- Advertisement -

Skólakerfið er fúið eins og gamall ruggustóll

Stóra lekamálið í Moggahöllinni, þjóðhátíðardagurinn í Costco og hálfvitaleg afskipti borgarstjóra af verkum ríkislögreglustjóra, er meðal efnis þessa vikuna.

Lekamálið mikla í innanríkisráðuneytinu er enn mörgum í fersku minni, þótt rykið sé fallið til jarðar. Enn dynur á okkur lekamál og enn alvarlegra. Þvagleki í Morgunblaðshöllinni og það beint í ruslatunnur á fyrstu hæðinni. Þessi mikla plága hefur valdið tölvupóstsendingum sem hafa einnig lekið, bara ekki í ruslatunnuna heldur til samkeppnisaðila. Málið er litið alvarlegum augum og spurning hvort Kári Stefánsson verði kallaður til og þvagprufa tekin til að komast í botns í málinu.

Já sjómannasunnudagurinn fór fram um síðustu helgi  Ég hugsaði með mér að nú hlyti þjóðin að fjölmenna á hátíðir og hafnarbakkinn í Reykjavík yrði vinsæll. Þess vegna ákvað ég að hoppa í Costco og fá næði til að skoða mig um og grípa með mér jarðaber. Nei ég las vitlaust í stöðuna og það liggur fyrir að réttast væri að kasta upp hoppuköstulum á Kauptúni og kasta fjallkonunni upp á fílinn í Costco á sjálfan þjóðhátíðardaginn á morgun. Þjóðin er í Costco. Costco er komið með 25% markaðshlutdeild á eldsneytismarkaðnum í landinu með eina bensínstöð og spurning hvort Garðabær hendi ekki upp vegaslóðum í móann og þar rísi hjólhýsahverfi. Það dregur úr bílaumferð, mengun og leysir húsnæðisskortinn í borginni.

Viljum við sykurskattinn aftur ? Mitt svar er nei, ég er ekki á því að rétta leiðin að bættri lýðheilsu sé í gegnum skattheimtu. Sykur er í mörgum tilfellum fíkn og við vitum að áfengissjúklingar hætta ekki að drekka þrátt fyrir hækkun í Vínbúðunum. Lýðheilsa næst með samstilltu átaki sem birtist í fræðslu, hvatningu til hreyfingar og að neytendur séu meðvitaðir um heilsusamlegra líferni.  Við eigum frekar að setja lög sem banna sykursprautun í matvælaframleiðslu, beikon, kjúklingabringur og annað er til að mynda sykursprautað. Já og það sem er ekki sykursprautað er oftar en ekki dýrara. Þannig leiða þeir neytendur í sykurgildruna. Byrjum á að draga úr sykri í matvælaframleiðslu, sérmerkjum vörur með varnaðarorðum um sykurinnihald, beinum fólki á beinu brautina,  hærri skattar bera bara í skauti sér meiri kostnað hjá ómeðvituðum neytendum sem oftar en ekki gera sér ekki grein fyrir öllum þeim sykri sem er lætt í matvælin með blekktum innihaldslýsingum.

Það er ömuleg staðreynd að hryðjuverkaárásirnar í Evrópu eru okkur óþægilega nálægar. Sama hvort við séum stödd erlendis eða hér heima. Ég heyrði konu í útvarpsviðtali sem sagði frá því að hún hafi verið stödd með barnabarninu sínu á sama stað og hryðjuverkið átti sér stað í Stokkhólmi, en bara deginum áður. Þarna hefði hún og barnabarnið hennar auðveldlega getað verið fórnarlömb. Tala nú ekki um mæðgurnar á tónleikunum í Manchester. Ríkislögreglustjóri greindi frá því í vikunni að það eru einstaklingar staddir á landinu sem eru undir eftirliti, þeir voru það líka flestir sem hafa framið ódæðin. Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðana og löggjöf eru með þeim hætti að ekkert er hægt að gera fyrr en brotið er framið. Að stjórnmálamenn séu að mótmæla auknu öryggi borgara er vægast sagt einkennilegt. Sérsveitin fylgdist með color run og borgarstjóri er gáttaður yfir því að hann hafi ekki verið látinn vita. Þarf ríkislögreglustjóri leyfi borgarstjóra til að sinna verkefnum sínum ? Ef það er skotárás, þarf þá fyrst leyfi herra borgarstjóra til að grípa til aðgerða?  Ætlar borgarstjóri þá að axla ábyrgð ef til árásar kæmi?  Alheimurinn er lítill, flæði fólks landa á milli er mikið og landamæri alltof mikið opin. Við ættum að rífa upp, breyta löggjöf á þann hátt að við getum vísað úr landi fólki sem við teljum að stafi ógn af.  Leyfum  löggæslufólki að meta ástandið og vinna út frá því, þetta snýst ekki um pólitík, heldur um landsmenn.

Margrét Pála Ólafsdóttir frumkvöðull Hjallastefnunnar er snillingur. Á meðan stjórnmálamenn þrasa með og á móti einkarekstri í skólakerfinu hefur hún sýnt fram á gríðalegan árangur í rekstri sínum. Nú síðast var hún í fréttum með einkarekinn grunnskóla á landsbyggðinni sem blómstrar eins og falleg Hansarós við húsvegg í Grafarvoginum. Ánægja nemenda hefur stóraukist, einkunnir rjúka upp, nemendur koma mun betur undirbúin inn í framhaldsnámið, hvað viljum við meira? Margrét Pála hefur sannað það fyrir stjórnmálamönnum sem þrasa út í eitt og hafa gert það áratugum saman að grótgróna skólakerfið þar sem engu má breyta, nema jú launum kennara, er fúið eins og gamall ruggustóll á háalofti.  Hættið þessu röfli, breytið, bætið og þá verða allir sáttir þegar árangurinn skilar sér.

Góða helgi,

Árni Árnason.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: