- Advertisement -

Meira um Costco og framfarir Sigmundar Davíðs

Opnunin fékk nær meiri athygli en sjálft þorskastríðið á sínum tíma.

Hræðslan við offrosið kjötmeti í Costco, hryðjuverk, meira um Costco og framfarir Sigmundar Davíðs, en samt er það eiginlega Costco sem stendur upp úr þessa vikuna. Mæli með að fjölskyldur leigi sendiferðabíl um helgina og eyði henni í Costco, hver þarf ekki 25 lítra af bílasápu? 

Costco-æðið reið loksins yfir þjóðina í vikunni. Netmiðlar sýndu beint frá því er hurðin var rifin upp snemma að morgni þriðjudags þar sem íslendingar streymdu inn í búðina. Enda höfðu margir staðið klukkustundunum saman í biðröð. Opnunin fékk nær meiri athygli en sjálft þorskastríðið á sínum tíma. Enda ekki von, að ganga þarna inn er eins og að detta yfir til Bandaríkjana. Víðáttan í allar áttir, hnausfull vörubretti, Gíraffi í fullri stærð og sykurpúðar,uppblásnir bátar, BMW, pizzur, sólhúsgögn og svona má lengi telja. Flest allt á verði sem við höfum ekki séð í fákeppninni. Það ber að fagna því að nú sé kominn risi á markaðinn sem í raun sendir þeim sem hafa kúgað fé út úr þjóðinni fingurinn. Mesta grínið varðandi opnunina var viðtal við forstjóra Skeljungs sem rökstuddi svívirðilega álagingu olíufyrirtækjanna með því að þeir bjóða upp á þjónustu, bílaþvottaplön og ryksugur. Já tjörumettaðir kústarnir sem sarga sig í gegnum lakið og grútskítugir ryksugubarkar sem oftast eru stútlausir. Já skömmin er þeirra því nú hefur það góðan tilgang að skreppa í Garðabæ og tanka bílinn. Einhver benti á að fyrir meðal bíl er sparnaðurinn á bensíni yfir 50 þúsund á ári – það munar um minna.

Hræðilegir atburðir sem áttu sér stað í Bretlandi í vikunni hreyfa við vestrænum þjóðum. Fjölmiðlar moka fréttunum inn og rífa ekki bara upp sorgina heldur reiðina líka. Hryðjuverkaárásir eru skelfilegar, en allt ofbeldi er það líka. Vestrænar þjóðir hafa oftar en ekki svarað hryðjuverkum með ofbeldi. Sprengt upp konur og börn í Sýrlandi. Þá birtist kannski ein frétt um atvikið og það er öllum sama. Mikið er ég leiður yfir allri grimmdinni sem ríkir í heiminum. Þetta er ofar mínum skilningi. Að við í hinum vestræna heimi séum á sama plani og hryðjuverkamenn er ekki eðlilegt. Ég hef þó enga lausnir gegn hryðjuverkum, en ég veit bara að það er aldrei réttlætanlegt að svara ofbeldi með ofbeldi. Ég vona að getum farið að lifa í sátt og samlyndi þar sem fjölbreytileikinn fær notið sín.

En til að fjölbreytileikinn geti blómstrað þurfa allir aðilar að koma að borðinu, þar á meðal múslimar. Skítakökuna þessa vikuna fær ferðaþjónustufyrirtækið sem tók á móti ferðamönnum sem allir eru múslimar. Hópurinn stefndi á rútuferð, en þegar bílstjórinn, sem er kona, mætti á svæðið varð allt vitlaust. Múslimarnir neituðu að ferðast með kvenmannsbílstjóra. Fyrirtækið brást við með þeim hætti að skipta konunni út fyrir karlkyns bílstjóra. Þvílík vonbrigði, fyrirtækið hefði átt að sjá sóma sinn í því að standa með kvenfrelsi í landinu og almennum mannréttindum og í síðasta lagi að hafa þor til að standa með starfsfólkinu sínu. Ég er sannfærður um að þetta fyrirtæki hefði lifað af tapið við það eitt að afþakka boð um þjónustu við þennan hóp.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Aðeins meira um Costco, enda á allra vörum, nema kannski Sigrúnar. Sigrún fyrrum umhverfisráðherra og framsóknarkona er í raun eins og gamall hestavagn í miðjum umferðarþunga borgarinnar á háanna tíma. Hún ætlar aldrei í Costco af hræðslu við offrosið kjötmeti.  Í Costco er mikið magn af ferskri kjötvöru og úrvalið þvílíkt að íslendingarnir stóðu agndofa. Sigrún greyið, sem er soldið eins og margir í Framsóknarflokknum, er föst í torfkofahugsjóninni og ætti að parkera hestavagninum, leggja sauðskinsskónum og vera einfaldlega með í nútíma samfélagi, elsku Sigrún þú ert ágæt kona, ég er ekki að ljúga að þér að það er gaman að vera til á tuttugustu og fyrstu öldinni – vertu með elskan.

Íslenska heilbrigðiskerfið í öðru sæti, en það danska í tuttugasta og fjórða, hvað segja jafnaðarmenn við því?  Það er vægast með ólíkindum hvað við íslendingar getum talað niður jákvæða hluti í samfélaginu. Meira er að stjórnmálamenn séu þátttakendur í slíku er auðvitað með eindæmum. En sem betur fer hefur þjóðin ekki áhuga á 50% tekjuskatti í skiptum fyrir danska heilbrigðiskerfið. Það sem kemur mér mest á óvart í þessu er að það þurfi í raun heilbrigðiskerfi í Danmörku, miðað við lýsingar íslendinga sem þar búa. Dásemdin upp um alla veggi, heilsan í fyrirrúmi á reiðhjólunum, einn kaldur á kantinum eftir vinnu þetta hljómar allt svo himneskt.

Nokkuð þægilegt að starfa á vinnustað þar sem ekki er hægt að reka þig. Alþingi íslendinga er einn slíkur vinnustaður þar sem þú ert ráðinn í fjögur ár í senn og getur í raun gert hvað sem er á tímabilinu. Sigmundur Davíð hefur ekkert verið að stressa sig á því að mæta til vinnu eins og tíðnefnt er orðið. Nú segir kappinn að umræðan þar sé ekki frjó og vitræn. Þess vegna er hann knúinn til að stofna hugarveituna framfarafélagið. Hann þrætir fyrir að þetta sé stjórnmálaflokkur, en það kæmi ekki á óvart að þetta sé upphafið að klofningi Framsóknarflokksins. Hvort það sé offrosið kjötmeti í Costco sem greinir þá á eða glæsileg forsætisráðherratíð Sigmundur verður að koma í ljós síðar þegar Sigmundur og félagar koma út úr skápnum með tilgang þessa félags.

Góða helgi,

Árni Árnason.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: