarstríð á hendur Palestínumönnum“.

Það virðist nú augljóst, að mín greining var rétt.

28. desember átti Yama Wolasmal, fréttamaður norska ríkissjónvarpsins, NRK, viðtal við Giora Eilnad, fv. yfirhershöfðingja í Ísraelsher, en hann var einnig formaður þjóðaröryggisráðs Ísrael til margra ára.

Í meira en 30 ár var Eiland einn áhrifamesti hershöfðingi Ísraelshers, IDF, og bar m.a. ábyrgð á skipulagi og uppbyggingu IDF. Þó hann hafi nú að forminu til látið af störfum, nýtur hann enn mikillar virðingar og hefur mikil áhrif á stjórnmál og hernaðarmál Ísraela.

„Þetta eru mæður, systur og konur Hamasliða.“

Í netútgáfu viðtalsins á NRK.no er fyrirsögnin þessi: „Ísraelskur fv. hershöfðingi vill svelta og hrekja í burtu almenna borgara á Gaza (út í Sínaí-eyðumörkina/Egyptaland). Gazaborg verði að breytast í stað, þar sem enginn maður vill eða getur lifað“. Síðan segir, að hershöfðinginn vilji ekki gera nokkrun greinarmun á Hamasliðum og almennum borgurum (í skriðdreka-, eldflauga- og sprengjuárásum Ísrelshers).

„Ísrael verður að skapa svo mikla mannúðarkrísu á Gaza, að hundruð þúsundir (almennra borgarara; barna, kvenna og gamalmenna) neyðist til að leitar verndar og lífsviðurværis í Egyptalandi (í Sinaí-eyðimörkinn). Mannskæðir sjúkdómar og drepsóttir munu tryggja Ísraelsmönnum sigurinn“, er svo haft eftir Eiland, en þar er vitnað í skrif hans í útbreiddum ísraelskum netmiðil, Ynet.

NRK rifjar svo upp, að Hamasliðar hafi drepið 1.139 Ísraela, þar af 36 börn, í árás sinni 7. október. Í millitíðinni hafi Ísraelsher og landtökumenn á Vesturbakkanum drepið 22.000 Palistínumenn, þar af 8-9.000 börn.

Svo kemur fyrisögnin „Vil ramma sivile“. M.ö.o.: Eiland vill keyra hart á almenna borgara og engum hlífa í árásarstríði IDF. „Ísraelshers á ekki að gera nokkrun mismun á Hamasliðum og almennum borgurum, konum ekki heldur“, skrifar hann svo í útbreiddasta dagblaði Ísraels, Yediot Ahronot. „Hverjar eru „aumingjans“ konurnar á Gaza?“ spyr hann svo, og svarar sjálfur: „Þetta eru mæður, systur og konur Hamasliða“. M.o.ö. alla þetta fólk er réttdræpt, og það í sama mæli. Hann gleymir reyndar að nefna börnin, en þau eiga augljóslega að fylgja með.

Síðan segir NRK, að margir leiðandi menn í Ísrael, bæði stjórnmálamenn og almennir borgarar, hafi tjáð sig með svipuðum hætti. Forseti Ísrael, Isaac Herzog, hafi líka sagt, að almenningur á Gaza sé fullkomlega lögmætt skotmark, þar sem hann hafi ekki risið upp gegn Hamaz (það væri reyndar fróðlegt að vita, hvernig vopnlausar konur, börn og gamalmenni ættu að gera það!? – Væru þá rússneskar konur, gamalmenni og börn líka réttdræp, af því að þau hafa ekki risið upp gegn Pútín!?).

Síðan segir í fréttinni, að leyniþjónusta Ísraels hafi nú þegar gert plön um, hvernig nauðungarflytja megi 2,2 milljónir Gazabúa út í Sinaí-eyðimörkina, og, að forsætisráðherra landsins, Benjamín Netanjahú, sé að reyna að fá vini Ísraels í Evrópu til að styðja slík plön.

Eins er vert að hafa í huga, að SÞ hafa lengi staðið fyrir þeirri lausn í þessari hræðilegu deilu, sem kölluð er tveggja-ríkja-lausnin…

Eiland hnykkir á málflutningi sínum með því, að hvetja til þess, að hætt verði með öllu, að dreifa matvælum, vatni, neyðarhjálp og eldsneyti inn á Gazasvæið, til að gera líf manna óbærilegt þar, og, væntanlega, setja af stað sjúkdómsfaraldra og drepsóttir samhliða vaxandi eða algjörri hungursneyð.

Ég hef séð margt, horft upp á margt grátlegt, ljótt og hryllilegt, á all langri ævi, grimmd, illsku og djöfulgang, mannvonsku, hatur, miskunnarleysi, nánast í takmarkalausum mæli, en ég verð að segja, að þetta viðtal og þessi – að því er virðist – útbreidda afstaða í Ísrael, gera mig orðlausan. Mér fallast hendur.

Ef þetta er „sannleikurinn um Gaza“, eru Gyðingar sjálfir að setja af staða mikla og öfluga öldu Gyðingahaturs, kannkse þá mestu um áratuga eða alda skeið, sem mun svo hvelfast yfir þá um ókomna framtíð. Verður þá ekki við aðra að sakast.

Rétt er að ljúka þessari úttekt með því að minna á, að það land, sem Ísraelsríki stendur nú á, var land Palestínumanna, Palestína, fram til 1948, þegar þeir voru neyddir til að láta verulegan hluta af því af hendi til Gyðinga.

Eins er vert að hafa í huga, að SÞ hafa lengi staðið fyrir þeirri lausn í þessari hræðilegu deilu, sem kölluð er tveggja-ríkja-lausnin, þar sem skipta átti landinu og gæðum þess milli Palestínumanna og Gyðinga, en henni hafa Ísraelsmenn hafnað, þó að flestar þjóðir heims, líka Biden/Bandaríkjamenn, séu henni fylgjandi.

Ísraelsmenn virðast aðeins sætta sig við að fá allt landið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: